Út að borða með Þjóðverjum o.fl. (TíT3)

Á föstudagskvöldið síðasta var mér boðið út að borða – yfirmaðurinn á rannsóknastofunni hélt uppá afmælið með því að bjóða samstarfsfólkinu á Reefs, grillhús með vesturheimskt kóralrifjaþema við hliðina á körfuboltahöllinni. Ég ákvað að láta reyna á hamborgarann.

Ég veit ekki hvort frúin hefur nokkru sinni minnst á það hjá sér: Það er nánast ómögulegt að fá almennilegan hamborgara á veitingastöðum í Þýskalandi. Það besta sem hægt er að vonast eftir er brasaður Udo Special í sveittu búllunni við hliðina á Marktkauf. En það er meira svona gamla góða Tommastemmingin.

Hamborgarinn á Reefs var sá besti sem ég hef fengið hérna úti. Ekki gallalaus: Hann var aðeins of mikið steiktur fyrir minn smekk (ég var reyndar ekki spurður hvernig ég vildi hafa hann) og þau voru nísk á laukhringina sem var lofað í matseðlinum. En brauðið var fullkomið, grænmetið ferskt og sósan góð. Sem og sveitakartöflurnar. Ég var sáttur.

Svakalega er mig samt farið að langa í almennilegan hamborgara.

Ég hef fylgst með „Strákunum Okkar“ með öðru auganu síðustu daga. Missti reyndar af tveimur af fyrstu þremur leikjunum, þannig að ég hef mestmegnis bara séð þá spila rassinn úr buxunum. Djók.

Á laugardaginn bauð þýskt samstarfs- og vinafólk mér í heimsókn að horfa með sér á Ísland-Þýskaland. Það var í þá daga þegar íslenska liðið var enn búið að vinna alltsaman og mér fannst einhvernveginn eins og vinafólkið væri bara að hugsa um að leyfa mér að fagna í góðra vina hópi. En ja, það fór á annan veg. Og til að bíta hausinn af skömminni bauð franskur strákur af deildinni sér í heimsókn til mín í gærkvöldi til að horfa á sína menn taka Ísland í kennslustund.

En heimsóknin var að öllu öðru leyti skemmtileg. Við töluðum um tónlist og aðra dægurmenningu, ég sagði honum frá Þorranum og leyfði honum að smakka bæði harðfisk og brennivín. Verst að ég fattaði ekki með nægum fyrirvara að taka hákarlinn úr frystinum.

Og laugardagskvöldið var að öðru leyti skemmtilegt líka. Við horfðum á gamlan amerískan blokkböster, með þýsku döbbi og íslenskum texta. Allir sáttir.

– – –

Komandi helgi er að taka á sig mynd. Á sunnudeginum er ég aftur boðinn til samstarfs- og vinafólksins: heimilisfaðirinn á afmæli. Sjitt, þá fatta ég að ég verð víst að mæta með eitthvað. Það er víst það sem maður gerir þegar maður er boðinn í afmæli. Kannski ég gefi honum áritaðan geisladisk með Diktu, sé til hvað ég geri…

Svo ætla ég að fara á tónleika. Ég er bara ekki alveg búinn að ákveða hvaða, það koma tvennir til greina: Á föstudagskvöldinu spila Bakkushan í Sudhaus og á laugardagskvöldinu spila Joy Kills Sorrow í Deutsch-Amerikanisches Institut.

Bakkushan eru hressir rokklingar utan frá Mannheim sem slógu hálfa leiðina í gegn þegar þeir komust í úrslit Bundesvision-keppninnar hans Stefáns Raab í haust sem leið. Þeir eru núna að túra með nýja diskinn sinn, svona líka kúl og kalkúleraðir.

Joy Kills Sorrow eru hinsvegar amerískir krakkar sem spila blágresis-krútt-bræðing. Ég veit nánast ekkert um þau annað. En tónleikaupptökur á þjónvarpinu lofa mjög góðu. Ég er sem stendur sjónarmun svagari fyrir þeim heldur en Mannheimarokkurunum, en er enn að gera upp hug minn. Hvað finnst öðrum?

Tepokar í Tübingen (2)

Hvunndagurinn tekur á sig mynd í einverunni.

