Mánaðarskipt færslusafn fyrir: maí 2010

Heimsókn á hamfarasvæðin: Dagar 8-9 (og hálfur)

Það er skemmst frá því að miðvikudagur og fimmtudagur fóru í lítið annað en vinnu. Tengdapabbi renndi eftir mér niðrá Sturlugötu síðdegis á miðvikudeginum og leyfði mér að fljóta með uppí Grafarvoginn. Þar voru mæðgurnar að tygja sig í sund með krökkunum og ég skellti mér með þeim. Vinkona þeirrar eldri fékk að fara með svo við fórum tvíbíla. Það var sitthvað vesen sem kom uppá á leiðinni, eitt og annað sem gleymdist og svo var Grafarvogslaugin lokuð vegna viðhalds, en við komumst loksins oní í Mosfellsbænum.

Þegar heim var komið uppgötvaði ég að ég hafði gleymt kútunum af stráknum í sturtuklefanum á leið uppúr, svo ég renndi uppeftir aftur til að ná í þá. Á leiðinni út með þá mætti ég draugnum af sjálfum mér.

Allir voðalega punkteraðir um kvöldið og snemma skriðið í kojs.

Í vinnudagslok í gær tók ég þátt í málstofu við læknadeild HÍ. Hún gekk vel. Fékk leiðbeinandann til að skutlast með mig uppí Grafarvoginn og ræða við hann í leiðinni. Svo ég yrði kominn heim fyrir klukkan sjö.Frúin fór í saumaklúbb um kvöldið, ég var heima með tengdó og krökkunum og horfði á Evróvisjón.

Stelpurnar fóru í skólann í morgun, tengdó til vinnu og frúin að útrétta fyrir sín mál, svo við feðgarnir vorum einir í kotinu. Höfðum það náðugt framaf, dvöldum aðeins útá leifunum af leikvellinum hér í botnlanganum (því sem eftir er eftir að hún Hanna Birna fjarlægði sandkassann) og gengum svo uppí Spöng þarsem ég sá að er meira í gangi en nokkru sinni. Mér líst sérstaklega vel á fiskbúðina. Svo sá ég að vídeóleigan er búin að gefa upp öndina. Segir manni eitthvað um það hvernig afþreyingarmenningin er að breytast, frekar en neitt um ástandið í þjóðfélaginu í dag.

Við feðgar fórum og skiptum með okkur línubát á Hlölla. Og ég mátti þakka fyrir að fá helminginn.

Nú síðdegis er yngri systirin komin heim og með vinkonu sína í heimsókn. Þau voru öll úti í pottinum á pallinum þegar fyrstu línurnar voru ritaðar. Núna heyri ég í þeim innan úr stofu.

Gestgjafinn, Fjóru Stóru, spáin og Lena

Þegar ég hafði bara séð „Alla leið“ klippuna af honum Diðriki norska leist mér ekkert á þetta, óttaleg leiðindi. Þegar maður horfir á allt númerið er það mun skárra, en á tæru að þetta verður rosalega brothætt hjá honum stráknum. Það má ekkert útaf bera og þá verður þetta að einu allsherjar fíaskói.

Það er einsog „Fjóru Stóru“ löndin séu smám saman að taka sig á. Franska lagið er tildæmis ekkert alslæmt. Frakkarnir hafa reyndar annað veifið verið að senda inn ágæta entransa, bara aldrei gengið neitt með þá. Kannski standa þeir sig skammlaust í ár, svei mér þá. Fyrst þegar maður sá vídeóið leist manni ekkert á að láta krakkana horfa á þetta, fá bara rauða merkið í hornið takk fyrir (maður er orðinn svo mikil tepra). En sviðsnúmerið verður mjög hófstillt og settlegt, skilst mér. Sem einhverjum finnst ábyggilega alveg agalegt.

Spánn er alveg ágætur í ár líka. En ég er samt ekki sannfærður um að sirkuskonseptið dugi til að fleyta þeim neitt svakalega langt uppávið.

Stóra-Bretland er samt ekkert að fara að læra þetta. Enn eina ferðina send einhver luðran sem hefði varla náð að meikaða á rusladiskói á ofanverðri síðustu öld. Ég bíð bara eftir að hann strumpi falskt á úrslitakvöldinu til að fullkomna ömurlegheitin.

Ég hef áður lýst yfir hrifningu minni á þýska keppandanum.  Hún Lena Meyer-Landruth hefur sjarma sem erfitt er að standast. Þjóðverjarnir héldu sjö kvölda keppni um það hver fengi að fara að keppa (undir handleiðslu glataða snillingsins Stefan Raab) og strax frá fyrsta kvöldi var ljóst að spennan fólst í því hver af hinum upphaflegu keppendunum nítján fengi að keppa við Lenu í úrslitaþættinum. Lagið sem áhorfendur kusu handa Lenu var annað að tveimur sem hún og hin stelpan sungu báðar. Mér finnst segja eitthvað hversu mikið hún Lena breytti því frá upprunalegu útgáfunni – beriði saman við flutning Jennifer Braun sem keppti við hana til úrslita. Ég hefði reyndar kosið annað lag handa henni Lenu, lag sem hún samdi í samvinnu við Stefan Raab sérstaklega fyrir kvöldið og má heyra hér: Love me (dálítill Cardigans-fílingur). En áhorfendur fengu að ráða:

– – –

Mér líst bara nokkuð vel á þetta samt. Hún vinnur sennilega ekki (mér skilst að fari tvennum sögum af því hversu vel sjarminn er að skila sér á norska sviðinu) en mig grunar að hún verði meðal tíu efstu. Með hverjum? Segjum að það verði þessir:

Tyrkland – Disney-Gothið svínvirkar. Með smergelinu og öllu.
Rúmenía – Það er bara svaka flott númer.
Hvíta-Rússland – Þetta fiðrildamóment er svo ógleymanlega mikið kitsch.
Ísland – Þartil á þriðjudagskvöldið hafði ég aldrei heyrt Heru syngja þetta skammlaust. Það dugði til að sannfæra mig um að kannski finnst ekki öllum þetta svo ömurlegt.
Serbía – Það er búið að grisja svo garðinn fyrir Júgóslavana að þetta er nánast eitt eftir.
Grikkland – Eins hallærislegt og það er, frá stirðbusanum sem syngur til sætu strákanna sem dansa, þá virkar þetta á einhvern fáránlegan máta.
Belgía – Ég vil sjá Belga fá breik í ár.
Azerbadjan – Það er slatti af tiltölulega rólegum lögum austanað, sungnum af snoppufríðu og mestanpart tónhaldandi kvenfólki. Ég held að azerska laginu muni ganga best af þeim.
Noregur – En ég er samt ekki alveg viss. Það er nánast fiftí-fiftí milli Diðriks og ísraelska stráksins hvor skríður uppí neðri helminginn á topp tíu. Veltur allt á því hvorum þeirra gengur betur að halda lagi.

Svo held ég bara sveimérþá að Grikkland taki þetta. Þótt ég voni náttúrulega á móti öllum líkum að hún Lena slái þessu öllusaman við. En við þurfum allavega ekki að hafa neinar áhyggjur af henni Heru.

Bloggað í beinni: Evróvisjón – seinni undankeppni

Ji, bara þrjú lög búin og ég alltof seinn inn hérna. Það á sér sínar leiðinlegu skýringar sem má bíða að fara útí. Nú er annað meira mikilvægt.

Ég heyrði óminn af litháíska laginu utan af palli. Mér fannst það ekki hljóma neitt alltof spennandi en missti náttúrulega af því hvernig þeir litu út á sviðinu. Ég spurði yngri dóttur mína (6 ára) sem var fyrst með matinn. Hún sagði að þetta hefðu verið einhverjir kallar að syngja á silfurnærbuxum. Hún var ekki hrifin. En ég sé hálfpartinn eftir að hafa misst af því. Var eitthvað varið í þetta?

Armenía var næst og enn var ég úti á palli að éta slátur. Núna var sú elsta (9 ára) mætt fyrir framan kassann og sagði mér að það hefðu verið skógardvergar á sviðinu. Útfrá því sem ég heyrði (og sá, í svona tíu sekúndur) var ég ekki impóneraður.

Ísrael – þarna var ég loksins kominn og náði honum stráknum á meðan græjan var að ræsa sig. Fannst þetta ekki alslæmt framanaf. Svo skipti ég um skoðun þegar á leið. Þetta var sorglegt lag og allt svoleiðis sko. Svo fór hann að þenja sig upp á við og yfir það sem mónitórinn gaf honum og þá varð þetta bara alltsaman sorglegt. Lag sem hefði átt góðan séns með góðum flutningi. En ekki lengur.

Sjúkk. Nú er auglýsingahlé, svo ég hlýt að geta unnið restina upp á meðan. Neeei! Bíðiði!!!

Danmörk, púffpúffpúff. Ég var ekki hrifinn. Bara eitthvað níundaáratugar rúnk. Með ú-i. Eða sko, með úúúúú-i.

Sviss – alveg rétt. Það var þessi með eyrun. Ég hef oft spáð Svissi áfram, þegar það hefur sent frábær lög með glimrandi góðum flutningi. Fyrst mér skjátlaðist þá, þá fer það ekki áfram í kvöld.

En ég var ógeðslega hrifinn af sænsku stelpunni. Einvernveginn þannig að allt er á þann veginn að manni ætti að finnast það óþolandi, en manni finnst það ekki, heldur tværtimod. Gott mál.

Azerbaídshjan (hvernig skrifar maður þetta helvíti) og loksins er maður orðinn læv hérna. Þetta er lagið sem ég held að allir hafi verið að tala vel um. Og hún syngur vel þessi stelpa. En lagið finnst mér ekkert yfirmáta spes. Og ballettstrákurinn með rauða bindið dálítið hallærislegur. Samt, það er nokkurn veginn að þetta sleppur.

Ef ég hefði verið hérna frá byrjun hefði ég haft tíma til að halda utanum vindvélanotkun kvöldsins. Með þessu áframhaldinu stefnir í met.

