Mánaðarskipt færslusafn fyrir: október 2008

Góðar stundir

Ég hef átt nokkrar ágætar stundir síðustu daga.

– – –

Á CBS vinnur íslensk kona, tæpum áratug eldri en ég. Okkur hefur orðið vel til vina og höfum sérstaklega þurft að tala mikinn um ástandið eftir að fjármálarússibaninn fór af stað fyrir mánuði síðan.

Hún og maðurinn hennar buðu mér í kvöldmat á fimmtudagskvöldið var. Þau heita Svava Jónsdóttir og Jakob Schiötz og eiga dóttur sem er örlitlu eldri en Logi. Sú litla var feimin við mig fyrsta kastið. Gott að vita að ég hef ekki enn glatað hæfileikanum til að hræða lítil börn.

Kvöldstundin var notaleg: ljómandi gott lasagna og írskt kaffi á eftir. Eins og vanalega þegar svoleiðis er í boði sagði ég Söguna af Tuma Tómassyni, fyrrum deildarstjóra á Veiðimálastofnun. Einnig mikið rætt um vísindaskáldskap.

Svo „skeði slys,“ eins og sagt er, svo skella þurfti litlu dömunni í bað og þaðan í rúmið. Ég hlustaði á móður hennar syngja „Dvel ég í draumahöll“ meðan hjalað var undir og pabbinn skúraði eldhúsgólfið.

– hamingja –

Í dag hnippti svo hún Svava í mig og hyggst draga mig með sér í félagsvist hjá Íslendingafélaginu á föstudagskvöld kemur. Ljómandi verður gaman þá.

– – –

Síðdegis á laugardag renndi ég yfir Eyrarsundið og skrapp í pizzu til vina minna í Lundi, VallaTralla og BrynjuLillu. Við vorum rétt sest að borðum þegar við fréttum af slysi af öðru tagi en getið var um að ofan. Allt um þau ævintýri útlistar Brynja sjálf á sinni síðu með blóðugum myndum og alles.

(vil bara færa hér til bókar að stundum er ekkert til í veröldinni sem hljómar jafn fallega og barnsgrátur)

Hápunktur kvöldsins var sjóbað og gufa með heimilislækninum (það orð öðlaðist alveg nýja merkingu þetta kvöld) og föður hrakfallabálksins. Það var yndislegt alveghreint. Yndislegt. Hvað hét staðurinn aftur? Ég man það ekki…

Fyrir svefninn blaðaði ég í ágætum bókum sem heimilisfaðirinn gaukaði að mér: The Novel of Roy Orbison in Cling-film eftir Úlrek Hárbursta og Real Ultimate Power: The Official Ninja Book eftir Róbert Hamborgara. Þær fá báðar mín bestu meðmæli, sérstaklega sú fyrri, sem stendur fyllilega undir þeirri yfirlýsingu höfundar að vera ítarlegasta bók sem rituð hefur verið um viðfangsefnið.

Lundur er annars með fegurri bæjum.

– – –

Þjóðmálin. Hvað getur maður sagt.

Nei, í alvörunni. Hvað getur maður sagt? Hvað er hægt að segja?

Púff.

Konan eggjaði mig til að skrá mig á indefence listann.

Það er margt sem aflaga fór þannig að við erum í dag í þeirri stöðu sem við erum í í dag. Erum í. Í dag. Hryðjuverkastimpill þeirra Browns og Darlings var ekki það alvarlegasta. Langt því frá. En hann er á listanum yfir hluti sem hefðu ekki þurft að gerast, samt sem áður. Svo mér fannst full ástæða til að skrá mig á hann.

– – –

Annar listi sem er jafnvel enn þarfara að skrá sig á: http://kjosa.is/

Þú gerir það fyrir mig í staðinn ástin mín, er það ekki?

Kluuuk

Ég var klukkaður af Óla Gneista. Það er ágætt, annars veit ég ekki hvað ég myndi blogga um – ábyggilega eitthvað sem hægt væri að lögsækja mig fyrir, mér er svo heitt í hamsi og hef svo fáar áttir til að spúa því. Bara, takk, Óli minn.