Það kom með mér hingað yfir fullur ruslapoki af fötum sem krakkarnir voru vaxnir uppúr. Á laugardeginum lagði ég uppí góðan göngutúr yfir í Waldhäuser Ost hverfið – hverfi með háreistum blokkum sem rísa yfir Waldhausen-býlið hérna austan við Heuberger-Tor-Weg. Ég vissi að það væri fatagámur þarna einhversstaðar. Taldi mig hafa nógu góða hugmynd nákvæmlega hvar til að geta rambað á hann.

Það var ekki alveg.

En ég fann hann fyrir rest eftir að hafa gengið góðan dagpart um hálft hverfið með fullan ruslapoka af fötum í fanginu. Fékk góða hjálp hjá afgreiðslustelpunum á OMV-bensínstöðinni við Waldhausen. Hann var þarna einhversstaðar.

Á leiðinni heim horfði ég á naktar greinarnar á eplatrjánum við Waldhausen og fór að hugsa um Mondrian. Fannst í smástund rofa eitthvað til. En skil samt enn ekkert hvað hann var að fara með öllum þessum kompósisjónum í rauðu, gulu og bláu.

Um kvöldið fór ég á körfuboltaleik. Sá Tígrana hans Walters tapa fyrir Trier. Strákarnir okkar byrjuðu vel í fyrsta fjórðungi en svo var þetta bara eintómt klúður hjá þeim í hinum þremur.

Ég keypti mér samt trefil, að sjálfsögðu.

Á sunnudeginum þann sextánda bar ekkert sérstakt til tíðinda. Fyrir utan að það laust niður í mig í morgunsturtunni að ég átti enn eftir að segja upp síma- og internetsamningunum mínum við Deutsche Telecom. Tveggja ára samningurinn sem ég skrifaði uppá við komuna rennur út þann fimmtánda apríl. Og klausa í samningnum um að maður verði að segja upp skriflega með þriggja mánaða fyrirvara, altsvo í mínu tilviki í síðasta lagi laugardaginn fimmtánda janúar. Annars endurnýjaðist samningurinn sjálfkrafa til tveggja ára í viðbót.

Fokk, sagði ég þá.

Þetta slapp samt fyrir horn, ég mætti eftir svefnlitla nótt við opnun á mánudagsmorgninum með uppsögnina tilbúna og undirskrifaða, búinn að æfa mig í helstu svívirðingum og fyrirfestufrösum. Hvernig á að segja „Bitte“ einsog viðmælandi manns eigi að skammast sín fyrir tilveru sína. En svo kom ekkert til þess, DT-strákurinn ósköp geðþekkur og allur af vilja gerður að slútta þessu. Málið er dautt, við reddum þessu bara.

Þeir eiga þetta nefnilega til líka, hérna úti. Ef pappírarnir eru svona nokkurn veginn í lagi.

Í gærkvöldi fór ég svo á tónleika á Schocken-klúbbnum í Stuttgart. Dró þangað með mér Frakka og Fríslenska valkyrju. Dikta lék fyrir, kannski ekki dansi, en svona nettu fótatappi. Góð stemming. Staðurinn hálffullur af Íslendingum – ranghugmyndir mínar um að ég væri nánast eini Íslendingurinn í Schwaben snarlega leiðréttar. Ég hafði samt ekki minnstu löngun til að tala við neinn þeirra.

Nema reyndar strákana sjálfa í Diktu, þegar ég keypti af þeim diskana þeirra báða. Og fékk plakat í kaupbæti. Allt áritað. Ég horfi á áritað plakatið uppi á vegg um leið og ég skrifa þetta:

Til Þín! Frá Okkur! Áfram Ísland!

Tepokar í Tübingen

Þá er maður búinn að vera einsetumaður á ellefta dag hérna úti.

Frúin var kölluð aftur til að byrja vinnu heima í Reykjavík uppúr áramótum og tók börnin með sér, eins og hún hefur áður lýst. Flugið fyrir þau heim var þann þriðja janúar, en við fórum öll saman með lest daginn áður til Frankfurt og gistum þar síðustu nóttina saman, til að sleppa við ferðastress. Það reyndist eins gott, þar sem Deutsche Bahn átti óvenju slæma daga uppúr áramótunum og allt fór úrskeiðis sem farið gat. En frúin lýsir þeim hrakningum eflaust á sinni síðu, þar sem mér skilst að hún muni pósta lokakaflann um leið og hleðslutækið fyrir myndavélina er komið uppúr kassa.

