Væmna þakkarræðan

Já, þannig fór það. Fyrir mitt leyti komu úrslitin mér ekki á óvart. Ef ég á að segja alveg eins og er, þá var ég fyrst ekkert svo viss um að ég ætti eftir að fá mikið fleiri en svona tuttugu manns inn á hugmyndina. Og reisti mér engar skýjaborgir um útkomuna eftir að fjöldi framboða var kominn í ljós. Svo ég er sáttur, fyrir mitt leyti.

Um fulltrúana 25 vil ég segja að mér líst alls ekki sem verst á þá. Ég á ábyggilega eftir að skrifa eitthvað meira um þá seinna (áður en ég sný mér aftur að öðru), en mín fyrstu viðbrögð eru að þetta hefði getað verið miklu verra.

– – –

Heildarútgjöld framboðsins námu tíu þúsund krónum og fóru í tvo jafnstóra útgjaldaliði: Annarsvegar rafrænt eintak af alveghreint framúrhófi framboðslegri prófílmynd sem tekin var af mér í fjölskyldumyndatöku árið 2008, og hinsvegar stuðning minn við framtakið kjostu.org.

– – –

Ég fann fyrir ómetanlegum stuðningi frá fjölda fólks.

Þau eru nokkur sem eiga sérstaklega skilið að þeirra er getið. Það vildi svo skemmtilega til að daginn eftir að ég var búinn að ákveða endanlega að bjóða mig fram frétti ég að Óli Gneisti Sóleyjarson, frændi konunnar minnar og sambýlismaður hér á Truflun, hefði ákveðið að gera það líka. Einmitt þá var hann á leið í heimsókn til okkar með konu og barni, og milli þess sem við áttum öll ágæta daga hér í suður-þýska haustinu ræddum við um stjórnarskrána, stjórnlagaþingið og kosningarnar sem þá voru við sjóndeildarhring. Hann var óþreytandi við að aðstoða mig í ýmsum uppsetningarvandræðum sem ég rakst á þegar ég fór að krukka í þessa bloggsíðu og setja upp framboðssíðuna á fasbók, og sýndi mér mikinn stuðning í orði sem á borði, þótt við værum kannski ekki alltaf með nákvæmlega sömu áherslur í öllum málum.

Ég vil líka sérstaklega þakka Rósu Eggertsdóttur á Akureyri, bæði fyrir undirskriftasmölun (hún fór langleiðina með að fylla lágmarkskvótann á einni kvöldstund með bíltúr fram um allan fjörð) og fyrir ágætar ráðleggingar í tölvupóstsamskiptum við mig í gegnum baráttuna.

Fjölskylda mín, vinir og tengdafjölskylda veittu mér góða aðstoð með ráðum sínum og dáð, sem og starfsfólk Samskiptamiðstöðvar heyrnarskertra og heyrnarlausra. Einnig vinir mínir og ókunnugir í kjötheimum og á fasbók sem þótti þetta framboð þess vert að vekja athygli vina sinna og kunningja á því, og þeir sem þótti það þess virði að hafa samband við mig til að lýsa yfir stuðningi sínum og/eða fræðast um einstök áherslumál. Þið vitið hver þið eruð.

Frændi minn Hjálmar í Kárdalstungu á svo sérstakar þakkir skildar fyrir ósérhlífna kosningabaráttu fyrir mig í Húnavatnssýslunum.

Síðast en ekki síst vil ég samt þakka konunni minni fyrir að ýta mér út í að gera þetta þá bara, fyrst ég hefði svona miklar áhyggjur af þessu, og standa við bakið á mér og ýta á herðarblaðið þegar á þurfti að halda. Hún var óbilgjarni kosningastjórinn minn.

Takk Árný mín. Ég elska þig.

– – –

Tuttugu og fimm fulltrúar hafa verið valdir. Ég vona heitt og innilega að þeim gangi hið allra besta. Þetta verður bévítans streð fyrir þau, eflaust vanþakklátt starf og útjaskandi píslavinna frá upphafi til enda. En ef þau standa sig vel (og það er engin ástæða til að ætla neitt annað) og skila af sér nýrri og betri stjórnarskrá í breiðri og góðri sátt, þá gætu þetta orðið 25 einstaklingar sem við munum ætíð verða stolt af fyrir vinnu þeirra, hvernig sem síðan fer.

Kosningaþátttakan var vissulega dálítil vonbrigði. Margir hafa víða lýst hver sínu álitinu á henni og ástæðum hennar, og sýnist sitt hverjum. Efst í huga mér er samt gleði yfir því að ég skuli hafa gert þetta. Og líka allir hinir 522 sem gerðu það sama. Hvernig sem allt veltist, þá er það það sem situr eftir.