Það var tíðindalaus dagur í dag og ekki frá neinu sérstöku að segja.
Horfið bara á Oswald Sattler í staðinn:
Það var tíðindalaus dagur í dag og ekki frá neinu sérstöku að segja.
Horfið bara á Oswald Sattler í staðinn:
Í dag var farið í sirkus. Börnin skemmtu sér hið besta við að horfa á gúmmístelpuna sem gat troðið sér ofaní ofurlítinn kassa, loftfimleikastúlkuna, konuna sem tamdi tígrisdýrin, hina sem hélt á lofti húlahringjum og, að sjálfsögðu, trúðastelpuna.
Það leynir sér ekki af ofantöldu að sirkuslíf í dag telst til láglaunastarfa.
Sirkusstjórinn var samt vitaskuld karlkyns. Hann tamdi líka bæði hestana og fílana. En var ekki eins flottur og sú sem var með tígrisdýrin.
Þeir voru reyndar aðeins fleiri, karlmennirnir. En það er með þetta eins og annað, að argúmentið er einhvernveginn sterkara þegar maður vandar valið á staðreyndunum sem nefndar eru málinu til stuðnings.
Ég vil taka fram að ofanritað er ekki ætlað sem dulin dylgja á Evrópusambandsumræðuna á Íslandi. Nema síður sé.
En krakkarnir, sumsé, skemmtu sér hið besta. Sú snögga spurði reyndar með ótta í röddinni undir hverju atriði hvort þetta yrði nú ekki örugglega allt í lagi. Sérstaklega undir tígrisdýrunum. Ég velti fyrir mér hvort ekki ætti frekar að fara að tala um þá hjartalitlu – það er óttalega margt sem hræðir hana þessa dagana. Hún fríkaði nánast út þegar við lentum í haglélinu í dýragarðinum í Stuttgart, hún er dauðhrædd við þrumurnar og eldingarnar sem bresta á nánast annan hvern dag, þegar rignir er hún hrædd um að það sé svo mikið að það sé bara allt að fara að fyllast, og þar fram eftir götunum.
Undir kvöldið fórum við út að borða á uppáhaldsveitingastað krakkanna. Hann brást ekki, frekar en fyrri daginn. Það besta við hann, fyrir utan yfirmáta góða þjónustu og gómsætan ítalskan mat á góðu verði, er að hann er í þarnæstu götu, í passlegri göngufjarlægð frá heimilinu. Og krakkarnir undantekningarlaust leystir út með nammi í verðlaun fyrir hraustlega matarlyst og góða hegðun.
Á morgun verður síðasti dagurinn þeirra ömmu og afa hjá okkur. Svo verð ég einn með skarann þartil frúin snýr aftur heim í kotið á mánudaginn.
Svínagúllas með gulrótum í hádegismatinn. Það hét einhverju rosalega sniðugu þýsku nafni sem ég lagði á minnið og gleymdi svo.
Og þar fór það.
Ég hjálpaði þeirri snöggu við að koma skilaboðum áleiðis í dag:
Lieber Herr R. und Frau T.
Meine herzliche glückwunschen mit ihrer Hochzeit am letzte 23. Mai. Mein Name ist Una, ich bin eine fünfjährige isländische Mädchen und ich habe in Deutschland seit einem Monat gewohnt.
Letzte April kam meine Familie – meine Eltern, meine ältere Schwester und kleines Bruder – zu Tübingen, wo wir die nächste zwei Jahren wohnen werden. Ich bin hier im Kindergarten, wo ich kann immer noch nicht zu viel von meiner Kameraden und Lehrern verstehen. Aber es kommt doch schon.
(Mein Vater schreibt dieses Brief. Seines Deutsch ist auch noch nicht so gut, aber er schreibt etwas besser als ich auf e-mail.)
Ich war am Mittag letzte Montag (25. Mai) im Garten in der Kinderhaus, meine Kameraden mitzuspielen. Dann habe ich ein kleines Karte gefundet, mit die Reste von einem zerrissen Ballon, und dieser Meldung:
„Lieber Finder dieser Karrte,
das Brautpaar würde sich über Post von Ihnen sehr freuen 🙂
Wenn Sie uns den Auffindeort angeben, weiss das Brautpaar welcher Ballon die längste Reise zurückgelegt hat.