Svo var skilist við járnleitarhliðin morguninn eftir. Ég sá þau síðast taka töskurnar sínar eftir gegnumlýsingu og hverfa inní fríhafnarsvæðið.

Heimferðin gekk vel framanaf, það var fjörutíu mínútna seinkun á lestinni sem ég tók til Stuttgart, sem var ágætt, þar sem hún hefði átt að vera farin korteri áður en ég keypti miðann. Svo var einhver seinkun á svæðislestinni til Tübingen á brautarstöðinni í Stuttgart. Og svo varð að skipta tvisvar um lest í viðbót þennan stutta spöl sem var eftir, vegna rafmagnsleysis skilst mér. Svo ég hafði hálftíma til að svipast um í Plochingen og Reutlingen á leiðinni, hvorum bæ fyrir sig. Í Reutlingen hékk ég reyndar bara á lestarstöðinni. En í Plochingen gekk ég um miðbæinn og komst að því að það eina sem þyrfti að skoða þar væri það eina sem ég komst ekki til að skoða áður en ég sneri um borð í lestina: Hundertwasserhverfið.

Meðan ég beið eftir fimmunni heim hjá aðalbrautarstöðinni í Tübingen hringdi síminn. Það var frúin að segja mér að þau væru lent og lögð af stað til Reykjavíkur. Ferðin til Íslands tók þau skemmri tíma en það tók mig að fara frá Frankfurt til Tübingen. Síðast í gær eða í dag sá ég einhverjar fréttir í Schwäbisches Tagblatt um þetta „Neujahrschaos“ hjá DB. Þetta mál þykir allt hið ódæmigerðasta.

Svo var unnið í tvo daga, en sjötti janúar er almennur frídagur – Dreikönigstag. Þá byrjaði ég fyrir alvöru að pakka því litla sem skilið var eftir hjá mér, þarsem búið var að finna handa mér minni íbúð í staðinn fyrir fjögurra herbergja gímaldið sem ég var skilinn eftir í. Í það fór afmælisdagurinn. Í vinnunni var meirihluti fólks enn í jólafríi, svo lítið þýddi að halda uppá afmælið þar. En í staðinn sló ég upp ágætu afmæli á fasbókarveggnum mínum á föstudagskvöldinu. Þangað mættju vinir mínir frá Íslandi, Danmörku, Bretlandi og Ástralíu (og e.t.v. víðar að) og héldu uppi fjöri langt framyfir miðnætti. Hafði ég af því hina mestu skemmtan.

Á laugardeginum flutti ég hingað sem ég er nú. Þetta er einsherbergis íbúð með litlu eldhúsi og baði, tveimur húsnúmerum neðar í sömu götu. Þetta kláraðist að mestu um helgina, þótt góður partur af laugardeginum hafi farið í búðaþeyting um bæinn þveran og endilangan og stór partur af sunnudeginum í það að steikja kleinur og soðið brauð (ég átti alltof mikið af jógúrt, þurfti að mæta með eitthvað bakkelsi á fimmtudagsfund núna í vikunni útaf afmælinu og það er enginn ofn í nýju íbúðinni). Hvorttveggja lukkaðist ljómandi vel. Ég keypti mér vænan skammt af vandaðri skinku og hef varla étið neitt annað hérna heimavið síðan þá nema soðið brauð með skinku og osti.

Við hjónin eigum marga ágæta vini hérna úti. Þar á meðal eru vinahjón okkar frá Búlgaríu. Þær vinkonurnar töluðust við á þrettándanum og afmælið mitt barst í tal. Sú búlgarska var alveg miður sín yfir því að enginn skyldi sinna greyið bóndanum á sjálfan afmælisdaginn, og ákvað í sárabætur að slá upp afmælisveislu á mánudagskvöldinu. Og það meiraðsegja tvöfaldri – maðurinn hennar átti afmæli þann dag. Það var dásamlegt kvöld, við átum búlgarskt síldar- og rauðrófusalat og sjófrystan fisk úr ofni (hún ætlaði fyrst að hafa kjúkling en guggnaði síðan á því – díoxínhræðslan sko) og supum á sætkartöflubrandíi úr Ammerdalnum. Góður endir á góðum degi – hann hafði líka byrjað ljómandi vel þarsem ein af stelpunum á kontórnum mætti með muffins í tilefni af afmælinu.