Æjá. Alveg rétt. Úkraína. Þetta er svo slæmt. Á alla vegu. Lagið yfirmáta skelfilegt. Ekki alveg verið að hitta á tónana í upphafinu. Og vindvélin maður. Gat nú skeð. Samt eins gott að það eru ekki ballettstrákar að skekja sig á bakvið hana á 160 bpm. Samt, það er reynt að redda einhverju með gegnsæja kjólnum. Með, vona ég, engum árangri.

Obbosí. Hollendingar hafa verið svo clueless í þessu síðustu áratugi. Síðan bara, öhh. Hvenær? Og hvað svo? Eru þetta Bobbysocks? Ertu ekki að fokking djóka í mér?! Ojæja, tengdamamma fílar þetta allavega. Staðin upp og farin að dilla sér á gólfinu með krökkunum. Og hver er ég að setja útá þetta, Schlager-fanatíkerinn sjálfur.

Eins gott að kom þessi pása – ég er að reka krakkana í pottinn svo ég fái almennilegan frið til að einbeita mér að menningunni hérna.

Rúmenía já, ég hef einhvernveginn alltaf misst af þessu. Hei, þessi söngkona lítur út alveg eins og hún, þarna, aaaah, hvað heitir hún aftur? Rachel eitthvað, er það ekki? Þessi með norræna eftirnafnið, já, þarna kom það. Hún er einsog dökkhærð Scarlett Johanson. Pærótekniks maður. Og geðveika röddin. Og leðurbuxur. Það. Er. Nákvæmlega. Ekkert. til að hafa á móti þessu lagi. Svona á Evróvisjón að vera í sínu allra besta lægsta-samnefnara-stuði.

Næst er Slóvenía og ég hlakka til. Þetta finnst mér æðislega skemmtilegt. Þetta spilar beint inná Volksmusik-bentinn í mér. Og snjóþvegni gallabuxnavinkillinn spillir ekki fyrir. Þetta lag er að minnstakosti þrjú ef ekki fjögur lög í einu. Og mér finnst þau öll jafn yndislega hallærisleg. Ég er draugfúll að fá ekki að kjósa þetta áfram, því ég er handviss um að enginn annar með fullu viti gerir það. Mér finnst löngu kominn tími til að Volksmusik fái sitt reprazent í Evróvisjón.

Þá kemur írska dívan sem snýr aftur eftir öll þessi ár. Hún getur sungið náttla. Og er hinn girnilegasta, rétt í laginu með rauða hárið sitt. En samt, ég held að það kæmi mér á óvart að sjá þetta fara áfram. Kannski afþví að mér finnst lagið dálítið leiðinlegt. Erfitt að segja. … Sjitt maður. Hversu lengi halda þeir þessari vindvél í gangi? Er ekki búið að banna fleiri virkjanir í Noregi? Allavega, svo toppaði hún það með því að strumpa pínu falskt í lokin.

Fyrirfram held ég að ég hafi meiri trú á búlgarska laginu en meðalmaðurinn. Sko, það stendur undir öllum mínum væntingum. Hið fínasta júrótrass. Glimmer og efnislitlir geimgallar. Getur ekki klikkað. Sanniði til. … Púff. Í smástund þarna hélt ég að hann ætlaði að kyrkja stelpuna einsog var svo mikil tíska á þriðjudagskvöldið. Hann hefur sennilega hætt við á síðustu æfingu eftir árangur þeirra sem gerðu það um daginn.

Kýpur með gítarballöðu kvöldsins. Sjáum til hvort lukkast jafnvel og hjá belgíska krúttinu um daginn. Mér sýnist á öllu að þetta sé ekki alveg glatað, en ekki algjör glimrandi súxé heldur. Flórsykurinn aðeins of þykkur. Hvar er hjartað í þessu hjá ykkur krakkar? Vons mor, vit fílink! En eins og ég sagði, ekki alslæmt og má alveg fara áfram mínvegna, tildæmis frá dómnefndum, eins og Sigmar stingur undir með.

Auglýsingahlé. Notum það.

Króatía og það er Feminem. Jiminn eini hvað mér finnst þetta plebbalegt nafn. Næstum eins plebbalegt og frænka krakkanna minna (12 ára)  segir að það sé að blogga. Sérstaklega fyrir svona fullorðna karlmenn. En hún segir að þetta sé, and I quote, „sigurstranglegt.“ Og hún er með puttann á púlsinum, svo hún hlýtur að vita þetta. En erum samt sammála um að dansinn sé asnalegur. Þær kunna samt alveg að syngja stelpurnar og ég hef fulla trú á þeim, þrátt fyrir dansinn.

Þá kemur lagið frá Georgíu og ég get svo svarið það, það er annað lagið í kvöld sem mér finnst byrja alveg eins og Is it true gerði í fyrra. Hvernig er það, er ekki búinn að vera slatti af ballöðum sungnum af snoppufríðum stúlkum í kvöld? Jú, þetta er sú sjötta, ef mér skjöplast ekki. En með þeim betri. Eða, með þeim betur sungnu. Lagið var náttúrulega bara svona lala, eins og þetta alltsaman.