(email adressa)“
Ich könnte es nicht lesen, aber mein Vater hat mir erklärt was es bedeutet. Ich freue mich über, dieses Karte für Ihnen zu finden. Ich bin sehr neugierig zu wissen, ob mein Karte der längste Reise geflogen hat.
Herzliche Glückwunschen von Una in Tübingen.
Ég var að hugsa um að gera bréfið einhvernveginn bernskt og skemmtilegt þeim hjónakornum til ánægju, en komst svo að því að það yrði alveg nógu mikið svoleiðis þótt ég færi ekki að reyna að bæta á það viljandi.
Ég læt vita ef ég frétti eitthvað um það hvernig blöðruleifin hennar Unu hafi staðið sig í keppninni.
Annars: sirkussýningar byrjuðu ekki fyrr en eftir kvöldmat í dag, svo við förum þangað eftir vinnu á morgun. Um hádegisbilið ætla afi og amma samt fyrst að fara með krökkunum og skoða sirkusdýrin í Tierschau.
Einhvunnlags hakkabuff með kartöflustöppu og hrásalati. Er eitthvað Schwäbískt við það?
Einhvern veginn vill verkast þannig að þegar bóndinn sér einn um heimilið líður helmingi lengra á milli alls þess sem þarf að gera en ella.
Eða lengra.
Frúin hélt uppá skerið á laugardaginn var til að taka þátt í alþjóðlegri leiklistarhátíð. Í kvöld er hvíld fyrir alla þátttakendur (nema frúna) og svo eru enn þrjú kvöld í viðbót til að sjá döff leikhús. Drífa sig.
Það er Otto í sjónvarpinu. Með standöpp. Hann er fyndinn. Liddl:
En þetta var nú útúrdúr.
Allavega. Uppá skerið á laugardaginn. Með sömu vél kom faðir hennar í hina áttina til Frankfurt og hefur verið hjá okkur síðan. Á sunnudeginum sýndum við afa miðbæinn og toppurinn hjá krökkunum var að sjá eðlurnar við höllina uppi á hæðinni. Í gær var farið með hann í lystigarðinn (þar sem froskarnir höfðu mun hægar um sig en um daginn) og í dag var rúntað yfir í nágrannabæina Bebenhausen og Hagelloch.
Eða það er mér sagt. Sumir þurfa að vera í vinnunni.
Á morgun er svo stefnt á sirkus. Þeir sem smella á hlekkinn eru hvattir til að hafa kveikt á hljóðinu.
Í hádeginu í gær var boðið uppá Leberkäse, ofnbakaðan kjötbúðing sem hefur reyndar líka slegið í gegn hérna á heimilinu í kvöldmatinn. Við steiktum svoleiðis upp á pönnu í kvöld og framreiddum með spæleggjum, baunum og súrkáli, svo afi fengi einhvern vott af þýskri matargerð í heimsókninni. Og var gerður góður rómur að af öllum viðkomandi.
Í hádeginu fékk ég mér hinsvegar bara fyllta kjúklingabringu. Ekki mikið Schwäbískt við það nema kannski fyllingin sem var troðið inní hana.
Sit og horfi á Die Ultimative Chart Show enn eina ferðina, í þetta sinn er rennt í gegnum 50 vinsælustu „Männer Hits“ allra tíma (til mótvægis við „Frauen Hits“ í síðustu viku). Það er komið að 17. sæti og það er einhver í sjónvarpssal að syngja eitthvað lag með Springsteen sem ég hef aldrei heyrt áður. Ekkert sem kemst í hálfkvisti við hann Oswald Sattler blessaðan og Fjallafóstbræðurna.
Frúin fer heim á skerið í fyrramálið og verður í viku. Tengdapabbi kemur hingað út með sömu vél og verður sömu vikuna. Ég mun kannski taka að mér eitthvað af bloggtengdu kvenmannsverkunum á heimilinu meðan á stendur.
Þetta er eitthvað grunsamlegur listi fyrir „Männer Hits.“ Þarna áðan var einhversstaðar lag með Phil Collins. Was ist doch los mit das, segi ég nú bara. Þá kýs ég nú frekar „Engel“ með Rammstein. Eða „Kommisar“ með Falco.