1. Fjögur störf sem ég hef unnið um ævina:
Bréfberi á Blönduósi
Landbúnaðarverkamaður á Ríkisbúinu að Hólum í Hjaltadal
Skúringar í Lyfju, Seltjarnarnesi
Tölfræðingur á Íslenskri Erfðagreiningu

2. Fjórar íslenskar bíómyndir sem ég held upp á:
Með allt á hreinu
Veggfóður
Sódóma Reykjavík
Börn

3. Fjórir staðir sem ég hef búið á:
Blönduós
Hólar í Hjaltadal
Grafarvogur
Hróarskelda

4. Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum:
Skotland (14 ára – fyrsta utanlandsferðin)
Kanada (2001)
Norðurlönd (nokkrum sinnum)
Mallorka (1999, óforvarindis)

5. Fjórir sjónvarpsþættir sem mér líkar:
David Attenborough
Coupling (BBC útgáfan)
Parker Lewis Can’t Lose
How to Look Good Naked

6. Fjórar síður sem ég skoða daglega:
Blogggáttin
Gmail boxið mitt
Eyjan
Gneistinn

7. Fernt sem ég held upp á matarkyns:
Sushi
Falafel
Íslensk kjötsúpa
Sigin grásleppa

8. Fjórar bækur sem ég hef oft lesið (þetta er strembið, einna helst ljóðabækur sem ég les oftar en einu sinni):
Fiðrið úr sæng Daladrottningar, eftir Þorstein frá Hamri (bara svona sem dæmi)
Bókin um veginn, eftir Lao Tse
Lukkuláka- og Tinnabækurnar
Fróði og allir hinir gríslingarnir, eftir Ole Lund Kierkegaard (sem dæmi um bækur sem ég las mér til ánægju í æsku og nú reglulega fyrir börnin)

9. Fjórir staðir sem ég myndi helst vilja vera á núna:
Heima að lesa „Fróða og alla hina gríslingana“ fyrir börnin mín.
Heima að lesa með konunni minni.
Heima í mat og spilamennsku hjá tengdó.
Bara… heima.

10. Fjórir bloggarar sem ég klukka:
Mangi Teits
Addi Arngríms
Ljúfan
Gunni Ben (sem má þá smella nýju bloggsíðunni sinni í tölvupóstinn minn í leiðinni)

Kreppan kemur! (Vol 2) – blogg í rauntíma

Jæja, þá virðist restin af spilapeningaborginni vera að hrynja til grunna (meiri bölmóð!) og nánast allir bubbarnir sem enn tórðu við það að fara að segja sig á sósjalinn. Nema Lúlli í Sögu, af öllum mönnum.

Þá er bara eitt að gera – endurtaka leikinn.

