Mánaðarskipt færslusafn fyrir: janúar 2009

Andheitið við deisja-vú

Ég fékk bréf í dag.

Það var frá Íslenskri Erfðagreiningu, og bar titilinn „Boð um þátttöku í vísindarannsóknLangtímarannsókn á minni.“

Það hófst á þessum orðum:

Kæri viðtakandi

Með þessu bréfi viljum við minna á fyrra samhljóðandi bréf sem þér var sent vegna rannsóknar okkar á minnissjúkdómum meðal Íslendinga…

Og lengra komst ég ekki, því ég fór strax að velta fyrir mér af hverju ég mundi ekki eftir þessu fyrra samhljóðandi bréfi sem þau sendu mér. Er kannski einhver sérstök ástæða fyrir því að ég er í þessu úrtaki? Einhver ástæða sem þau vita um en ég ekki? Eða er ég bara búinn að gleyma henni?

Ég er ekki viss…

…en ég les þetta eflaust yfir um helgina og fylli út fyrir þau. Þótt ég óttist að það eigi alveg eftir að rústa fyrir þeim viðmiðunarhópnum.

Ekki gera ekki neitt

Ég veit ekki hvað ég mun kjósa í komandi kosningum.

Ég veit ekki hvenær þær verða.

Ég veit ekki einu sinni að fullu um hvaða kosti verður að velja.

En, fokkitt, eitt sem alveg víst er: ég mun ekki skila auðu.

Í uppsiglingu eru mikilvægustu alþingiskosningar í áratugi, í manna minnum jafnvel. Og mér sýnist á öllu að það hafi aldrei verið eins mikilvægt að fólk geri upp á milli kostanna, myndi sér skoðun og kjósi samkvæmt henni.

Ég hef heyrt fólk segja: „Það er sami rassinn undir öllu þessu liði.“ „Þetta eru allt sömu vitleysingarnir.“ „Það er ekki allur munur á kúk og skít.“

Líður þér eins og þér finnist þetta? Eða er ef til vill einn flokkur framar öðrum sem þú myndir alls ekki kjósa?

Aha. Hver þá?

Ekki segja það upphátt.

En leggjum dæmið svona upp: Það eru fimm flokkar á þingi. Sennilega verða svona 3-4 framboð í viðbót. Segjum, tjah, átta kostir í allt, svona til dæmis. A nice round number. Þar af er einn sem þú getur alls ekki hugsað þér að kjósa.

Ekki segja það upphátt.

Ef þú velur besta (eða illskásta) kostinn af öllum hinum, þá fær sá allt þitt atkvæði óskipt.

Ef þú skilar auðu, þá fær sá kostur sem þú getur alls ekki hugsað þér að styðja einn áttunda af atkvæði þínu.

Einn áttundi. af tilleggi þínu. er vatn. á myllu. kölska.

Ekki segja það upphátt.

Svo, eins og ég segi, myndaðu þér skoðun og kjóstu. Ekki skila auðu. Ekki sitja heima.

Ef þú sérð nú þegar langt að að það er ekkert þarna úti sem fellur nógu vel að þínu skapi, þá er rétti tíminn núna til að segja þér að drattast upp af rassinum og ræsa bara af stað þitt eigið framboð. Eða gera áhlaup á samtök sem eru til fyrir eða í mótun akkúrat eins og er – reyndu að gera þitt til að framtíðin mótist eftir þínu eigin höfði.

Bara ekki skila auðu. Ekki sitja heima.

Þú veist hverjir þú vilt að fái nákvæmlega ekkert af atkvæði þínu.

Ekki segja það upphátt.

En þetta verða kosningarnar þegar það hvað fólk kýs ekki verður mikilvægara en nokkru sinni fyrr.

Ekki segja það upphátt.

Og ekki, alls ekki skila auðu.

Konan mín hittir naglann á höfuðið – hrós

„Þetta er eins og að eiga heima í kommúnistaríki,“ sagði konan mín þar sem við stóðum á stigaskörinni og opnuðum inn í íbúðina okkar. „Og vera ekki með skírteini í Flokknum.“

Og ég gat ekki annað en tekið heilshugar undir með henni.

Von mín um breytingar til bóta er enn ósköp brothætt. En fer þó vaxandi, dag frá degi.

Lag dagsins

Ég bara stenst ekki mátið.

Lag dagsins er náttúrulega „Ég las það í Samúel“ með Brimkló.

Þetta fær mig til að skella uppúr af að minnsta kosti tveimur ástæðum.

Annars finnst mér þessi ummæli falla í flokk vanhugsaðra ummæla af svipuðu tagi og, tjah, þau um sætustu stelpuna á ballinu, eða „þú ert ekki þjóðin,“ eða Bermúdaskálina. Svo dæmi séu tekin af handahófi. Allavega ekki þess verð að framtíð íslenskrar þjóðar vegi salt á þeim.

Og finnst mér óþarfi að eyða á það frekari orðum.

Viðbót: Jú og auðvitað „skítlegt eðli.“ Hvernig gat ég gleymt því.

Nýir vendir flengja best

Eftir að ég frétti af afspurn (sbr. áramótaheit) tíðindi hádegisins hef ég verið hugsi. Og hvernig sem ég velti því fyrir mér (og þrátt fyrir að mér þyki leitt að heyra þetta fyrir hönd Geirs H. Haarde, svona persónulega), þá get ég ekki séð að þetta breyti neinu fyrir það sem mótmælendur hafa krafist til handa (og með velþóknun frá) íslensku þjóðinni.

Ég tek af öllu hjarta undir með Siggu Láru þegar hún segir: Við megum ekki persónugera vandann. Veikindi Geirs H. Haarde eru persónulegur harmleikur fyrir hann,  en fyrir alla aðra gerir þetta allar fyrri kröfur um breytingar enn brýnni en áður, ef eitthvað er.

Það er mikilvægara en nokkru sinni að fá nýja ríkisstjórn strax (þar sem bætist við fyrri ástæður sú að fólk sem er plagað af alvarlegum veikindum hefur ekkert erindi í valdamestu stöður landsstjórnar).

Það er mikilvægara en nokkru sinni að fá hreina staðfestingu á að það verði kosningar svo fljótt sem auðið er.

Það er mikilvægara en nokkru sinni að undir eins verði farið með nýja vendi um bæði Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið.

Það er mikilvægara en nokkru sinni að láta í sér heyra ef maður er ekki sáttur við ástandið.

Og það er mikilvægara en nokkru sinni að hver sá sem er þessarar skoðunar láti það í ljós með hverju því friðsamlega andófi sem hann telur við hæfi.

Við fjölskyldan hyggjumst eiga okkur dagpart niðri á Austurvelli á morgun. Þarmeðtalið (en ekki eingöngu) um þrjúleitið.

Það er mikilvægara en nokkru sinni.