Mér létti mikið í dag þegar ég fékk staðfest að keppnin sem ég missti af í gær var bara undankeppni fyrir úrslitin: Í ágúst mæta og keppa um sigurinn fjögur lög frá Þýskalandi (valin í gær – ég á eftir að grafa upp hverjir komust áfram), fjögur frá Sviss, fjögur frá Austurríki og fjögur frá Suður-Týról. Ef ekkert af lögunum sem ég deildi út hérna í gær komst áfram er það ekkert minna en dómaraskandall.
En ég er strax farinn að hlakka til.
Juminn eini. Status Quo eru mættir læv (eða svonaaa) í sjónvarpssal og trylla lýðinn með „Rocking all over the world“ í þrettánda sæti.
Ég finn bara mikinn mun á mér. Ég er allur meiri karlmaður fyrir vikið.
Ég er farinn í rúmið.
Arrg. Ég var að fatta að við horfðum á vídeó í allt kvöld þegar við hefðum getað verið að horfa á Grand Prix der Volksmusik (Deutscher Vorentscheid 2009) á ZDF. Meðal keppenda voru Isartaler Hexen, Rico Seith og Oswald Sattler und Die Bergkameraden. Ég má til með að deila með ykkur entrönsunum þeirra:
Ég sé að þetta hefur verið geysihörð keppni – það gerir þetta enginn eins vel og Þjóðverjar. En persónulega er ég langhrifnastur af Fjallakumpánunum.
Ojæja. Það er auðvelt að vera vitur eftirá.
Annars er voðalega erfitt að halda athyglinni við bloggið – það er eitthvert þýskt „Snuff TV“ í gangi á Das Vierte: Echt Hart! – Menschem am Limit. Ég bara get ekki að því gert. Það er álíka erfitt að hætta að horfa á þetta og umferðarslys í uppsiglingu (sem eru þarna reyndar nokkur, þarámeðal viðtal við „Lexi Kárason“ sem sést skadda sig í sló-mó í einhverri snjósleðakeppni á Íslandi). Eða fréttir af nýjasta kílóinu hennar Jennifer Aniston á Vísi. Eða æ fokkit.
Ég greip með mér tvær ræmur á leið gegnum fríhöfnina hingað út: Sjónvarpsþættina Pressa og Brúðgumann. Ég gat ekki stillt mig og horfði á Pressuna strax fyrstu dagana eftir að ég kom hingað út, sjónvarps- og internetlaus á síðkvöldum. Og var bara nokkuð hrifinn. Þessir þættir sýna íslenskt líf frá sjónarhorni sem maður var ekki vanur að sjá í bíó eða sjónvarpi: Allir þessir bílar á stofnbrautunum, foreldrar að skutla börnunum, öll GSM-samtölin. Og að sjálfsögðu ógleymanleg krufningasenan í þriðja þætti.
Svo horfðum við hjónin og tengdamamma á Brúðgumann í kvöld. Hún var frábær.
Ég greip tvö eintök af henni með mér og gaf hitt honum Holm sem er búinn að veita ómetanlega aðstoð við að koma öllum okkar málum hérna á koppinn. „It’s a very funny comedy I’m told,“ sagði ég við hann þegar ég afhenti hana. „It’s based on Chekov’s Ivanov.“ Hann virtist ekki alveg sannfærður, en tók gjöfinni vel.
Hann hefur ekki fært það í tal enn hvort þau séu búin að horfa á hana (hann á indæla konu sem vinnur líka á klíníkinni), kannski kann hann ekki við það – húmorinn skilar sér kannski ekki alla leið upp á meginlandið. Mér varð hugsað til þess hvernig þau hjónin tækju bröndurunum um rúninginn á þýsku túristakerlingunum.
Mig grunar að þeim þyki það hreint býsna fyndið. En ég hef reyndar ekki enn tékkað á hvernig það kemur út í ensku þýðingunni.
Mér fannst dálítið furðulegt í fríhöfninni að það var ekki hægt að kaupa íslenskar myndir með þýskum texta. En það hefði kannski lítið uppá sig – það ætti þá frekar að fara alla leið og döbba þetta.
(Hilmir Snær döbbaður á þýsku. Það er eitthvað undarlega klámmyndalegt við tilhugsunina.)
Í hádeginu í dag skellti ég mér í fyrsta skipti á grænmetisréttinn: Einhvunnlags baunapottrétt með barnamaísstönglum, grænmeti og soðnum bollum úr kartöfludeigi – Knödel. Alveghreint ágætt. Og kartöflusoðbollurnar tvímælalaust betur lukkaðar en þær sem ég keypti og reyndi að sjóða sjálfur í einverunni í apríl.
