Mánaðarskipt færslusafn fyrir: september 2008

Kastrup, hlið B9

Fyrir framan mig er maður að dansa við fríhafnarkerru.

– – –

Ég velti fyrir mér hvað málið væri með alla þessa sportbari, afhverju þeir eru allir með græna veggi. Svo áttaði ég mig á því að báðir þeir sportbarir sem ég hef komið inná hérna heita O’Leary’s (hér og á Hovedbanestation) og græni liturinn því meira að gera með írsku vísunina.

– – –

Og fyrst ég hef opnað fyrir vitleysislokann í dag (sjá geimfarakomment hjá Sverri Jakobssyni): Á DTU héngu um tíma plaköt upp um alla veggi með risastórri áletrun:

SKITUR!

Ég staldraði alltaf við og lenti á villigötum með hausinn á mér þartil ég sá myndina af skíðafíflinu í púðursnjónum sem fylgdi með.

Ég man ekki smáa letrið.

– – –

Annað plakat sem hefur fengið mig til að staldra við: „Vild med dans! – Nyt komedishow med LINDA P.“

– – –

Jæja, það er farið að hleypa inn. Bara tveir tímar að ég verði kominn heim.

Afmæli og íslenska fjölskyldan

Skömmu eftir að ég fékk bílpróf – mig minnir að ég hafi verið á nítjánda ári – fengu foreldrar mínir mig til að vera bílstjórinn þeirra. Þau bjuggu þá á Hólum í Hjaltadal og þótt félagslíf á staðnum hafi verið með líflegu móti þá gerðist ekki oft að þau fóru beinlínis „út á lífið,“ eins og sagt er. En einu sinni á ári mættu þau á kaupfélagshátíð í Miðgarði, þar sem Karlakórinn Heimir hélt sína árlegu tónleika og Geirmundur Valtýsson lék fyrir dansi á eftir. Og í eitt skiptið fengu þau mig til að vera bílsjtóri og buðu mér út í staðinn. Á Karlakórinn Heimi og Geirmund Valtýsson.

Nei hvað er þetta maður. Ég skemmti mér konunglega.

En eitthvert skiptið var móðir mín á tali við eldri mann úr sveitinni og þar sem ég stóð þar skammt frá benti hún á mig og sagði að þarna væri Hjörvar sonur sinn. „Nújá,“ sagði þá maðurinn. „Og eigið þið hann bæði?“

Eitthvað kom á móður mína, svo ég skaust inn í samtalið og sagði að jújú, það stæði heima. Þetta væri náttúrulega orðið soddan rarítet í dag.

– – –

Þetta rifjaðist upp fyrir mér eftir afmælisveislu á tölvuöld sem ég var viðstaddur á sunnudaginn, þarsem sú elsta hélt átta ára fjölskylduafmæli. Þar voru allir og ég sat á meðan í vinnunni minni hérna úti og spjallaði í gegnum tölvuskerminn. Fullorðna fólkinu gekk svona og svona að sósjalísera með mér, en blessuð börnin tóku þessu sem býsna sjálfsögðum hlut. Ég frétti svo morguninn eftir að ein fjögurra ára prinsessan hefði spurt viðstadda eftir að ég var búinn að logga mig út hvort ég væri „fyrri pabbinn.“ Það þótti fyndið.

Svanamyllan, Deigsær og pressan hans Wolfgangs

Tvisvar á dag rennur lestin hjá Svanamylluaflstöðinni, einu af þessum risastóru, forljótu báknum sem í mikilfengleik sínum ná að verða eitthvað annað og meira, einkurslags tímalausir minnisvarðar um mannskepnuna. Ballardísk fegurð.

– – –

Sem leiðir til þess að ég er alltaf að hugsa um aflstöðina í Battersea. Ég sá hana einusinni sko. Úr lest, einmitt. Eretteki skentilegt.

– – –

Og þá um leið fæ ég alltaf á heilann þetta lag hérna. Sællar minningar. (Og nei, áður en þú smellir, þetta er ekki Pink Floyd. Ég lofa ég lofa.)

– – –

Þrjár nætur enn. Og þá fæ ég að sofa í mínu eigin rúmi í nokkra daga.