  1. The Velvet Underground – Sunday Morning. Þynnkulag fyrir þynnkutíma.
  2. Isaac Hayes – Soulsville. Horfumst í augu við það, kæru vinir. Nýi Íslendingurinn er Nýi Svarti Maðurinn. Mikið skal Johnny National vera glaður yfir þessu öllusaman. Hayes var flottur, Hubbard blessi minningu hans.
  3. Placebo – Slave to the Wage. Þetta er rottukapphlaup í völundarhúsi. Og svo drepast þær. Minnist á býlið hennar Möggu, sem er vísun sem ég hef verið á leiðinni að skoða nánar (ég er skelfilega lítt verseraður í Dylan, fyrir utan Blood on the Tracks).
  4. Flytj. ók. – Kveiktu ljós. Eldgamalt singalong, kannski ekkert yfirmáta kreppulegt og eiginlega meira út í stúkumóral. En óneitanlega upplífgandi ef maður er dán yfir því hvað allt er í miklu volli. Þeir sem kannast við upprunalegan flytjanda eru hvattir til að fræða mig um hann.
  5. KK – Vegbúinn. Það var erfitt annað en að hafa þetta með, fyrst ég átti það. Enda innblásið af rykskálarkreppunni. Hvern þann sem ekki hefur lesið Þrúgur reiðinnar ætti að skylda til að gera það hið fyrsta.
  6. The B52’s – The Deadbeat Club. Helvítis letiblóð sem leggjast upp á hinn almenna launamann. Svo situr þetta pakk við sundlaugarnar sínar og sötrar kokteila. Og maður getur ekki annað en komist í gott skap við að hlusta á það.
  7. Blind Alfred Reed – How Can a Poor Man Stand Such Times and Live. Hann blindi Alfreð hittir bara akkúrat naglann á höfuðið. Hvernig er þetta hægt? Ha?
  8. Tom Waits – In the Colosseum. Hjaðningavíg í fjölmiðlasirkusnum. Þingmennirnir, forsetinn og vísitölufjölskyldan.
  9. Radiohead – Just. Þú gerir þér þetta sjálfur. Þú og enginn annar. Og það er það sem er sárast af öllu. Víðgesjónin er rosaleg. Rosaleg.
  10. Norah Jones – Come away with me. Æ, ætli það séu ekki nokkrir þarna úti sem láta sig dreyma um að skilja þetta bara allt eftir. Tala nú ekki um ef þeim væri boðið með henni Nóru.
  11. Prefab Sprout – Elegance. Eldgamalt lag með þeim þessum. Voðalega gáfumannalega lyklaður texti: En hefur eitthvað að gera með það að tími þeirra sem eiga tjörnina styttist í annan endann. Og svo þarftu heldur ekkert þessa tjörn, þannig.
  12. Vilhjálmur og Ellý Vilhjálms – Fátt er svo með öllu illt. – að ei boði gott. Fleiri orð eru óþörf í þessu samhengi.
  13. Facon – Vísitölufjölskyldan. Syd-Barrettsk sýra aðlöguð að kotbúskap á Vestfjörðum. Og Jón hann hló: Bravó. En aldrei gat hann auðgast þó. Bravó!
  14. R.E.M. – Ignoreland. Ort af öðru tilefni, en þó náskyldu. Baráttusöngur: Þeir tóku af okkur landið af því að við leyfðum þeim það. Landið sem lét sér standa á sama.
  15. David Bowie – Heroes. Hmm. Alveg er ég búinn að gleyma af hverju þetta fékk að fljóta með. Rökstuðnings er hérmeð óskað – ég kem ekki auga á hann sjálfur.
  16. Þursaflokkurinn – Þögull eins og meirihlutinn (í speglinum). Lærðu að meta blokkina. En vertu umfram allt þögull. Einsog meirihlutinn.
  17. Cars – Drive. Jæja, væna mín. Hver á nú að segja þér að það sé orðið of framorðið? Að þetta sé ekkert í svo góðu lagi lengur? Hver á að keyra þig heim í kvöld? IMF? Japan? Pútín? Og hvað heldurðu að bíltúrinn kosti?
  18. Pixies – Build High. BYGGJA HÆRRA! BYGGJA HÆRRA! BYGGJA HÆRRA! BYGGJA HÆRRA! HAHAHAHAHAHA!
  19. 200 – Exodus (2015). Brjálað stuð með færeyskum rokkhundum. Og fjallar einmitt um fjöldabrottflutninga.
  20. Tears for Fears – Shout. Af því að stundum þarf maður bara að öskra. Hleypa þessu út öllu saman.
  21. ABBA – Money money money. Jamm. Við skulum bara hætta hérna. Enda diskurinn fullur.

Lífstréð

Nú er nóg komið af bölmóði í bili – ég verð bara hálfþunglyndur af þessu hérna úti í fásinninu.

Það hefur sosum gerst áður, og verr en nú. Og reyndar er ég að ljúga þessu – mér líður alveg ljómandi vel, þannig lagað. En mig langaði alltíeinu til að hripa hérna inn ljóð eftir eitt af okkar bestu skáldum (og sennilega eitt það vanmetnasta), Kristján frá Djúpalæk.

Ég kynntist þessu ljóði fyrst þegar móðir mín skráði það í minningabókina mína er ég var enn á barnsaldri. Ég fór ekki að botna í því fyrr en einhverntíma á táningsárum og hef sótt í það reglulega síðan til að sækja mér styrk og von gegnum erfiða tíma. Svo  mér datt í hug að það væru kannski einhverjir þarna úti (jafnvel einsog eitt stykki þjóð) sem hefðu gott af að komast í kynni við það.

Ég hef ekkert leyfi til að birta þetta hérna – ef minn ágæti gamli mentor, dr. KK, rekur hér inn nefið og krefst þess að ég taki þetta út þá geri ég það. En þangað til skulum við leggja frá okkur hversdagsvafstrið í smástund (svona einsog fjórtán línur) og njóta:

Lífstréð

Þig hryggir fölvi blaðs hins rauða blóms
sem bar þitt tré, og veitti sumaryndi.
Það afrækt var, því önn er líf þitt tengt.