Í gær og fyrradag fékk ég mér hinsvegar pylsu. Ég veit að það er svipað og að segja „ég fór á þorrablót og fékk mér eina gerð af súrmat,“ bara margfalt meira svoleiðis. En það verður að duga.
Við frúin ræðum stundum örin á þýsku þjóðarsálinni sem erfitt er að tala um. Við erum í raun ósköp illa að okkur (hún þó heldur skár en ég) og ég hef ekki fyrir mitt litla líf þorað að ræða neitt í námunda við þau mál við samstarfsfólkið. Og mun eflaust aldrei.
En mér finnst dálítið skrítið að rekast stundum á hitt og þetta sem hringir bjöllum aftan úr fortíðinni. Reyndar ekki allt vandræðalegt, tildæmis er ekkert sem vekur óbragð í munni við það að aka framhjá verktakaskiltinu hjá Gottlob Rommel sem tekur í gagn spítalabyggingarnar uppi á hæðinni (enda sá Rommel sem varð þekktur í seinna stríði annálaður öðlingur), nema hvað það minnir mann óþægilega mikið á Kaupþingslógóið. Og þá rifjast bara upp manns eigin skömm og landa sinna:
Hitt þótti mér öllu merkilegra þegar við fórum í göngutúr á nálægan bóndabæ og sáum traktor með Mengele-kerru í eftirdragi:
Og ekki minnkuðu merkilegheitin þegar ég komst að því að fyrirtækið „Karl Mengele og synir“ er stórframleiðandi landbúnaðartækja og hefur verið allt frá því faðir Jósefs stofnaði það fyrir hundrað árum. Við frúin ræddum þessa nafngift aðeins og henni fannst að í svona kringumstæðum ættu fyrirtæki bara að sjá sóma sinn í að skipta um nafn. En ég er ekki svo viss – þá fyrst finnst mér verið að forðast að horfast í augu við fortíðina. Fyrir utan hvað það er voðalega Íslandsbanka/NBI-legt, eitthvað.
En áhugasamir eru hvattir til að tékka á heimasíðu Mengele landbúnaðartækja. Aðdáendur geta líka keypt sér sitthvað smálegt, s.s. kaffibolla, lyklakippur eða vasahnífa merkta fyrirtækinu, ef vill.
Jæja, það rétt slapp. Á síðustu stundu duttum við inná hollenska stöð sem sýnir seinna kvöldið. Ég var farinn að halda að við fyndum þetta ekki. En það slapp, ég er kominn með Rothausinn í aðra hendina og allt orðið sirkabát einsog á að vera. Fyrir utan að heyra ekki í honum Sigmari blessuðum, heldur þessu bévaða hrognamáli í staðinn.
Króatía: Jæja. Það er bara þjóðlega línan, öllum að óvörum. Söngvarinn vill greinilega vera voða sexý en óttalega freðýsulegur, þrátt fyrir góðan vilja. En syngur skammlaust, heyrist mér. En tengdó er ennþá að spjalla við vinkonu sína á Skæpinu hinumegin í stofunni svo ég heyri þetta ekki alveg nógu vel. Virðist samt alltílagi.
Írland: Með lagið „Et cetera.“ Voðalega býður það upp á fyndið grín á þeirra kostnað. En ég sé að Elektrulínan hefur verið tekin víðar en í Andorra. Ég kunni bara ágætlega við þetta, þetta á sér von fyrir utan að Írland hefur ekki átt það auðvelt uppá síðkastið.
Lettland: Ef ég væri frá Lettlandi get ég skilið að mér þætti þetta dálítið flott. En ég er bara ekki frá Lettlandi. En samt… það er eitthvað við þetta… Ég glotti útí annað, og ekki nema til hálfs að því, frekar en með því.
Serbía: Neinei, bara kominn húmorvinkill á þjóðlegu línuna. Bara verst hvað hann er óttalega lítið fyndinn. Fer Serbía samt ekki alltaf í gegn, sama hvað hún sendir?
Pólland: Eitt af mínum uppáhaldslöndum í seinni tíð. Fyrsta ballaða kvöldsins og einhvernveginn alveg kominn tími á hana. Fyrsta númer kvöldsins með svona „alveg týpískt“ Júróvisjónlag, stelpan getur sungið og hefur í grófum dráttum allt með sér til að komast áfram. Mér finnst lagið reyndar óttalega leiðinlegt. En það er aukaatriði.