– – –

*dæs*

Tímans hverfulleiki (II) og stúlka á rauðum kyrtli

Var að átta mig á því að sú gleðilega stund sem svo lengi virtist í órafjarlægð er alveg að fara að renna upp: Ég flýg heim á fimmtudagskvöldið kemur. Ekki til að vera, heldur fyrir vikufrí með fjölskyldunni og setur í kúrsi við HÍ. Prógrammið er ekki fullbókað ennþá, þannig að vinir og kunningjar sem vilja nota tækifærið eru hvattir til að hafa samband í tölvupóstinn minn (hjorvarpez hjá Gémeilnum) eða í íslenska gemsann (sem ég lít á flesta daga eftir klukkan fimm að íslenskum tíma).

– – –

Gróf upp um daginn þýðingar sem ég gerði fyrir mörgum mörgum árum á textunum úr Carmina Burana, eftir að kórfélagarnir óskuðu eftir að fá þær fyrir tónleikaprógramm seinna í haust. Þær komu mér bara skemmtilega á óvart:

Stóð stúlka
á rauðum kyrtli.
Væri honum strokið
skrjáfaði kyrtillinn.
Eia!

Stóð stúlka
sem lítil rós.
Stirndi af andliti
og munni í blóma.
Eia!

Þeir kunnu þetta, munkarnir í gamladaga. Greddan er ekki endilega best fönguð með fjálglegum lýsingum á treköntum og aftaníferðum.

– – –

(Humm. Eftirá að hyggja veitir síðasta efnisgrein kannski ágætis innsýn í það hversu góð hugmynd það er að ég skuli bráðum eiga mér nokkra daga í hlýju hjónasængur.)

Um tímans hverfulleik, skalla og Hemma Gunn

Ji maður snýr sér við og það er aftur kominn föstudagur.  Reyndar yfrið nóg búið að vera að gera á mörgum vígstöðvum alla vikuna – hvunndaxorrustur hingað og þangað. Sumar unnar, aðrar óútkljáðar en engin gertöpuð enn sem komið er.

– – –

Kvudnineretteinla, hnaut enginn um það að í frásögninni skaut alltíeinu upp kollinum reiðhjól eins og skrattinn úr sauðarleggnum? Eins og ekkert væri sjálfsagðara, og meiraðsegja fullyrt að það hafi verið gamlar fréttir?

Allanna,  Elli minn ágæti fyrrum kórkompiss býr á sveitabæ hér rétt utan Hróarskeldu. Ég tók fjölskylduna með í heimsókn þangað fyrr í sumar og tók síðan strætó þangað aftur fyrir hálfri annarri viku, át falafel með honum og hans fjölskyldu og hjólaði síðan úr hlaði og heim.

Ágætis gripur. Dugar vel til síns brúks. Og í bónus fær Magnús hérmeð aðra ástæðu til að krossa sig og ésúsa þegar honum verður hugsað til mín.

– – –

Sem minnir mig á. Póstur hans á dögunum um hálffimmtugan Hamarinn leiddi til þess að það rifjaðist upp fyrir mér yndislega vellukkað samvinnuverkefni Mark Morrison, Gylfa Ægissonar og Hemma Gunn. Njótið, öll þið sem ekki hafið séð og heyrt áður (og líka þið hin sem eins og mér er þannig farið að komast alltaf í gott skap við að rifja þetta upp).

Gardening at night

 Tvær tímamótauppgötvanir sem ég gerði um nýlánaða hjólið og nýuppgötvaða skógarstíginn sem hvártveggju er búið að kynna í fyrri póstum. Ég gerði þær báðar í tengslum við tónleikana á laugardaginn; þá fyrri síðdegis þegar ég hjólaði niðrá lestarstöð og þá síðari uppúr miðnættinu þegar ég hjólaði heim:

  1. Það er vel hægt að hjóla skógarstíginn. Meiraðsegja á hjólinu mínu. Ekkert mál, svo lengi sem maður fer ekki of hratt til að geta sveigt hjá brenninetlunum sem skaga inn á stíginn.
  2. Þetta á þó bara við í dagsbirtu.

– – –

Og nei, þeir tóku það ekki. Ekki í alvörunni.

