Ég, eins og margir, hef sveiflast pólanna á milli í Icesave málinu síðustu mánuði. Síðast þegar ég tjáði mig (daginn fyrir ekki-undirskriftina hans Ólafs Ragnars) vonaði ég hálfpartinn að forsetinn myndi neita að skrifa undir og samningurinn færi í þjóðaratkvæði. Bara svo hinum almenna kjósanda yrði þröngvað til að taka sína eigin ábyrgð á fíaskóinu.
Svo fór það náttúrulega svoleiðis, og í einhvern tíma fannst mér þetta alveg voðalegt. Svo fannst mér það ágætt. Svo fannst mér þetta bara fáránlegur sirkus og tilgangslaus vitleysa. Svo fannst mér þetta aftur ágætt. Og finnst enn, á sömu forsendum og áður.
Mér finnst þetta samt enn allt vera hinn fáránlegasti sirkus.
– – –
Ég tvísté lengi lengi og vissi ekkert hvað ég ætti að kjósa: nei eða já, skila auðu eða sitja heima. Var í síðustu viku kominn niðurá að gera upp á milli tveggja seinni kostanna. Og það að ég skyldi vera hérna úti í Þýskalandi, í klukkutíma fjarlægð frá konsúlnum og auk þess með eigin ábyrgð á að koma mínu (líkastil auða) atkvæði uppá skerið gerði valið í raun auðvelt.
Svo var það bara í gær eða fyrradag að það small hjá mér dálítið svakaleg staðreynd. Og önnur í dag, kannski ekki alveg eins svakaleg, en þó allrar athygli verð.
Tökum þær í öfugri röð.
– – –
(Það eru svo enn aðrar ástæður sem aðrir hafa nefnt, fyrir sitt leyti, fyrir hverjum af kostunum fjórum. Ég sé enga ástæðu til að rekja þær hér – ég er ekki að gefa tæmandi yfirlit, bara benda á tvo punkta sem mér sýnist hafa orðið útundan í umræðunni.)
– – –
Hver sá sem eitthvað veit, veit að ef núgildandi lögum um greiðslur vegna Icesave-skuldbindinga gamla Landsbankans verði hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu, þá taka gildi þau gömlu frá síðasta sumri, þessi með skilmálum og lánakjörum þess sumars frá Bretum og Hollendingum (hvernig var það, voru þeir ekki eitthvað verri en þeir sem verið er að fara að kjósa um á laugardaginn? Ég man það ekki fyrir víst…) og tilsvarandi fyrirvörum sem alþingi setti eftirá. Og Bretar og Hollendingar vildu ekki gangast undir á sínum tíma.
Þessi lög voru samþykkt, frá hendi íslenska ríkisins. Og í raun er Bretum og Hollendingum enn í lófa lagið að samþykkja þau skilst mér, eins og t.d. Ómar Ragnarsson benti á í bloggi í dag.
Kannski ekki líklegt. En ekki útilokað.
Eins og staðan er í dag er ég ekkert svo viss að meðalkjósandinn vilji þau frekar en það sem fyrir liggur í dag. Ég bara veit það ekki – hefur einhver vegið það og metið?
En það yrði að minnsta kosti alltaf síðra en það sem lá á borðinu og beið eftir undirskrift fyrr í vikunni.
– – –
Ég vek athygli á að það er ekki hægt að velja það sem okkur langar. Það er ekki í boði. Það bjóðast tveir kostir (eða fjórir, vilji maður telja svoleiðis), og ekki nóg með að báðir séu afleitir, heldur er ekki hægt að sjá fyrir hverjar afleiðingarnar verða af hvorum fyrir sig.
Það er ekki nóg með að þetta sé rússnesk rúlletta. Þetta er rússnesk rúlletta þar sem hvert einasta hólf getur verið hlaðið, eða öll tóm, eða hvað sem er þar á milli.
Mér dettur í hug spurningin sem hann Harrý hreinlætisskerti sagði að maður þyrfti að spyrja sig: „Do I feel lucky?“
– – –
Hin ástæðan er ósköp einföld. Og hræðir mig hálfu meir.
Setjum sem svo að Hollendingar og Bretar sýni það langlundargeð að setjast aftur að samningaborði eftir að lögin verða felld í atkvæðagreiðslunni á laugardaginn. Enn þess krafist að íslenska samninganefndin hafi umboð frá öllum flokkum á alþingi.
Þetta gefur strax augaleið, er það ekki?
Ef tekur að nálgast lendingu í málinu þarsem reynt er að lágmarka skaðann beggja vegna borðs, þarsem Bretum og Hollendingum er bættur skaðinn án þess að þeir hagnist á sjálfum vaxtaprósentunum, þá veit ég hvar ég hef fulltrúa ríkisstjórnarflokkanna: Þeir hafa viljað koma þessu útaf borðinu mánuðum saman. Ég er til í að trúa því að Hreyfingarliðið þekki vitjunartímann. Og anskotakornið, einverra hluta vegna held ég meiraðsegja að Sjálfstæðismenn undir forystu Bjarna Ben myndu á endanum gera sér ljóst mikilvægi þess að fá lúkningu á málið.
En framsóknarmenn undir forystu Sigmundar Davíðs get ég bara ekki séð fyrir mér gera neitt annað en að slá hendinni á móti hverju sem býðst. Allt til að geta slegið sér uppá því heimafyrir. Það er ekkert flóknara: Það er sú strategía sem felur í sér mesta pópúlíska skammtímagróðann.
Það ætti að vera nóg fyrir þá að þrjóskast við út árið 2011, fram yfir stóru gjalddagana sem bíða okkar þá og gera allar mögulegar Icesave greiðslur árið 2016 býsna saklausar í samanburðinum.
Það er mun auðveldara að digta upp átórítet til að slá sjálfan sig til riddara þegar ríkið er hrunið og landið stjórnlaust.
– – –
(„Well, do ya, punk?“)
– – –
(P.S. Lenti í þeirri innsláttarvillu við ritunina að káið datt úr nafni Landsbankans. Það var dálítið spúkí.)