Noregur: Þá er það lagið sem allir segja að muni vinna. En bíddu… út á hvað? Já ókei, hann er sætur strákurinn. Syngur svona nokkurnveginn ófalskt… Já ókei. Þetta er að síast inn hjá mér. Það er sjarmi þarna. Þetta er ekki alvitlaust.
Þessir kynnar eru hinsvegar hreinasta hörmung. En að dæma af fyrsta fjórðungi finnst mér þetta sterkari riðill en í fyrrakvöld.
Kýpur: Dálítið brothætt byrjun. Og heldur áfram. Flutningur ekki alveg eins lýtalaus og hann þyrfti að vera fyrir svona lag. Söngkonan ekki alveg með röddina í þetta. En lagið var ekki alveg ómögulegt.
Slóvakía: Neeei nú fer þetta að verða alveg ágætt af sætum stúlkum sem geta næstum sungið rólegu lögin sem þær eru að flytja. Nei ókei, núna kemur loðinbarði í fráhnepptum jakkafötum til að redda þessu. Nema að hann gerir það ekki. Og þar kom hái áhrifatónninn… Ái. Nei ókei, hann var bara upphitun fyrir þennan hérna. Öhh… ái.
Danmörk: Lagið hans Ronan Keating, svo mikið hef ég frétt. Og fundinn Dani sem er eins og skapaður af rifi úr honum Ronan, meiraðsegja. Nú ætla ég að sjá hversu oft áður en laginu lýkur ég get skrifað vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla vanilla nei ókei. Bara eldglæringar. En samt, vanilla, vanilla, vanilla, vanilla, vanilla, og vær so gúð.
Slóvenía: Ókei, sæmilega kúl júróruslbyrjun, en hvenær fer hún að syngja?! Og hvenær birtist hún á sviðinu? Lagið er rúmlega hálfnað, við erum enn í intróinu og söngkonan er ekki enn komin á sviðið. Er hún með bólu á nefinu eða eitthvað? Nei ég skil. Þetta var svona trikk til að við værum enn svo uppnumin yfir að sjá hana loksins að við tækjum ekki eftir að hún nær ekki háu tónunum. Voðalega furðulegt alltsaman.
Ungverjaland: „Dance with me.“ Afsakið. Ég er bara… vá. Þetta má segja að sé slæmt á alla mögulega vegu, en samt alltaf af fullkominni einlægni og virðingu fyrir viðfangsefninu. Ég. er. impóneraður.
Azerbadjan: Hér gerir minn kröfur. Loksins almennilegt júrótrass. Bara verst hvað þau eru fölsk greyin. Spurning: Er júrótrassið dautt? Erum við að horfa uppá fjörbrot evróruslsins? Neeeei varla. En þetta er ekki þess glæstasta móment.
Grikkland: Jei! Sakis Rouvas! Bara Johnny Logan evróruslsins mættur! Ég kemst reyndar aldrei yfir það hvað hann er líkur Samúel Erni Erlingssyni. Og viðlagið er með uncanny resemblance við titillagið úr Fame. En við erum samt hérna loksins með alvöru evrórusl-entrans í þessari keppni. Það var mikið.
Litháen: Land sem hefur ekki riðið feitum hesti frá keppninni undanfarið. Ooooog er ekki að fara að breyta því í ár, er ég hræddur um. Lítið meira um það að segja. Loginn í lófanum flott gimmikk í restina, en samt.
Moldavía: Ég hef bara dálítið gaman af þessu. Og við öll. Tengdamamma er ánægð með þetta.
Albanía: Eitt af mínum uppáhalds frá fornu fari. Og jibbí. Það er græn diskógeimvera á sviðinu, bendir frúin á. Og þá loksins sá ég hana – ég gleymdi mér yfir snípsíða pilsinu. Breik og látbragðsdans og allt. Og svo er einhver tónlist þarna líka víst. Það er bara eitthvað verulega rangt við þetta alltsaman.
Það er bara eitthvað lítillega bilað við þetta kvöld eins og leggur sig. Ég ætla að fá mér annan Rothaus.
Úkraína: Ó-kei. Súludans í hamstrahjólum og. rómverskir. gladíatorar. Hérna… er það bara ég eða… er þetta ekki dálítið gay?