Skriðdýr, Völlurinn og merk tímamót

Attenborough brillerar á DR1 með seríu um skriðdýr. Einsog maður á að venjast er allt lesið af innfæddum þuli svo lengi sem karlinn sjálfur er ekki að mæla það af munni fram. Danski þulurinn (sem hljómar eins og geðþekk, mjúkrödduð ung kona) fannst mér lengi vel ekki við hæfi. Fyrst fannst mér eins og það hlyti að vera kvenkynið. Svo áttaði ég mig á því að vandamálið var það að hún var ekki Guðni Kolbeins.

– – –

Tónleikarnir voru æðislegir. Persónulegu hápunktarnir voru eflaust aðrir en hjá megninu af salnum – mér fannst mest gaman þegar þeir tóku gamla og góða gullmola: Fall on me, Exhuming McCarthy, Orange Crush. Mike Mills að syngja „(Ekki snúa aftur á) Gljúfrastein,“ með kabbojhatt á hausnum. Svo tóku þeir Auctioneer, af öllum lögum. Þá öskraði ég „sjitt“ og dansaði fortförende af mér rassgatið.

– – –

Er um þessar mundir að sjá Næturvaktina í fyrsta skipti. Miklir dásemdarþættir voru þetta.

– – –

Náði annars merkum áfanga um helgina, nánast akkúrat ári eftir að ég byrjaði að vinna að honum. Kannski verður það einhverntíma að einhverju, kannski ekki. Eins og verkast vill.

Danskis Beikon

Sit og stanga úr tönnunum sítrónupiparbollu með beikon og ökólógísku kjúklingasalati. Horfi út um gluggann yfir Eyrarsundið og sé birtunni bregða, skýin þykkna. Sigla fraktarar. Blaktir þriggjametrahár veðurhani. Spranga Svíar í pólóskyrtum.

Mikið líður mér vel að vita að kjúklingurinn sem ég var að éta var alinn á sjálfsprottnum haugarfa. Það var reyndar ekkert tekið fram um beikonið.

Louisiana-safnið er einhver sú fegursta bygging sem ég hef gengið um. Eins og það lítur ekki út fyrir að vera neitt neitt þegar maður kemur upp að því – ósköp danskt eitthvað og ómerkilegt tilsýndar. En eftir að inn er komið gleymir maður sér þegar komið er fyrir hvert horn við að dást að því. Nútímalist er mistæk og verkar missterkt á mann, en það er aldrei leiðinlegt að skoða hana þegar húsið sjálft er listaverk út af fyrir sig.

Verður hugsað til þess þegar við hjónin vorum hér í „Weekend Getaway“ í nóvember 2005. Blómamyndir eftir Matisse í öllum sölum. Eldur í arninum á veitingastaðnum (ekki núna, heldur þá). Á fréttaskilti á Ráðhústorginu um kvöldið var stórfrétt dagsins að George Best hefði loksins geispað golunni.

En sumsé, mistæk. Verkar missterkt. Var farinn að halda að ég færi héðan út án þess að vera kýldur í magann þegar ég gekk fram á orgínalana af „Manni og barni“ og „Þremur stúdíum í George Dyer“ eftir Francis Bacon, í allri sinni dýrð.

Hrátt offorsið. Hryllingurinn. Dýrðleg úrkynjunin.

Ég hefði getað setið fyrir framan þær í allt kvöld.

Kannski ég fari og geri það bara.

Enn er meir en hálfur annar tími í lokun.

Draumsvefn

Að fara eða fara ekki í Parken annað kvöld – þar liggur efinn.

Eða … nei. Þegar fyrsta og elsta og hundþrjóskasta uppáhaldsbandið manns er að spila í grenndinni. Það er eiginlega ekki hægt að sleppa því – það myndi falla í flokk með öllu því sem maður sér eftir að hafa ekki gert um ævina. Ég er líka búinn að þræla mér út þessa vikuna – þú átt skilið að vera góður við sjálfan þig einu sinni, Hjörvar minn.

– – –

Sem minnir mig á að einhvern tíma ætla ég alltaf að tala um það hvernig ég tala við sjálfan mig. (Blogg er náttúrulega bara rafrænt blaður við sjálfan sig, svoleiðis. Samt einhverra hluta vegna viðurkenndara heldur en að muldra oní kjöltuna á sér í strætó, svona sem dæmi.)

– – –

En það er önnur saga. Núna er ég að hugsa um að fara og eyða því sem eftir er af deginum í Louisiana.