Við getum hvorki rödd vors eðlis rengt
né rýnt þann vef, sem hugann fastan bindur
við það, sem okkur þó er einskis vert.

Hitt gildir að þú heill og sannur sért
í sorg og gleði, játir ei né verjir
annað en það sem er þitt hjartans mál.

Svo tæm því djarfur draums þíns gullnu skál
og dvel hjá þínu lífstré alla tíma
og hlú að því, þótt hrunið skart þess sé.

Það geymir brum til blóms, sem önnur tré
og ber þitt líf til sigurs – einhvern tíma.

(Kristján frá Djúpalæk)

Nokkur meðmæli í misóvæntar áttir

Ég hef aldrei gefið mig út fyrir að vera neinn taglhnýtingur Egils Helgasonar. Reyndar þvert á móti. Ég hef verið honum svo hrópandi ósammála í svo fjöldamörgu gegnum tíðina (Íslamista/Naívistaumræðunni, Draumalands/virkjanadebattinum, kirkju/trúleysisdeilunum, 101-lofsöngnum, sitthverju úr kaldastríðinu, etsetera) að það hálfa væri nóg. En þessa dagana virðist hann einn af fáum sem virkilega leggja sig fram um að komast að því hvað er að gerast, hvað er búið að gerast, hvað á eftir að gerast, afhverju í andskotanum þessu var öllusaman leyft að gerast. Hann lætur ekki segja sér fyrir verkum. Hann hefur sínar eigin skoðanir (sem ég er, eins og áður er getið, ekki endilega alltaf sammála, en finnst þó alltaf þess verðar að ræða). Og hann er með hæsta prófílinn. Ég mæli með þættinum hans í gær – viðtal hans við Jón Baldvin var … magnað (og svo kitlaði mig pínu að hann skyldi troða inn kommentinu um Hvítþvottabókina í blárestina). Silfur Egils er skylduáhorf þessa dagana.

(Ég áskil mér samt vitaskuld fullan rétt til að lýsa frati á skoðanir hans hvenær sem mér þóknast, þrátt fyrir lofrulluna.)

– – –

Talandi um að vera ósammála Agli Helgasyni: Ég vil lýsa yfir ánægju minni með mótmælin á laugardaginn var. Og að þau verði endurtekin á laugardaginn kemur. Megi laugardagar til mótmæla verða sem flestir.

Mótmæli.

-Ef við stoppum til að pæla aðeins í því, þá hefur íslenskan skammtað okkur óttalega máttlaust orð til að lýsa hugtakinu. Sem, ég veit það ekki, skýrir kannski að hluta hvað Íslendingar hafa verið seinþreyttir til mótmæla í seinni tíð.

Mótmæli.

Það sem þarf að gera er ekki að mæla hlutum í mót. Mótmæli eru ekki til þess að fólk geti viðrað óánægju sína með það sem er búið og gert. Ekki eingöngu. Mótmæli geta þá fyrst orðið til einhvers ef settar eru fram kröfur um aðgerðir. Ákveðnar, skýrt afmarkaðar aðgerðir sem ekki fer á milli mála hvort fylgja skuli fram eða ekki. Tildæmis krafa um að opinber starfsmaður segi af sér, eða verði vikið frá ella (minni aftur á viðtalið við JB, þar sem ekki fór á milli mála hvert væri nauðsynlegt fyrsta skref að stíga). Kröfurnar hefðu mátt vera fleiri en þessi eina á laugardaginn (og verða það vonandi þegar mótmælum heldur áfram) en hvað sem öðru líður er það hún sem ríður á að orga hæst. Það leysir ekki vanda þjóðarinnar á einu bretti að skipta út einum seðlabankastjóra, en það virðist nauðsynlegt fyrir nánast allt sem þarf að koma í kjölfarið.

Enn eru þrjár vikur í að ég geti mætt á Austurvöll sjálfur. En ef þau verða þar ennþá, þá kem ég.

– – –

Ég er ánægður með Dorrit Moussaieff.