Svo var þrifið á kvöldin frameftir vikunni. Hlaupið frá úr vinnu annað veifið til að sinna pappírsvinnu í tengslum við flutninga 0g breytingar á fjölskylduhögum. Ég afhenti lyklana loksins í morgun. Og eldaði í fyrsta sinn heitan mat núna undir kvöldið. Frúin gaf mér (auk geisladisks og bókar) mikið þarfaþing í afmælisgjöf – Spätzlehristara. Ég eldaði reyndar ekki með honum núna, heldur bara takkó sem ég átti uppí skáp. En Spätzlehristarinn verður prófaður áður en langt um líður:

Jæja, nú er Nachtcafé byrjað á SWR. Yfirmaðurinn á deildinni minni tekur þátt í umræðum í sjónvarpssal um kosti og hættur nútíma læknisfræði. Ég ætla að horfa.

Væmna þakkarræðan

Já, þannig fór það. Fyrir mitt leyti komu úrslitin mér ekki á óvart. Ef ég á að segja alveg eins og er, þá var ég fyrst ekkert svo viss um að ég ætti eftir að fá mikið fleiri en svona tuttugu manns inn á hugmyndina. Og reisti mér engar skýjaborgir um útkomuna eftir að fjöldi framboða var kominn í ljós. Svo ég er sáttur, fyrir mitt leyti.

Um fulltrúana 25 vil ég segja að mér líst alls ekki sem verst á þá. Ég á ábyggilega eftir að skrifa eitthvað meira um þá seinna (áður en ég sný mér aftur að öðru), en mín fyrstu viðbrögð eru að þetta hefði getað verið miklu verra.

– – –

Heildarútgjöld framboðsins námu tíu þúsund krónum og fóru í tvo jafnstóra útgjaldaliði: Annarsvegar rafrænt eintak af alveghreint framúrhófi framboðslegri prófílmynd sem tekin var af mér í fjölskyldumyndatöku árið 2008, og hinsvegar stuðning minn við framtakið kjostu.org.

– – –

Ég fann fyrir ómetanlegum stuðningi frá fjölda fólks.

Þau eru nokkur sem eiga sérstaklega skilið að þeirra er getið. Það vildi svo skemmtilega til að daginn eftir að ég var búinn að ákveða endanlega að bjóða mig fram frétti ég að Óli Gneisti Sóleyjarson, frændi konunnar minnar og sambýlismaður hér á Truflun, hefði ákveðið að gera það líka. Einmitt þá var hann á leið í heimsókn til okkar með konu og barni, og milli þess sem við áttum öll ágæta daga hér í suður-þýska haustinu ræddum við um stjórnarskrána, stjórnlagaþingið og kosningarnar sem þá voru við sjóndeildarhring. Hann var óþreytandi við að aðstoða mig í ýmsum uppsetningarvandræðum sem ég rakst á þegar ég fór að krukka í þessa bloggsíðu og setja upp framboðssíðuna á fasbók, og sýndi mér mikinn stuðning í orði sem á borði, þótt við værum kannski ekki alltaf með nákvæmlega sömu áherslur í öllum málum.

Ég vil líka sérstaklega þakka Rósu Eggertsdóttur á Akureyri, bæði fyrir undirskriftasmölun (hún fór langleiðina með að fylla lágmarkskvótann á einni kvöldstund með bíltúr fram um allan fjörð) og fyrir ágætar ráðleggingar í tölvupóstsamskiptum við mig í gegnum baráttuna.

