Grand Prix der Volksmusik 2010: Þýsku lögin

Þau fáheyrðu tíðindi áttu sér stað í vor sem leið að ZDF hætti við að senda út skemmtiþátt úr sjónvarpssal þar sem valin væru fjögur lög til að keppa fyrir hönd Þýskalands á Grand Prix der Volksmusik í Vín á föstudagskvöldið eftir viku. Í staðinn var málið sett í hendur dómnefndar sem heimullega valdi fjóra keppendur af þeim fimmtán sem höfðu komist í gegnum forvalið fyrir forkeppnina. Þótt hægt sé að nálgast lista yfir öll fimmtán lögin hafa þau farið lágt á internetinu, ef þá nokkuð hafið sig uppaf jörðinni, svo það er erfitt að leggja mat á hversu vel eða illa dómnefndinni fórst verkið úr hendi miðað við samkeppnina. En ef litið er á útkomuna er kannski óþarft að kvarta of mikið. Það vill segja, núna þessa dagana, þegar loksins er hægt að nálgast öll lögin á einu eða öðru formi – það var miklum erfiðleikum bundið langt frameftir sumri.

En framkvæmdin (eða skortur á henni) er samt náttúrulega til háborinnar skammar og illur grikkur hverjum sönnum aðdáanda vel gerðrar Volksmusik.

– – –

Þar sem ekki er hægt að raða lögunum eftir stuðningi í forkeppninni verð ég bara að raða þeim eftir mínum eigin persónulega stuðningi. Og liggur þá beinast við að byrja á henni Angelu Wiedl sem syngur lagið „Der liebe Gott macht das schon.“ Þetta lag er úr smiðju hins stórfenglega Schlagerkomponist Ralph Siegler, sem hefur verið að síðustu fjóra áratugina og átt ekki ómerkari smelli en „Und manchmal weinst du sicher ein paar Tränen (þarna í lýtalausum flutningi Oswald Sattler) og „Ein bißchen Frieden“ sem Nicole gerði ódauðlegt um árið, að ekki sé minnst á gervallt reppertorí hinnar óviðjafnanlegu diskógrúppu Dschingis Khan eins og það lagði sig (Dæmi eitt. Dæmi tvö. Dæmi þrjú). Lagið sem Angela syngur nær eftilvill ekki alveg sömu hæðum og hann Ralph náði hæst forðum daga, en ég ætla mér nú samt ekkert að leggja neitt geistlegt ljós undir mæliker.

Hún Angela er kannski ekki alveg eins heldri í hettunni, en hefur þó harkað í bransanum síðustu þrjátíu árin eða svo. Líf hennar hefur ekki verið einn samfelldur dans á rósum,  tildæmis missti hún einu dóttur sína fyrir fimm árum, sem þá var fimm ára. Kannski sækir hún í eitthvað af þeirri lífsreynslu við flutninginn, hver veit. Takið eftir skyldubundinni en afar smekklegri notkun orðsins Schicksal í öðru erindi (sbr. lögmál sem minnst var á í síðasta bloggi):

– – –

Önnur þrautreynd söng- og framkomulistakona sem mun troða upp eftir viku er Birgit Langer, sem mun syngja lagið „Komm und fang mit mir den Sonnenschein“ eftir Tommy Mustac, en hann samdi einmitt sigurlag GPdV árið 1998, „Das Feuer der Sehnsucht.“ Það er ekki alveg hlaupið að því að finna þetta lag í fullri lengd, en þó gróf ég upp hráa upptöku af lifandi flutningi hennar Birgitar frá hafnarkonsertinum í Friedrichshafen við Bodensee þann ellefta júlí síðastliðinn. Ég set hana ekki inn hér, en þeir sem hafa einlægan áhuga geta litið á upptökuna og haft í huga að hún er hvorki í fullkomnum hljóð- né myndgæðum; lagið sem um ræðir hefst þegar liðnar eru fimm mínútur og fimmtíu sekúndur. Aðrir geta hlýtt á örstutta Hörprobe hér að neðan, eða bara snúið sér að næsta lagi.

Birgit Langer
Birgit Langer

Birgit Langer – Komm und fang mit mir den Sonnenschein

– – –

Blessunarlega valdi dómnefndin ekki eintómar dívur af eldri kynslóðinni – unga fólkið fær líka sína eigin fulltrúa í ár. Belsy er suður-týrólsk söngkona sem þrátt fyrir að líta út fyrir að vera af austurlensku bergi brotin er þjóðlegri en Currywurst mit Pommes Schranke og hverjum þeim ógleymanleg sem sáu hana og Rudy Giovannini bera sigur úr býtum í GPdV árið 2007 með hið gullfallega „Salve Regina.“ Nú hefur hún parað sig saman við harmónikkuþeytinn og súkkulaðssykurhlunkinn Florian Fesl og túrar með honum vítt og breitt um Evrópu propre. Þau hlutu náð fyrir augum dómnefndar til að flytja lagið „I hab Di gern“ fyrir hönd Þjóðverja í ár. Sjáið bara hvað þau eru sæt saman:

– – –

Die Bergkameraden eru fullir metnaðar í leit að hinu eina sanna Junge, Frische, Moderne Männerköresound. Þeir rétt misstu af sigri á síðustu metrunum í fyrra, þegar þeir sungu „Ich träume von der Heimat“ með sjálfan Oswald Sattler sér til fulltingis. Nú snúa þeir Fjallafóstbræður aftur einir og óstuddir, með ísaxirnar brýndar og blóðbragð í munni, syngjandi digrum karlarómi „Cantata di Montagna“ þannig að steramettaður pungsvitinn drýpur af hverju Umlauti. Ég verð illa svikinn ef þeir standa sig ekki að minnsta kosti eins vel í ár og í fyrra.

– – –

Þá er þetta bara búið. Lokakeppnin verður haldin í Vín eftir slétta viku, og ég er búinn að gera ráðstafanir til að fjölskyldan komist nógu snemma heim úr sumarfríinu til þess að ég missi alveg örugglega ekki af þessum merkisviðburði. Svo mun ég að sjálfsögðu láta vita hvernig fór.

Fjallafóstbræður. Með þeim á myndinni er góðvinur þeirra Oswald Sattler.
Fjallafóstbræður. Með þeim á myndinni er góðvinur þeirra Oswald Sattler.

– – –

Viðauki: Á vafri mínu um vefinn uppgötvaði ég mér til ánægju að komið er nýuppfært vídeó við lagið „Komm Tanzen, mi Amor“ með Die Wörtherseer, sem sárvantaði einmitt í umfjöllun mína um austurrísku forkeppnina um daginn. Gjörið svo vel:

2 replies on “Grand Prix der Volksmusik 2010: Þýsku lögin”

  1. Hver heldur ekki með Belsy, sem er fögur eins og kvöldsólin í mynni Eyjafjarðar? Þetta currywurst er hins vegar greinilega kransæðastífla á diski.

Comments are closed.