Ég endurtek: Ég er ánægður með Dorrit Moussaieff. Ég er ekki að djóka með þetta.

Ekki misskilja. Margt sem hún og Ólafur sögðu og gerðu meðan allt virtist leika í lyndi og smjörið draup af hverju jöklabréfi er heimskulegt eins og það horfir við í dag. Og þeir eru til sem fannst það heimskulegt þá þegar, og tek ég hatt minn ofan fyrir þeim – það voruð þið sem höfðuð rétt fyrir ykkur (má ég samt, áður en lengra er haldið, minna á að ÓRG er einn af fáum frammámönnum sem hefur lýst yfir einhverju sem nálgast iðrun eða eftirsjá í tengslum við þetta alltsaman).

En þau voru ekki ein um vitleysuna. Er það nokkuð? Ha?

Og við sem sjálf vorum löngu búin að leggja þann klafa á embættið að það snérist um akkúrat það sem þau gerðu: Að sinna PR. Kynna land og þjóð á erlendri grund. Þetta var djobbið sem við borguðum þeim fyrir. Lái þeim hver sem vill – og ég skil sosum þá sem það vilja. Ég held ég sé bara ekki sammála þeim.

Öðru máli gegnir þegar snýr að ráðleggingum hennar til hnípinnar þjóðar í krísu. Menn sem ég allajafna tek að minnsta kosti jafnmikið mark á og Agli Helgasyni (dæmi 1; dæmi 2) ausa úr hlandkoppum reiði sinnar yfir því að frúin skuli dirfast að tjá sig um það hvernig skuli draga fram tóruna þegar harðnar á dalnum. Þar er ég þeim ekki aðeins ósammála: mér finnst þeir vera að tala útum rassgatið á sér.

Ég endurtek: Rassgat.

Ég tek fyrstuhandarfrásagnir um ömmu Davíðs Oddssonar (muuu!) ekki nema rétt svo trúanlegar. En ég man þá tíð þegar móðir mín, í þeim þrengingum sem foreldrar mínir lifðu fyrir aldarfjórðungi, braut saman og geymdi álpappírinn til að nota hann aftur. Og jóla- og afmælisgjafapappírinn. Vaskaði upp Gunnars majónesdollurnar (blessuð sé minning hans) og VitaWrap plastfilmurnar til að nota undir og yfir (respektíft) afganga af kálbögglum, hrognum og siginni grásleppu.

Eftir því sem ég best veit gerir hún þetta enn þann dag í dag.

Svo ég er fullkomlega sammála forsetafrúnni. Mér finnst þetta jafnvel (og hér hætti ég mér kannski útá brúnina) skýra að hlutatil afhverju hún kemur úr efnafjölskyldu: Börnunum er kennt aðhald, hvað sem líður ríkidæmi foreldranna. Græddur er geymdur demantur.

Mig grunar að ólundin yfir húsráðum forsetafrúarinnar sé runnin af sama meiði og ástæður þess að við erum í þessum vanda til að byrja með: Við þrjóskumst við að hlusta á og taka mark á þeim sem sjá okkur utanfrá og vilja leggja okkur til ráð. Við erum svo fljót að fyllast öfund og heimóttarskap. Heimsku, í þess orðs bókstaflegustu og upprunalegu merkingu.

Þið getið bara sjálfir étið álpappír, þarna.

– – –

Að lokum má ég til með að benda á Dagblaðið Nei, fyrir þá sem ekki vita af því ennþá. Óháðasta íslenska dagblaðið í dag. Skyldulesning upp á hvunn dag

Til hamingju Ísland

Mér fannst þetta dálítið fyndið á sínum tíma. Fjöldamörgum fannst það ekki. Fannst þetta bara skelfilega ekki-fyndið. Þetta væri bara vitleysa.