Fjölskylda mín, vinir og tengdafjölskylda veittu mér góða aðstoð með ráðum sínum og dáð, sem og starfsfólk Samskiptamiðstöðvar heyrnarskertra og heyrnarlausra. Einnig vinir mínir og ókunnugir í kjötheimum og á fasbók sem þótti þetta framboð þess vert að vekja athygli vina sinna og kunningja á því, og þeir sem þótti það þess virði að hafa samband við mig til að lýsa yfir stuðningi sínum og/eða fræðast um einstök áherslumál. Þið vitið hver þið eruð.

Frændi minn Hjálmar í Kárdalstungu á svo sérstakar þakkir skildar fyrir ósérhlífna kosningabaráttu fyrir mig í Húnavatnssýslunum.

Síðast en ekki síst vil ég samt þakka konunni minni fyrir að ýta mér út í að gera þetta þá bara, fyrst ég hefði svona miklar áhyggjur af þessu, og standa við bakið á mér og ýta á herðarblaðið þegar á þurfti að halda. Hún var óbilgjarni kosningastjórinn minn.

Takk Árný mín. Ég elska þig.

– – –

Tuttugu og fimm fulltrúar hafa verið valdir. Ég vona heitt og innilega að þeim gangi hið allra besta. Þetta verður bévítans streð fyrir þau, eflaust vanþakklátt starf og útjaskandi píslavinna frá upphafi til enda. En ef þau standa sig vel (og það er engin ástæða til að ætla neitt annað) og skila af sér nýrri og betri stjórnarskrá í breiðri og góðri sátt, þá gætu þetta orðið 25 einstaklingar sem við munum ætíð verða stolt af fyrir vinnu þeirra, hvernig sem síðan fer.

Kosningaþátttakan var vissulega dálítil vonbrigði. Margir hafa víða lýst hver sínu álitinu á henni og ástæðum hennar, og sýnist sitt hverjum. Efst í huga mér er samt gleði yfir því að ég skuli hafa gert þetta. Og líka allir hinir 522 sem gerðu það sama. Hvernig sem allt veltist, þá er það það sem situr eftir.

Kosningadagur

Góðan og gleðilegan kosningadag. Vonandi hafa allir gert upp hug sinn.

Í síðasta sinn: Það skiptir svo miklu máli að nýta rétt sinn til að kjósa. Sérstaklega í þessum kosningum. Það eina sem er mögulega síðra en að kjósa ekki er að kjósa einhvern hugsunarlaust bara af því að einhver sagði manni að gera það. Meir að segja handahófskenndur listi af 25 frambjóðendum væri skárri. En ekki mikið samt.

Vona svo að mér fyrirgefist þótt ég setji kosningavísuna hérna inn eina ferðina enn. Ég geri það lítið af þessu dags daglega að ég verð að hreykja mér af því þá sjaldan það gerist:

Að kjósa til stjórnlagaþings er þónokkuð létt.
Þú þarft bara lista af snillingum, þjörkum og vinum.
Og síðan er gott að sjá til að þetta sé rétt:
Þú setur þann besta efst, og raðar svo hinum.

Um bankastarfsemi í útlöndum og kosningapartý

„Þú færð allan minn stuðning Hjörvar,“ sagði einn kunningi minn við mig, „ef þú stendur fyrir því að binda í stjórnarskrá ákvæði um að íslenskir ríkisborgarar megi hvorki eiga né reka viðskiptabanka í útlöndum.“

Þetta var fyrir um það bil tveimur mánuðum, þegar ég var enn að leita hófanna með það hvort ég ætti að bjóða mig fram. Ég skellti svolítið uppúr og sagði „Já, þú segir það.“

„Mér er alvara með þetta Hjörvar,“ hélt hann áfram. „Þú ert nú í Þýskalandi sjálfur. Sjáðu bara hvernig Þjóðverjarnir höfðu þetta með sína stjórnarskrá árið 1949.“

Ég varð að játa að þetta var ekki alveg út í bláinn hjá honum. Þjóðverjar höfðu valdið bæði sjálfum sér, öðrum þjóðum og ríkjum ómældum skaða nokkrum árum áður. Í nýrri stjórnarskrá sambandsríkisins voru mörg góð og nauðsynleg skref tekin til að fyrirbyggja að það gerðist aftur: Í valdahlutföllum sambandsríkisins við einstök ríki þess. Í dreifingu framkvæmdavaldsins milli handhafa þess. Í ákvæðum um herinn, svo fátt eitt sé nefnt. Og eftir hörmungar síðari heimstyrjaldar báru Þjóðverjar gæfu til að setja sér mannréttindakafla sem átti sér engan sinn líka á þeim tíma og setti ný viðmið fyrir framtíðina. Þeir sem rituðu nýja stjórnarskrá öxluðu ábyrgð fyrir hönd ríkis síns og þjóðar, ekki aðeins gagnvart sínum eigin samborgurum, heldur líka gagnvart því fólki í öðrum löndum sem batt vonir við vinnu þeirra.