Og þá er þetta bara að verða búið. Tyrkir með hressa rokkarastráka og fara örugglega áfram. Eina lagið sem keyrir inná Disney-Goth línuna í kvöld. Vel spilað, vel spilað. Dave -Grohl-lúkkalæk  og. hvað. er. málið. með þetta smergelsveiflandi vélkvendi á miðjupallinum? Brjálað stuð. Við fáum að sjá þetta aftur á laugardagskvöldið.

Svo talandi um það, hvernig fer þetta nú í kvöld? Humm…

Ji, þessar gömludagaklippur eru æði.

Loksins sá ég mýflugumynd af litháísku strákunum. Og leist alveg sæmilega á. Ég spái þeim áfram. Annars verður þetta kvöldið þegar sætu stelpurnar fara áfram með ballöðurnar sínar: Svíþjóð, Azerbaídjan, Króatía og Georgía. En ekki Úkraína. Og ég held ekki Írland áfram. Svo verða það Rúmenía, Búlgaría og Tyrkland úr hressu deildinni, alveg garanterað.

Uppí hvað er ég kominn? Átta? Og hvað er þá eftir – Armenía, Danmörk, ? Holland? Nei djók. En ég held að kannski eigi Kýpur eftir að taka þetta. Og bara af því að ég er ég sendi ég Slóveníu áfram á dómnefndaratkvæðinu. Þaraseia einsmanns dómnefndinni mér.

Sumsé, tíuþjóðaspáin: Litháen, Svíþjóð, Azerbadjan, Króatía, Georgía, Rúmenía, Búlgaría, Tyrkland, Kýpur og Slóvenía. Read’em and weep.

Það virðist rétt sem haldið var fram: Þetta er mun sterkari riðill en þriðjudagskvöldið var. Miklu harðari keppni. En ég bíð samt spenntur eftir fyrsta manninum sem fer að kvarta yfir austantjaldsklíkunni þegar Danmörk situr eftir, í staðinn fyrir að horfast í augu við að lögin að austan eru bara miklu betri. Eða svona, fyrir formið.

Jæja, þá eru auglýsingar og síðasti séns að birta fyrir umslög. Sjáum til hvernig fer.

Var svissneski strákurinn með svona geðveikislega flotta barta? Ég missti alveg af því, sennilega skyggðu eyrun svona á þá.

Rétt: Georgía, Tyrkland, Kýpur, Azerbadjan, Rúmenía.

Rangt: Úkraína, Ísrael, Írland, Armenía, Danmörk.

Feilaði á þessum: Litháen, Svíþjóð, Króatía, Búlgaría, Slóvenía.

Helvítis norðurlandaþjóðaklíka alltafhreint.

Jæja, þetta er gott í kvöld. Ég þarf að fara að svæfa. En ég verð að skrifa eitthvað meira um þetta á morgun. Og líka um „fjóru stóru.“ Og uppáhaldið mitt.

Heimsókn á hamfarasvæðin: Dagar 6-7 og smá um Evróvisjón

Það eru leiðinlegu dagarnir akkúrat núna, eða þeir eru það a.m.k. fyrir aðra að fylgjast með þeim. Ef einhverjir nördar villast hérna inn er bara best að þeir skrolli strax neðst niður.

– – –

Það var brjálað maratonnsprógramm á lokadegi Akureyrardvalar – reynt að koma sem mestu í verk sem farist hafði fyrir um helgina. Um síðmorguninn var byrjað á að hjálpa doktor Sumarbrosi við flutninga. Svo var dögurður hjá frænku frúarinnar. Krakkarnir fóru allir á hestbak í síðasta sinn, og á bakaleiðinni úr hesthúsinu var heilsað uppá fyrrverandi bæjarfélaga frá Tübingen, frúin rak inn nefið hjá vinkonu sinni og keyptar DVD-myndir og gúmmítúttur á krakkalínuna í Nettó á Glerártorgi.

Svo var flogið. Án frekari tíðinda. Jökullinn hættur (a.m.k. í bili) og allt.

Ótrúlegt en satt, þá var gærkvöldið fyrsta kvöldið á landinu sem við fengum fisk. Etið úti á palli í góða veðrinu.

Djödl ógeðslega var það gott.

– – –

Dagurinn í dag er fyrsti af þremur í vinnu. Hlé frá fríinu. Fámennt en góðmennt í Sturlugötunni og ágætir endurfundir við gamla vinnufélaga. Og einn nýjan frá Svabíu sem kom hingað fyrir hálfum öðrum mánuði í fangaskiptum fyrir undirritaðan.

Í hádeginu var etið á Jómfrúnni með tveimur góðum vinum. Og lítið meira af tímanum fram að kvöldi að segja. Nema þegar ég steig útúr strætó í Spönginni og horfði á Úlfarsfellið og Esjuna yfir sólgullin sundin þá  kýldi það mig í magann hvað ég elska þetta land. Eins og ég myndi elska drykkfellt stórasystkin í ruglinu, ef ég ætti svoleiðis.