Við vorum púuð út af sviðinu eftir að hafa baðað okkur í ljósinu. Flippað út. Rekið fingurinn framaní myndavélarnar. Salurinn hafði bara, einhverra hluta vegna, ekki húmor fyrir þessu. Sagði, „við þurfum ekki að hlusta á þetta. Þið getið bara átt ykkur. Fariði heim.“ Svo stöndum við í rennusteininum, társtokkin með maskarann niðrá höku og öskrum að þetta sé öllum öðrum að kenna. Þið séuð öll hálfvitar. „Fokk jú, jú fokking rítards.“ Pressan safnast í kring og smellir af. Finnst við kannski eiga þetta alveg skilið. Að við getum sjálfum okkur um kennt, sama hvað við grenjum og hrækjum. En er, mestan part, bara alveg sama.
silvianottaftonbladet.jpg
Fólki fannst þetta bara skelfilega ekki-fyndið. Og þegar litið er til baka verður að játast að það er alveg rétt. Bara ekki á sama máta og í denn. Þetta er ekki-fyndið af því að það er satt.

Þetta er deisja-vú. Stækkað þrjúhundruðþúsundfalt. Grínið stendur á beini. Þetta er ekki-fyndið.

Til hamingju Ísland. Ðö djók’s onn jú.
(Myndinni var hnuplað af vef Aftonbladet. Ég borga ekki.)

Kreppan kemur! (Vol 1) – blogg í rauntíma

Ég hef tekið saman eitthvað á annað hundrað lög héðan og þaðan af iPoddinum mínum sem öll segja eitthvað við mig persónulega, í tengslum við ástandið í þjóðfélaginu – og heiminum – í dag. Fullt af lögum er ekki með, bara fyrir það að þau eru ekki á téðri maskínu.

Það er búið að vera ósköp „terapjútískt“ að taka þetta saman – mér líður einhvern veginn betur með þetta alltsaman á eftir. Ég get mælt með þessu sem meðferð fyrir þá sem eru að fara yfirum á ástandinu: Setja saman pleilista. Allra meina bót. Og þessvegna pósta þá út á internetið. – Eða mp3-mix, ég er bara ekki svo útspekúleraður á tæknifrontinum.

Þetta gæti orðið skrautlegt – tengingin hérna úti í Jóhannesi er ekki sú traustasta og ég er nú þegar að gera tilraun númer tvö. En látum á reyna. Ég pósta þessu hér, ýti á „play“ og editera eftir hendinni. Hér kemur spilalisti sem hægt væri að brenna á eitt stykki geisladisk – ég hætti þegar ég er kominn uppundir 80 mínútur. Fólki er frjálst að gjamma frammí að vild.