Vandamál okkar Íslendinga í dag eru náttúrulega öll svo miklu smærri í sniðum og léttvægari. En við megum samt alveg hugsa út í að fjöldi fólks mun horfa til þess hvernig tekst til með vinnu stjórnlagaþings. Ekki bara hér heima, heldur líka almenningur í nágrannalöndum okkar.

Ég hef engar konkret hugmyndir um það hvernig þetta ætti að móta einstök ákvæði nýrrar stjórnarskrár. Mér finnst bara að þeir sem setjast á stjórnlagaþing þurfi að hafa þetta í huga.

Hann kunningi minn náði allavega ekki aaalveg að selja mér þetta með ákvæðið um viðskiptabankana.

– – –

Hann sendi mér svo tölvupóst í gær, sagðist vera að bjóða í partý fyrir kvöldið í kvöld og vantaði einhverja framboðssnepla til að ota framan í gestina. „Það verður að vera mjög einfalt,“ sagði hann. „Ég er með sterkan fordrykk.“

Svo ég settist niður og útbjó þetta plagg með helstu áherslupunktum hér fyrir neðan og sendi honum til að prenta út.

Ég útbjó svo reyndar annað eintak bara handa honum, með tveimur punktum í viðbót:

  • Öxlum ábyrgð!
  • Ákvæði um að Íslendingum sé bannað að eiga eða reka viðskiptabanka í útlöndum!

En það var nú bara okkar á milli.

manifesto

Grein á Vísi og nokkur svör

Dagurinn í gær var mikill greinabirtingadagur. Sú þriðja birtist á visir.is um hádegisbilið og fór nánar út í efnið sem ég impraði á í hinum tveimur. Um það sem mestu máli skiptir.

– – –

Síðustu tvær vikur hef ég fengið nokkur bréf frá félagasamtökum og einstaklingum sem hafa viljað forvitnast um afstöðu frambjóðenda til stjórnlagaþings um hin ýmsu mál. Þarna bregður fyrir ýmsum málaflokkum sem ég hef kannski ekki lagt sömu áherslu á og með aðra, en kannski geta svör mín við þeim hjálpað einhverjum á lokametrunum við að ákveða hvort ætti eða ætti ekki að kjósa mig.

– – –

Félag umhverfisfræðinga á Íslandi (FUMÍ) spurði mig að eftirfarandi:

Munt þú styðja tillögur þess efnis að umhverfisverndarákvæði verði bætt við íslensku stjórnarskrána, náir þú kjöri til stjórnlagaþings? – Með umhverfisverndarákvæði er til dæmis átt við ákvæði um sjálfbæra þróun, um rétt almennings til heilnæms umhverfis, um umgengni við náttúru og umhverfi með tilliti til komandi kynslóða og um vernd villtra dýrastofna.

Og ég svaraði:

  • Já, það mun ég gera. Það er alls ekki sama hvernig slík ákvæði eru orðuð og þarf að vanda til þeirra svo hafi raunveruleg áhrif á löggjöf og aðgerðir valdhafa. En mér þætti sjálfsagt að styðja tillögur um efni í líkingu við þau dæmi sem tiltekin voru með spurningunni, ef vel er að þeim staðið.