– – –

Ég var nokkuð ánægður með forkeppni kvöldsins. Það var minna af gígantískum gloríum en áður fannst mér, bæði í jákvæðu og neikvæðu merkingunni. Meirihlutinn frá soddan miðjumoði upp í alveg svona ágætt bara. Allur söngur nánast skammlaus, nema stelpan frá Lettlandi, hún var jafnvel enn verri en ég átti von á. Og þurfti mikið til. Flutningur svona allaveganna, en flestir stóðu undir því pari sem hægt var að setja þeim fyrir.

Skorið hjá mér eftir kvöldið er ekki nema sextíu prósent, en ekki nema eitt land sem kom mér á óvart að kæmist áfram: Bosnía-Herzegóvína var skárri en ég hafði átt von á, en ekki það mikið skárri. Portúgalska stúlkan var mun minna óþolandi en fyrirfram mátti ætla og söng alveg ljómandi vel. Það gerðu krakkarnir frá Hvíta-Rússlandi líka, og fiðrildavængjagimmikkið var ódauðlega móment kvöldsins og eitt og sér næg ástæða til að senda þau áfram. Hera Björk söng vel, verð ég að játa. Þetta var fyrsta skiptið sem mér fannst hún syngja þetta vel. Og dugði til.

Eistneska strákinn vantaði einhvern neista þegar til kom. Slóvakísku stelpuna líka (og svo söng hún pínu flatt). Ég er pínu leiður fyrir hönd finnsku stelpnanna – þær hefðu alveg mátt komast áfram. En Pólland maður, hvað var ég eiginlega að spá?!

– – –

Vinna á morgun og hinn, og svo byrjar fríið hjá mér aftur frá og með fimmtudagskvöldinu. Ég hef verið alltof upptekinn til að setja mig alminlega inní fimmtudagsriðilinn. Sennilega verð ég bara að gera honum skil í beinni, eins og ég gerði í fyrra og hafði gaman af. Ég var að gæla við það áðan að gera svoleiðis undir keppninni í kvöld, en svo var tæknin eitthvað að stríða mér á tölvuöld.

Heimsókn á hamfarasvæðin: Dagar 3-5

Það gerist einhvern veginn minna þegar frúin er ekki með manni. Svo það voru rólegheit á okkur fram eftir föstudegi. Það er komin þessi skemmtilega skábraut niður þrepin ofaní stofuna og það var hægt að dvelja sér lengi við að keyra bílana upp og niður. Strákurinn var svona mestanpart hressari en hann hafði verið daginn áður, svo hann fékk að fara með uppí hesthúsið hennar ömmu uppúr hádeginu. Hann þótti hinsvegar ekki hressari en svo að hann var skilinn eftir hjá ömmu og afa á meðan við feðginin fórum í sund að hitta gamla skólafélaga. Þar varð stelpunum svo vel til endurnýjaðra kynna við krakkana þeirra að þær fengu að fara með þeim heim í kvöldmat og ég fór einn heim til stráksins. Planið var að við myndum fara báðir feðgarnir að ná í frúna á flugvöllinn uppúr kvöldmatnum og sækja svo stelpurnar í bakaleiðinni. Þá var hinsvegar orðið svo lágt á honum risið að hann fór bara að sofa.

Eyjafjallajökull var til friðs. Af ferð minni með frúna frá flugvellinum til vinanna í Munkaþverárstrætinu fara engar sögur hér. En þar var setið frameftir kvöldi, spjallað og sötrað viskuvatn.

– – –

Á laugardeginum fórum við öll í dagsferð í Mývatnssveitina með föður mínum, systur og mági; einbíla, þarsem jeppinn tók sjö farþega. Stoppað í fuglasafninu, á aldarfjórðungsafmæli Mýflugs og etið rúgbrauð með reyktum silungi í Dimmuborgarsjoppunni. Goðafoss á leiðinni heim. Hin ágætasta för að öllu leyti. Systurfjölskyldunni boðið í lambalæri um kvöldið.

– – –

Í dag var farið í heimsóknir til vina, rætt um Evróvisjón, sveitarstjórnarkosningar, uppbyggingu menntakerfisins, hnignun ungdómsins í dag og andlegan, táknrænan og veraldlegan dauða fegurðarsamkeppna. Svo var endað í fermingarveislu í Laugaborg þar sem góðar veitingar voru þegnar og heilsað uppá frændfólk. Undir svefninn skutust stelpurnar svo og litu á hestana með ömmu sinni fyrir svefninn.

Á morgun er síðasti dagurinn hér fyrir norðan. Við fljúgum suður síðdegis og verðum fyrir sunnan það sem eftir er af Íslandsdvölinni.

Heimsókn á hamfarasvæðin: Dagur 2

Sá skapmikli svaf í ferðabarnarúmi inni hjá okkur hjónum í nótt sem leið. Eða, svo langt sem það náði. Það fóru eitthvað plaga hann í honum eyrun þegar komið var fram yfir miðnættið, svo svefninn var laus hjá okkur öllum þremur það sem eftir lifði.

