Grand Prix der Volksmusik 2010: Austurríska forkeppnin

Austurríska forkeppni Grand Prix der Volksmusik fór fram laugardaginn 22. maí síðastliðinn, og skilst mér á öllu að hún hafi þótt fara vel fram. Fimmtán keppendur voru skráðir til leiks, og þarsem einungis fjórir fengu náð til að halda áfram í úrslitin voru býsna margir sem lágu sárir hjá garði í lok kvölds. Ég tiltek þar sérstaklega þau skötuhjú Leónu og Sven sem komust í úrslitin í fyrra en urðu að sætta sig við tíunda sætið í ár með lagið sitt „Diese Welt ist wunderschön,“ þrátt fyrir glæsilega hækkun um hálfan og alltsaman. Meðal annarra sem rétt misstu af úrslitasæti voru fljóðin hvert öðru föngulegra: Marlena Martinelli með „Komm doch verführ mich„, Leona Anderson (samt ekki sú sem söng um rottur í herberginu sínu) með „Bitte gib gut auf mich acht“ og Hannah með „Magst mi eh„.

En nóg um það.

– – –

Það gladdi mitt litla hjarta að sjá að Die Grubertaler ná inn í úrslitin fyrir Austurríkis hönd annað árið í röð, hörkuðu sig uppí fjórða sætið með 7,58% atkvæða. Í fyrra sungu þeir Námadalsbræður um hætturnar við það að glápa á stelpur meðan að maður er að keyra bíl. Ég hef ekki lagt mig eftir því hvað þeir Florian, Michael og Reinhard eru að syngja um í laginu „Wenn, dann jetzt“ í ár — hvað það er sem þurfi til að vera núna.  En ef einhverjir eru núna í GPdV, þá eru það tvímælalaust Die Grubertaler, í þessum óvenju smekklegu vestum með útsaumaða hljómsveitarmerkinu og alles. Þótt ég sé ekki frá því að þeir séu í nákvæmlega sömu gallabuxunum og í fyrra, í mesta lagi búnir að þvo þær:

– – –

Í þriðja sæti með 8,90% atkvæða lenti hljómsveitin  Die Wörtherseer. Þeir Charly, Seppi, Wolfi og Tommy hafa spilað sig saman í fjölda ára og slógu loks í gegn á austurrískan mælikvarða með laginu sínu „Komm tanzen, mi amor.“ Því miður virðist ekki hægt að finna vídeó af flutningi þeirra frá undanúrslitakvöldinu, en í staðinn fann ég eitthvað fríkað þjónvarp þar sem sá fáheyrði atburður á sér stað að Volksmúsíkurlistamenn bresta sjálfir í söng ósvikinni röddu í lifandi flutningi. Heyrn er sögu ríkari, segi ég nú bara. Svo hvetur hann Seppi áhorfendur til að vera duglegir að kjósa þá í undanúrslitunum (sem greinilega hefur borið árangur) og í restina er örstuttur hljóðbútur af laginu eins og það á að vera, ekki sungið hrárri röddu eins og af einhverjum andskotans amatörum:

– – –

Það voru tvö lög sem skáru sig úr á austurríska kvöldinu, a.m.k. hvað varðaði vinsældir hjá innhringjendum. Í því sem greinilega hefur verið æsispennandi símakosning fyrir þá sem fylgdust með númerunum hrannast inn um kvöldið urðu strákarnir í Junge Paldauer því miður að láta sér duga annað sætið með 18,83% atkvæða fyrir lagið „A Bass, a Gitarr und a Ziehharmonika.“ Þeirra helsta sérstaða ku felast í því að bjóða uppá Das Top Live Erlebnis, hvorki meira né minna. Ef rétt er, þá er það aldeilis ekkert til að hæðast að, í þessum bransa. En flutningur þeirra hér á laginu um bassann, gítarinn og dragspilið er þó blessunarlega eins ólifandi á allan máta og hugsast getur, svo sannir aðdáendur Volksmusik þurfa engu að kvíða:

– – –

Hver man ekki þá daga þegar Útvarpið með stórum staf var eitt um hituna á öldum ljósvakans og flutti landsmönnum reglulega nýjustu tíðindi úr þýska Volksmúsíkurgeiranum. Þá riðu hetjur um héruð og enginn þótti maður með mönnum í bransanum nema hann hefði hljómsveit hans sér til fulltingis. Þeir dagar virðast nú löngu liðnir og langt síðan alvöru hljómsveitarstjórar leiddu sína meðlimi til frækinna sigra á tónlistarsviðinu. Þó lifnaði aðeins í gömlum glæðum á austurríska úrslitakvöldinu, þarsem sjarmörinn Marco Ventre og hljómsveit hans rétt mörðu Junge Paldauer með 19,11% atkvæða fyrir lagið „Sehnsucht war gestern,“ eða „Söknuður er svo í gær eitthvað.“

Lagið er náttúrulega bara argasti Schlager, frekar en alvöru Volksmusik. En uppfyllir þó það frumskilyrði allrar sannrar Volksmúsíkur að í það minnsta einu sinni í textanum verður að bregða fyrir minnst einu af þessum þremur orðum: Sehnsucht, Heimweh eða Schicksal. Ég get ekki boðið uppá neina hreyfimynd með laginu, bara stillimyndina af hljómsveitarstjóranum. En hann tekur sig vel út með hökutoppinn, greinilega sannur hljómsveitarstjóri af gamla skólanum hér á ferð:

– – –

Þá er ekki eftir nema þýsku lögin. Af ókunnum ástæðum sé ég framá að geta ekki fjallað um þau hérna fyrr en eftir þetta tvær til þrjár vikur. Ég get þó sagt nú þegar að það var nú meiri skandallinn maður.

Svo þangað til næst.