– – –

Ferðaklúbburinn 4×4 hafði svo sérstakan áhuga á að fræðast um viðhorf frambjóðenda til þess að færa í stjórnarskrá ákvæði um almannarétt, þ.e. rétt  almennings til ferðalaga og nýtingar, eins og honum er lýst í þriðju grein laga um náttúruvernd (1999 nr. 44 22. Mars ). Svör frambjóðenda voru svo kynnt á spjallvef klúbbsins. Spurningarnar voru tvær og þær koma hér á eftir, með svörum mínum:

1. Finnst þér rétt að binda í stjórnarskrá ákvæði um almannarétt almennings til ferðalaga og nýtingar?

  • Nei. Þriðji kafli laga um náttúruvernd finnst mér góður til síns brúks. Ákvæði um þetta finnst mér að eigi heima þar og innan almennrar löggjafar, frekar en í stjórnarskránni. Mér finnst eðlilegt og sjálfsagt að almenningur hafi ferðarétt um íslenska náttúru (og nýtingarrétt að því marki sem tilgreint er í þriðja kafla náttúruverndarlaga), svo lengi sem það stangast ekki á við rétt almennings til heilnæms umhverfis, og sjálfbæra umgengni við náttúru og umhverfi með tilliti til komandi kynslóða. En rétturinn finnst mér alltaf skýlaust eiga að hvíla hjá því síðarnefnda.

2. Munt þú beita þér fyrir því að ákvæði um almannarétt almennings til ferðalaga og nýtingar verði sett í stjórnarskrá?

  • Nei. Þetta er ekki eitt af því sem mér þykir mestu máli skipta við ritun nýrrar stjórnarskrár og mér finnst því ekki líklegt að ég myndi hafa frumkvæði að því

Í seinni hluta fyrra svarsins tók ég mér það bessaleyfi að fá lánað orðalag úr spurningum FUMÍ. Enda erindin tengd, þar sem þau hafa bæði að gera með náttúru.

– – –

Þriðja erindið hafði líka að gera með náttúru, þótt af öðrum toga væri. Samtökin 78 lögðu sínar spurningar fyrir frambjóðendur, en ég hef ekki orðið var við opinbera umræðu á viðbrögðum við þeim, ólíkt því sem hefur verið um aðrar fyrirspurnir hagsmunaaðila og félagasamtaka. Svo hér er sennilega eini staðurinn til að fræðast um viðhorf mín til þess sem þar var spurt um:

1) Hver eru viðhorf þín til hinsegin fólks (Hommar, Lesbíur, tvíkynhneigðir og transgender)?

  • Í persónulegum samskiptum eru þau svipuð og viðhorf mín til tónlistarmanna, Skaftfellinga og aldraðra kvenna sem prjóna: Þetta er eitt af því sem skilgreinir það hver viðkomandi er en skiptir að öðru leyti litlu máli. Sem þjóðfélagshópi ber ég ómælda virðingu fyrir sögu þeirra og réttindabaráttu.

2) Hvað munt þú gera ef sú hugmynd kemur upp að bæta orðinu kynhneigð inn eða áfram útiloka þennan hóp samfélagsins úr stjórnarskránni?

  • Tillögu um að bæta skilyrði um kynhneigð inn í 65. grein stjórnarskrárinnar (um mannréttindi og að allir skulu jafnir fyrir lögum) myndi ég styðja heilshugar. Ef engin slík tillaga kæmi frá forsætisnefnd stjórnlagaþings myndi ég vilja taka þátt í að leggja hana fram sjálfur.

3) Ert þú jákvæð/ur í garð réttinda hinsegin fólks?

  • Já.

Og lítið meira um það að segja.

– – –

Að síðustu má bæta við að um síðustu helgi gaf ég fulltrúum Biskupsstofu formleg svör við spurningum þeirra til frambjóðenda til stjórnlagaþings. Það virðist hafa dottið uppfyrir að koma þeim fyrir á kirkjuvefnum. En til að allt mitt sem lyti að þeim málaflokki væri samankomið á einum stað setti ég endanleg svör mín inn sem athugasemd við fyrri grein þar um.

– – –

Þá eru eftir svör mín til nokkurra almennra kjósenda sem vildu forvitnast um hug frambjóðenda til sinna eigin hugðarefna. Ég get vonandi tekið þau saman til að birta hér síðar í dag.

Það sem mestu máli skiptir

Það er rétt að ég hnykki á því sem mér finnst skipta allramestu máli við þetta stjórnlagaþing, númer eitt, tvö og þrjú.