– – –

Ég var búinn að gleyma hverafýlulyktinni af heita vatninu. Hún rifjaðist upp undir sturtunni í morgun. Eða maður var náttúrulega svo samdauna henni sem hvunndagslegur íbúi.

– – –

Annan daginn í röð var lánið með okkur með flugið – við lentum á Akureyrarflugvelli í hádeginu þar sem amma beið með Skódann. Síðdegis fór ég með strákinn á heilsugæsluna til að láta líta í eyrun á honum – hann svaf í flugvélinni og vaknaði hálfu argari en áður. Þrýstingsbreytingarnar eflaust ekki til að bæta ástandið í miðeyranu.

Á heilsugæslunni hitti ég gamlan vin, sem vildi svo vel til að var heilsugæslulæknirinn sjálfur. Við mæltum okkur mót með fleirum í lauginni á morgun.

Ég er samt hræddur um að amma fái að passa strákinn á meðan.

– – –

Amma fór svo með systurnar í hesthúsið meðan við langfeðgarnir sátum heima allir þrír. Strákurinn var ekkert alltof hrifinn þegar við karlarnir stóðum fastir á því að horfa á endursýningu á Stiklum Ómars Ragnarssonar. En lúffaði. Sofnaði svo í fanginu á mér.

– – –

Lítið rætt um pólitík í dag – minna en í síðustu heimsókn. En eitthvað þó. Og allt á sama máli, ólíkt því sem einhvern tíma var.

– – –

Frúin verður við jarðarför fyrir sunnan á morgun og kemur svo undir kvöldmatinn.

Humm. Við þurfum eitthvað að tímastilla það með hliðsjón af því að við feðgin verðum í sundi á Skódanum og jeppinn í viðgerð á verkstæði.

Sjáum til.

Heimsókn á hamfarasvæðin: Dagur 1

Það var óvenju lítið að gera í Frankfurtarflughöfn þegar við tékkuðum okkur inn. Ég hef aldrei séð svona lítið að gera þarna. Spurning hvort spili stærri rullu: Rísandi Eyjafjallajökull eða fallandi evra. Eða bara hrein hending.

Sáum súluna stíga upp af honum og yfir skýjaþykknið út um kýraugað á stjórnborða þegar flugið var lækkað til lendingar. Tignarlegt. Og alltíeinu langaði mig ekkert sérstaklega til að keyra þangað og skoða nánar. Þetta er ekki jákvæðasta og mest aðlaðandi orka í heimi að horfa á hana.

Jaðrar kannski við lög að segja svona? Geta ferðaþjónustuaðilar nokkuð kært mig fyrir að segja svona upphátt?

Við fengum Moggann og ég greip tækifærið til að fletta honum, í fyrsta skipti í meira en ár. Ég komst að því að það er að minnsta kosti ekki búið að eyðileggja bridsdálkinn.

Horfði á Bjarnfreðarson í „inflight entertainment.“ Og fannst hún hinsvegar stórkostleg.

– – –

Það er orðið mjög athyglisvert þegar maður kemur svona sjaldan til landsins að sjá hvernig mynd er máluð af landinu með auglýsingaskiltunum sem heilsa manni þegar gengið er frá borði í Keflavík. Nú er orðið mjög sláandi hversu mikil athygli er lögð á að prómótera íslenskan útivistarfatnað (sem var reyndar fyrir), ullarvörur og heimilisiðnað (sem er nýrra trend). Og hvað það er gert á svakalega hipp og kúl máta. Ég sá þarna auglýsingamyndir af fólki í ullarpeysum sem voru svo slick að langaði mest að troða ullarsokki í brókina þegar maður sá þær. Algjöra listgerninga í ímyndarsköpun.

Ojæja, það situr þá eitthvað eftir af gróðærinu: Auglýsingagúrúar sem þekkja leiðirnar að brautunum sem hægt er að virkja í hausnum á okkur. Og þætti þá sumum til einhvers unnið. Eða tapað, ef við viljum líta svoleiðis á það.

Spjaldið sem skar sig úr og stakk í augu eins og Höfðatorgsturn í Árbæjarsafninu var auglýsing fyrir tónlistar- og ráðstefnuhúsið, mér liggur við að segja svokallaða. Eftir því sem mánuðirnir líða verður allt einhvern veginn meira og meira rangt við það. Maður sá rautt við að horfa á auglýsingaspjaldið. Rautt spjald.

Keypti Ítrekun Mugisons og Go með Jónsa í fríhöfninni, með nokkrum DVD fyrir krakkana (íslenska talið fyrir krakkana sko). Fékk svo í kvöldmatnum ábendingu frá mági mínum um einn disk í viðbót sem mér myndi líka: Diskinn frá í fyrra með Kimono. Hef kannski augun opin fyrir honum í fríhöfninni á leið út aftur.