Eistland: Eistland lítur út fyrir að hafa lánið fyrir sér í kvöld. Það er blessunarlega lágstemmdari kynþokki yfir þessu númeri en þeim næstu á undan. Og nýtur sín því betur. Allt blessunarlega yfirvegaðra og öruggara með sjálft sig en maður hefur séð svo nokkrum lögum skiptir. Leggst vel í mig.
Holland: Hvað. er. þetta?! Góðu fréttirnar eru að ég var farinn að örvænta um hvort það ætti ekki að vera neitt fyndið grínatriði í kvöld. Þetta bætti úr því. Ef við hugsuðum okkur Helga Björns, Herbert Guðmunds og Eyva, dressuðum þá upp í glimmergalla og létum Heru Björk skratsa undir í diskólagi eftir Indian Princess Leoncie, myndum við hrífast með? Neh, sennilega ekki. En það gæti orðið næstumþvi svona fyndið.
Jæja, aftur út í bláinn spái ég að þessi tíu haldi áfram:
Króatía, Pólland, Noregur, Grikkland, Moldavía, Úkraína, Eistland, Írland, Lettland, Danmörk.
Já, ég veit að hvorki Írland né Lettland eiga að hafa nokkurn séns í reynd, en það var bara eitthvað við bæði lög sem ég var dáldið skotinn í. En Serbía, Slóvakía, Slóvenía og Azerbadjan gætu þessvegna slegið út hvert sem er eða öll af þremur síðustu. Ég nenni ekki að pæla of mikið í grannþjóða- og díaspórupólitíkinni. En ég vona hins vegar af öllu hjarta að Ungverjaland stingi sér inn. Það myndi veita ómetanlegt comic relief á laugardagskvöldinu.
Albaníuatriðið mun hinsvegar ásækja mig í martröðum komandi nátta.
Við erum svo heppin að sjá tímadrápsatriðið strax í beinni. Jamm, þetta er voða þjóðlegt alltsaman. Þjóðdansaklúbbur Volgograd leikur listir sínar. Og tekur… Grikkjann Zorba?!
En. intressant.
Ókei. Þá eru úrslitin komin:
Aserbadjan, Króatía, Úkraína, Litháen, Albanía, Moldavía, Danmörk, Eistland, Noregur og Grikkland.
Grísaði á sjö af tíu. Litháen kom mér mjög á óvart. Annað var meira svona viðbúið. Og hægt að kætast yfir að fá að sjá græn/bláklædda gimpið aftur á laugardagskvöldið. Það er hrein gleði.
Ég geri ekki ráð fyrir að blogga á rauntíma á laugardagskvöldið – sennilega gestir í bænum, krakkarnir á fótum og svona. Auk þess sem ég get alveg hugsað mér að horfa bara á keppnina.
Ég hefði getað fengið mér eitthvað verulega schwäbískt í hádegismatinn. En ákvað að láta það bíða betri tíma. Svo í dag var það bara kjötbolla með krydduðum hrísgrjónum.
„Hvað ætli þetta sé,“ velti hann Esteban vinnufélagi minn fyrir sér. Við stóðum fyrir framan sýnisskápinn með úrvali rétta dagsins í sjúkrahúsmötuneytinu og klóruðum okkur í hausnum yfir diski með einhvunnlags ókennilegri böku í fagurgulu sósuhafi. „Ég veit það ekki,“ svaraði ég. „En ég ætla mér að komast að því.“ Ég hefði getað spilað það öruggt, valið mér reykta skinku með súrkáli tildæmis, en þetta varð ég að prófa. Af því ég vissi ekki hvað það var. Og fékk mér dálitla skál af eplamauki í eftirmatinn.
Hér bara tíðkast ekki að sleppa eftirréttinum í hádeginu. Slíkt er háttur villimanna. Eftilvill meira um það síðar.
Svo settist hópurinn saman og ég sá að Esteban hafði fylgt fordæmi mínu með aðalréttinn. Sem ég síðan uppgötvaði við fyrsta bita að var afskaplega ljúffengt heitt Apfelstrudel með heitri vanillusósu. Það var samt eitthvað ekki alveg með felldu við það að fá sér heita eplaböku í aðalrétt og kalda skál af eplamauki þar á eftir.
Ég fékk mér líka glas af ropvatni. Klikkaði þvímiður alveg á að hafa glas af Apfelschorle til að skola þessu niður með.