  1. Farðu og kjóstu á laugardaginn. Hverja þá sem þér líst best á. Það er mikilvægast af öllu. Stjórnlagaþing mun þurfa sterkt umboð frá þjóðinni.
  2. Það verður að draga eitthvað af tönnum úr framkvæmdavaldinu. Styrkja sjálfstæði löggjafar- og dómsvalds. Efla áhrif forseta til að geta haft taumhald á forsætisráðherra og ríkisstjórn.  Og yfirhöfuð skoða hverja þá leið sem gæti orðið til gagns við að draga úr því sem hefur verið kallað ráðherra- og flokksræðið.
  3. Aftur: Farðu og kjóstu!

Nokkrar þeirra leiða sem eru færar til að draga úr ráðherraræðinu nefndi ég í fyrri pistli í upphafi baráttunnar. Ýmsar aðrar leiðir hafa verið nefndar af mörgum öðrum frambjóðendum. Ég vil sérstaklega nefna hugmyndir sem ég hef séð Gísla Tryggvason ræða, meðal annarra: Að draga úr frumkvæðisvaldi ráðherra til að setja lög og reglugerðir.

– – –

Ég hef ekki gert nein ósköp af því að senda miðlum greinar til birtingar. Þó má nú lesa eftir mig tvær greinar, hvora í sínum heimahagamiðlinum:

Á vef Vikudags á Akureyri lofsyng ég það að vera ekki of viss um það hvernig nákvæmlega eigi að leysa hlutina áður en hafist er handa.

Og á vef Feykis á Sauðárkróki rifja ég upp  bíltúr úr æsku minni í Vatnsdalinn.

Útvarpsviðtal og nauðsyn þess að kjósa

Síðustu vikuna hefur ríkisútvarpið gert stórátak í umfjöllun sinni um stjórnlagaþingið. Það er kominn þessi líka fíni stjórnlagaþingsvefur hjá þeim þar sem meðal annars er hægt að hlusta á viðtöl sem óöfundsverðir starfsmenn RÚV tóku við alla frambjóðendur um liðna helgi.

Á sunnudagskvöldið var hringdi Leifur Hauksson í frambjóðanda #3502 og leyfði honum að ausa úr sálarkeröldunum í fimm mínútur. Hér má heyra afraksturinn:

Viðtalið við RÚV

– – –

Nú síðdegis fer fjölskyldan í bíltúr að heimsækja ræðismanninn í Stuttgart. Það er kjördagur í héraði í dag.

Ég gekk frá endanlegu uppkasti að kjörlistanum mínum í gærkvöldi. Þetta er mun einfaldara mál en búið er að reyna að telja fólki trú um. Með orðum Óla Gneista Sóleyjarsonar:

Ég held að það sé ein leið sem virkar betur en önnur þegar farið er að velja og raða niður frambjóðendum á kjörseðilinn. Sú aðferð er að setja þann sem þér þykir bestur efst, næstbesta í annað sætið og svo framvegis. Ekki hafa sérstakar áhyggjur af öðru.

– – –

Í tengslum við það vil ég vekja athygli á vefnum kjostu.org. Þetta er hugmynd sem kom fram meðal frambjóðenda sjálfra til að hvetja fólk til að kjósa á laugardaginn kemur. Helmingurinn af öllum mínum beinu útgjöldum vegna framboðsins hingað til (eða sem nemur einni Ragnheiði af tíu Brynjólfum) er til að taka þátt í kostnaðinum við þetta framtak.

Því það er gríðarlega mikilvægt að fólk fari og kjósi. Eftir því sem færri kjósa, þess veikara umboð hefur stjórnlagaþingið til uppkastsins að nýju stjórnarskránni þegar það kemur til afgreiðslu alþingis. Ef umboðið er sterkt verður erfitt fyrir alþingi að standa í vegi fyrir afgreiðslunni eða gera sínar eigin breytingar. Ef það er veikt, ja þá. Ja þá.

Það vill segja: Mér er sama hvort ég sjálfur er á listanum þínum eða ekki. Það er ekki það sem mestu máli skiptir. Mikilvægast af öllu er að þú farir og skilir inn atkvæðinu þínu.

Ekki vera fúli kallinn:

Fúli kallinn
Fúli kallinn