– – –

Annars erum við öll komin í Grafarvoginn þarsem við gistum yfir nótt áður en við fjögur feðgin fljúgum norður yfir heiðar í fyrramálið (ef Earth, Wind and Fire leyfa okkur það). Frúin kemur svo sömu leið hálfum öðrum sólarhring á eftir okkur. Þetta lítur allt sæmilega út í augnablikinu, en maður trúir því þá fyrst að þetta gangi þegar maður horfir uppá Súlur útum landganginn á vélinni.

Svo aftur í Reykjavík í næstu viku, þetta verða fimmtán dagar og fjórtán nætur í allt.

Evróvisjónæði! (fyrsti hluti)

Ekki dauður enn, þótt ég hreyfi mig hægt.

Ég hef þagnað um lengri og skemmri tíma áður. Haft lítið fram að færa svo mánuðum skiptir. En eitt er á tæru. Öll þau rúmlega sjö ár sem ég hef bablað þetta hefur aldrei orðið messufall í kringum Evróvisjón. Og ég ætla sko ekki að fara að byrja á því núna.

– – –

Fyrra undankvöldið í ár verður annan þriðjudag héðan í frá, 25. maí. Þá verðum við (ef jörð og vindar leyfa) öll á skerinu, í annarra manna húsum. Svo það er ekkert sjálfgefið að ég endurtaki leikinn frá í fyrra, þegar ég tjáði mig um herlegheitin í rauntíma (sem ég hafði reyndar mjög gaman af, ég segi það fyrir mig). En þá hef ég allavega póstað þessu hérna.

Kvöldið byrjar á framlagi Moldavíu. Þetta er óttalegt hvítarusl, en fer nú sennilega áfram. Stelpan virðist geta sungið sæmilega skammlaust, strákurinn nær varla að eyðileggja það fyrir henni og sjóið stefnir í að verða eitt brjálæðislega yfirdrifið kitsj. Og rifni saxófónninn. Ekki minnast ógrátandi á þetta rifna saxófónsóló. Mér finnst að það ætti að frysta allar veraldlegar eigur hvers þess manns sem dirfist að nota rifinn saxófón í tónsmíð á almannafæri.

Fyrsti grínentrans kvöldsins er frá Rússlandi. Nei djók. En það er algjört möst að sjá þetta og njóta, bara fyrir þórðargleðina. Ég er samt ekki alveg viss um að Peter Nalitch sé gleymdur og grafinn, þrátt fyrir hörmulegt lag, grátbroslegan flutning og krampavekjandi fyndinn texta. Hann slefar sennilega í úrslitin á brottfluttum atkvæðum til þess að sitja svo eftir í neðri helmingnum á laugardagskvöldið.

Eistneska lagið heillar mig algjörlega uppúr skónum. Mjög sjarmerandi. Skemmtilega retró alltsaman og krókur sem límir sig pikkfastan við heilabörkinn. Ég verð illa svikinn ef hann Malcolm Lincoln kemst ekki áfram. En einhvernveginn finnst mér ég reyndar spá Eistlandi áfram á hverju ári og alltaf situr það eftir. Ég má til með að setja hérna inn lifandi flutninginn (ég mæli líka með kynningarvíðgesjóninni þar sem hann labbar um í snævi þöktum skógi með risavaxinn haus af David Byrne á herðunum):

Lagið frá Slóvakíu virkar vel. Kannski dálítið venjulegt, lágstemmt og ekki alveg verið að brjóta upp formið, en stúlkan heldur lagi og það er eitthvað pínu sjarmerandi við þetta dæmi alltsaman. Þetta fer sennilega áfram.

Lagið frá Finnlandi er dálítið spes. Þá á ég við spes á sama máta og finnsku lögin á liðinni öld voru spes, frekar en Lordi-spes. But in a good way. Það væri gaman að sjá krakkana í  Kuunkuiskaajat (nafnið segir allt sem segja þarf) fara áfram eins og furðulega margir spá þeim, en ég er ekki alveg sannfærður um að svo fari.

Lettland grunar mig að verði stórslys kvöldsins númer tvö. Hún Aisha er alls ekki örugg söngkona, lagið er lélegt og textinn til þess að gnísta tönnum yfir. En það má alls ekki missa af þessu — þetta gæti orðið spectacular failure.

Serbía fer sennilega áfram, enda kemur þaðan skásta lag kvöldsins af Balkanskaganum og balkanbítið keyrt uppí ellefu. En samt aðallega fyrir það að hin Balkanlög kvöldsins skuli vera slík óskapanna hörmung sem þau eru. Svo er krúttið hann Milan Stankovic svo skelfilega sætur og rakar ábyggilega einhverju inn á hárgreiðslunni. Sérstaklega ef hann skiptir um föt í miðju lagi.

Lagið frá Bosníu og Herzegóvínu er hinsvegar algjörlega ömurlegt. Andlaust iðnaðarrokk með banal texta og illa sungið í þokkabót. Ekki einu sinni þannig að hægt sé að hafa gaman af því, svo þetta ætti að vera kjörin pissupása fyrir þá sem þurfa.

Lagið frá Póllandi er. Humm. Pínu sjarmerandi, reyndar. Ef maður kemst yfir hversu byrjunin er skelfileg. Hann  Marcin Mrozinski kann að syngja nógu vel, svo lengi sem þessar hálfglötuðu bakraddir skemma ekki of mikið fyrir honum.