  1. Radiohead – Fitter happier. Hæfari, hamingjusamari og afkastameiri svín í búri á sýklalyfjum.
  2. Ellý Vilhjálms og Ragnar Bjarnason – Hvert er farið blómið blátt? Íslensk útgáfa af Where have all the flowers gone? í yndislega korní útgáfu. Stríð kemur hvergi við sögu. En „allt og allt“ er farið frá mér.
  3. Jam – Start. Jafnvel þótt allt sé að fara til andskotans þarf maður samt að fara út á galeiðuna. Fyrir utan að Íslendingar eru að komast að því núna að „what you give is what you get.“
  4. Blur – For Tomorrow. Það er víst ekki minna af því núna en áður að fólk haldi sér dauðahaldi í morgundaginn. Fyrir utan að þeir hafa réttara fyrir sér núna en nokkru sinni: Nútímalíf er rusl.
  5. Haukur Morthens – Til eru fræ. Von sem hefur vængi sína misst. Skip sem aldrei landi ná. Aldrei geta sumir draumar ræst. Þetta er þarna alltsaman. Allar klisjurnar.
  6. Nick Cave – City of Refuge. Þetta er allt að fara til helvítis. Eins gott fyrir þig að hlaupa. Ekki samt svo að það breyti neinu: andskotinn nær þér samt.
  7. Brian Wilson – Mrs. O’Leary’s Cow. LOL! ROFL! Stóri bruninn í Síkagó 1871 sem metafóra fyrir það hvernig allt fór í kaldakol í Reykjavík í byrjun október 2008. Sjá fyrri færslu um tvífara.
  8. Modest Mouse – Shit Luck. ÞESSI FLUGVÉL ER POTTÞÉTT AÐ BROTLENDA! ÞESSI BÁTUR ER GREINILEGA AÐ SÖKKVA! ÞESSI BYGGING ER ALGJÖRLEGA AÐ BRENNA TIL GRUNNA! Frekari orð eru óþörf.
  9. Bleikar mussur – Ég pant vera Ameríka! Oooo. En sætt. Mitt eigið mjóróma mótmælahróp gegn neyslugeðveikinni frá upphafi ársins 2006. Sjá rokk.is fyrir þá sem vissu ekki af því.
  10. Nýdönsk – Hjálpaðu mér upp. Annað lag sem kemur við sögu í bloggi frá því fyrir skömmu síðan.
  11. Edith and Sherman Collins – What Will You Take in Exchange. Hvítur verkamannablús úr kreppunni. Af diskinum Bænir úr helvíti sem vinnufélagar mínir gáfu mér að skilnaði á sínum tíma.
  12. Queen – Another One Bites the Dust. Bara ekki annað hægt en að hafa þetta með. Skýrir sig sjálft. Og þá er diskurinn hálfnaður.
  13. Rússibanarnir, Vox Academica og Diddú – Gobbedí Gobbedí. Lag Hróðmars Inga Sigurbjörnssonar við ljóð Ísaks Harðarsonar. Og allt fram streymir. En ekki endalaust. Óekkí! Brokka nú jarðfákur! Hraða þér til endalokanna! Gobbedí gobbedí!
  14. Judy Garland – Somewhere Over the Rainbow. En það er nú alltaf ljúft að láta sig dreyma. Haltu í vonina Dórótea mín.
  15. Mr. Mister – Kyrie. Miskunnarsálmur með sítt að aftan.
  16. Bubbi Morthens – Stál og hnífur. „Við bryggjuna bátur vaggar hljóft, í nóft mun ég deyja.“ Æ. Fliss.
  17. The Verve – Bitter Sweet Symphony. Lífið er ljúfsár symfónía. Maður reynir að ná endum saman, þræll peningahyggjunnar, og svo er maður dauður. Geðveikt vídjó vinur. Og eins og Ashcroft orðaði það: langbesta stónslag síðustu þrjátíu ára.
  18. Beck – Cancelled Check. Það eru víst margir sem skrifa gúmmítékka þessa dagana. Fyrir utan að enginn skrifar tékka lengur. Einhverntíma síðasta vetur þurfti ég að beita öllum mínum fortölum á einhvern smástrákinn sem bankaði uppá og bað um stuðning fyrir íþróttafélag eða eitthvað. „Jú víst, þetta er alveg jafngott og alvöru peníngar. Spurðu bara mömmu þína og pabba.“ En hann var náttúrulega ekki úr gúmmíi.
  19. The Isley Brothers – Harvest for the World. Það þarf að gera meira af því að hugsa um náunga okkar á heimsgrundvelli – jafna betur út uppskeruna í heiminum. Sérstaklega fyrst við erum alltíeinu farin að sitja hinumegin við borðið. Misskiptingin er of mikil – það vantar meira handa okkur. Liddl.
  20. Roger Whittaker – New World in the Morning. Akkúrat. Það er ekki nóg að byggja nýjan dag á morgun – morgundagurinn kemur aldrei. Sérstaklega ekki þegar Ísland vantar meiri pening í dag.
  21. John Farnham – You’re the Voice. Annar sálmur með sítt að aftan. Röddin er ykkar. Látið í ykkur heyra – hátt og snjallt. Ekki sitja þögul og full af ótta.
  22. Dátar – Gvendur á Eyrinni. Barningur og brauðstrit. Dag né nótt hann varla svaf. Hann kaus heldur svitabað en kvennafar og skjall. En hann átti í kindakofa átján gamlar ær og „af þeim gleði hlaut.“ Humm.
  23. Judy Garland – Get Happy. Sonanú. Ekki hafa svona miklar áhyggjur. Hrópaðu „Hallelúja!“ vertu glaður og búðu þig undir Ragnarök.

Og þarmeð er diskurinn fullur. Mér finnst hann bara ágætur. En sumsé – ég mæli með þessu sem meðferð gegn móðursýkinni. Og mana jafnvel fólk til að birta sinn eigin afrakstur. Fjöldi laga gefinn frjáls, svo lengi sem hann er milli fjörutíu og áttatíu mínútur að lengd.

Gamlar fréttir af nýjum IgNóbel: 2008

Svo mikið hefur gengið á í fréttunum undanfarnar vikur að það er óhjákvæmilegt að sitthvað lendi milli skips og bryggju (og samt er ég engu nær með söluna á FIH bankanum). Eitt af því eru IgNóbel-verðlaunin, sem voru veitt fyrir hálfri annarri viku síðan og ég varð hvergi var við þangað til ég sá það fyrir slysni núna rétt í þessu.

Svo tökum okkur pásu frá eymdinni og rennum yfir þetta:

Næringarfræði: Fyrir rannsóknir á því hvernig styrkur og tíðni hljóðsins í kartöfluflögum stjórnar því hversu ferskar okkur finnst þær vera þegar við bryðjum þær.

Fornleifafræði: Fyrir kortlagningu á því róti sem beltisdýr geta komið á menningarsöguna.

Líffræði: Fyrir þá uppgötvun að hundaflær hafa meiri stökkkraft en kattaflær.

Hugvísindi: Fyrir að uppgötva að slímsveppir geta leyst völundarþrautir (næsta skref hlýtur að vera að nota þá til að ráða í fréttatilkynningar frá forsætisráðuneytinu).

Læknisfræði: Fyrir að sýna fram á að lyfleysur verka þess betur eftir því sem logið er að sjúklingnum að þær kosti meira (hér má setja inn kreppudjók að eigin vali).

Hagfræði: Fyrir að uppgötva að kjöltudansmeyjar fá meira þjórfé meðan þær eru í egglosi (sjá greinina í pdf-skjali, fyrir þá sem vilja þurrkuntulegu lesninguna).

Eðlisfræði: Fyrir stærðfræðilega sönnun þess að það er óhjákvæmilegt að hár, garn eða hvurslags aðrir þræðir endi í flókabendu ef ekkert er að gert (pdf með grein).

Efnafræði: Fyrir rannsóknir á sæðisdrepandi eiginleikum kóladrykkja (Til tveggja rannsóknarhópa á sama sviði: Umpierre og félaga annarsvegar og Hong og félaga hinsvegar).

Bókmenntaverðlaun IgNóbels: David Sims fyrir ritgerðina „Skítseyðið þitt: Könnun á orðræðu fyrirlitningar í stofnanaumhverfi.“

Friðarverðlaun IgNóbels: Svissneska siðfræðinefndin fyrir að tryggja lagalegan rétt plantna til að halda virðingu sinni (sjá pdf-skjal með siðfræðilegri úttekt).

– – –

Þannig var það nú og nóg um það. Áfram með kreppuna – ég hugsa að ég bloggi um hana bara strax í kvöld. Sennilega fljótlega uppúr kvöldfréttum RÚV.

Nauðungarsalan á FIH

Humm.

Nú hef ég, finnst mér, minna vit en meðalmaðurinn á atburðum síðustu daga.

Þess vegna finnst mér að einhver hljóti að geta útskýrt fyrir mér eftirfarandi í einföldu máli:

Fyrir óratíma (dvs næstumþví viku) kom í íslenskum fréttum að íslenska ríkið veitti Kaupþingi lán gegn veði í FIH bankanum í Danmörku.

Nú sá ég í tíufréttum TV2 í gær að verið er að leita hófanna með nauðungarsölu á FIH. Vonast er til að fáist umþabil 7 milljarðar DKK, eða um einn milljarður evra. Ef selst á því verði, þá er það vel yfir þeim 500 milljónum evra sem komu við sögu í lánasamningnum. En allt sýnist mér þetta vera próspektíft.

Þessi frétt virðist ekki enn hafa heyrt til tíðinda uppi á Íslandi, amk ekki hjá vefmiðlunum.

Ég þykist vita að þetta sé til komið vegna yfirtökunnar á Kaupþingi í kjölfar aðgerða breskra yfirvalda gegn íslenskri bankastarfsemi. Ef ég skil þetta rétt (endilega leiðréttið mig ef mér skjátlast).

En það sem ég veit ekki en vil fá að vita sem íslenskur fréttaneytandi, ríkisborgari og skattgreiðandi: Hvernig kemur þetta við þann gjörning sem að ofan var nefndur milli ríkisins og Kaupþings? Er búið að veita Kaupþingi lánið eða var þetta meira svona… hvað er það kallað á fjármáli… „viljayfirlýsing?“ Er ríkið búið að leysa til sín veðið? Hver á FIH í dag?

Ég spyr af því að ég veit það ekki. Og mig langar til að vita það.