Belgía hefur sjaldnast riðið feitum hesti frá Evróvisjón í seinni tíð. En ég held svei mér þá að það gæti brugðið út af vananum þetta árið: Hann Tom Dice kemst áfram með gítarinn sinn ef eitthvað er sanngjarnt. Þrátt fyrir þetta sé í rauninni lítið annað en hreint og klárt Tracy Chapman rippoff.

Svo lengi sem ég man hefur mér þótt maltneska framlagið ömurlegt. Undantekningalaust. Það breytist ekki í ár. Og bætir bara í, ef eitthvað er. Þótt stelpan geti sungið, þá er lagið leiðinlegt og fuglamaðurinn hreintútsagt martraðarvekjandi. Þessi hörmung ætti að sitja eftir ef eithvað réttlæti er til í veröldinni. En Malta kemst reyndar vanalegast áfram, án þess að ég botni nokkru sinni neitt í því.

Ég veit ekki alveg hvað ég á að halda um Albaníu í ár. Það hefur tekist að finna alveg ágæta söngkonu, en lagið er meira svona meeeh. Þetta gæti oltið dálítið á sjóinu: Ef þau ná að kokka upp eitthvað á svipuðum skala og smaragðsgræna og augnalausa himpigimpið sem hefur ásótt martraðir mínar annað veifið frá keppninni í fyrra, þá flýgur þetta áfram. Albanía hefur líka einhvernveginn haft meðvind hingað til. Ég held varla að það breytist í ár.

Það er óvenju lítið varið í gríska lagið í ár: Söngurinn er ekki góður og einhvernveginn varla einsog þeir nenni þessu strákarnir. Hvar er Sakis Rövas þegar maður þarfnast hans? Samt er eitthvað sem segir mér að þetta eigi eftir að ná inn í úrslitin. Get ekki alveg útskýrt af hverju. En ég myndi gleðjast yfir að hafa rangt fyrir mér.

Ég er ekki eins hrifinn af portúgalska framlaginu og ég var síðustu tvö ár. Þótt stelpan kunni að syngja þá finnst mér lagið væmið og asnalegt og þetta er bara alltof Idol eitthvað. Það fer voðalega í mig svona trillerí, alltsaman. Og Portúgal er ekki land sem kemst áfram fyrir neitt minna en toppframmistöðu á öllum vígstöðvum.

Hvað er hægt að segja um lagið frá Makedóníu? Miðaldra skallapoppara með skóreim um hálsinn og fagmennskurokkið í fyrirrúmi?  Ég veit: Það er bara yfirmáta öfmó. Ekkert minna. Varla þess virði að bíða eftir gestarappinu. Ekki einu sinni hammer-on gítarsólóið í restina nær að bjarga því. Það má mikið vera ef makedóníska heilkennið gerir vart við sig í ár. Og annar iðnaðarrokksentransinn frá fyrrum Júgóslavíu þetta kvöldið. Eru einhverjir þungamálmar í vatninu þarna á Balkanskaganum?

Ég veit ekki alveg með Hvíta Rússland. Þrír plús tveir snoppufríðir og sandblásnir táningskrakkar með hugljúfa óperuballöðu. Þetta er náttúrulega alveghreint yfirmáta hallærislegt. Og þá meina ég ekki alveg endilega í bestu merkingu þess orðs. Ég hef ekki hugmynd um hvernig þeir syngja þetta læf krakkarnir, en það hangir eiginlega allt á því. Þetta gæti heillað. En mér finnst samt líklegast að þetta eigi allt eftir að enda með ósköpum.

Svo er það hún Hera Björk. Og ég verð bara að segja að hún heillar mig ekki. Hún er auðvitað góð söngkona og allt það, en lagið er bara nauðaómerkilegt og ég á enn eftir að heyra og sjá hana flytja það þannig að dugi til nokkurs.  Ég man ekki eftir að hafa verið svona lítt hrifinn af íslensku framlagi síðan einhverntíma á tíunda áratugnum. Hún á sosum séns á að komast áfram, ég er bara ekkert voðalega bjartsýnn á stærðina á honum.

Ég er nokkuð sjúr á að Moldavía, Eistland, Slóvakía, Serbía og Belgía komast áfram eftir kvöldið. Mér finnst líklegra en ekki að Albanía og Grikkland fljóti með (misverðskuldað). Ég myndi mjög gjarnan vilja sjá bæði Finnland og Pólland komast í gegn líka. Og svo tel ég nokkuð garanterað að rússneska furðuverkið fari áfram á brottfluttum atkvæðum.

Ég get alveg liðið bæði Portúgal, Íslandi og Hvíta-Rússlandi (ef þau geta sungið) að komast áfram, þótt mér þyki þau öll ólíklegri kandídatar. Og þá helst á kostnað Grikklands eða Rússlands. En ef Lettland, Bosnía-Herzegóvína, Makedónía eða Malta ná að troða sér inn, þá veit ég ekki hvert ég ætla.

Og læt það duga í bili.