Það er búið að vera dásamlegt í vinnunni í dag! Það að vera búinn að taka ákvörðun og vita að maður ætli að hætta lyftir á manni brúninni og alls kyns atriði sem hefðu pirrað mig í gær koma mér ekki við í dag. Kannski að það sé lausnin á þessu, lifa hvern dag eins og hann væri manns síðasti.
Ég hef verið spurður af hverju ég sé með akkúrat þessa tengla hér til hliðar? Tengdamamma var dálítið fúl að ég væri ekki með tengil í hana. Því er til að svara að þessir tenglar eru fyrir mig sjálfan ekki þá sem mögulega lesa þetta. Þetta eru tenglar í það sem ég les og skoða. Samt fattaði ég svolítið hvað Tengdó var að tala um þegar ég var að lesa minn daglega fréttaskamt á Fréttum áðan. Þar sá ég nefnilega allt í einu út undan mér tengil á þessa síðu! Það fannst mér flott en áttaði mig svo eiginlega samstundis á því að tilfinningin sem ég fann fyrir var hégómi og eftirsókn eftir vindi. Jæja, mér fannst það gaman samt. Ég er bara ekki fullkomnari persóna en það. Annars var ég að hugsa um að fara að dæmi Pönkarahjúkkunar og hafa bara ekkert hér nema þennan texta. Enga tengla, engar myndir, ekkert komment, bara það sem ég er að segja. Mér finnst það svolítið smart hjá Pönkarahjúkkunni. En svo áttaði ég mig. Ég er ekki hún. Ég er að skrifa þetta fyrir mig sjálfan og ég vil hafa tengla hér til hliðar svo ég geti t.d. smellt á Vísi og skoðað póstinn minn o.s.frv.
Ég geri mér grein fyrir því að þetta eru ekki merkilegar pælingar og lesendur mínir eru kannski farnir að búast við meiru. (Hvaða lesendur? Er það ekki líka hégómi og eftirsókn eftir vindi?) Datt í hug að spjalla aðeins um vændisfrumvarpið en svo einfaldlega nennti ég því ekki. Þetta er voðalega leiðinleg og rotin umræða ekki satt? Snýst að mestu um hvort framsóknarkonur séu að dissa sjálfstæðiskonur. Ég nenni ekki að taka þátt í svoleiðis umræðu.
Það sem mér finnst merkilegast við þá pólitísku vefi sem ég skoða (Múrinn og Kreml) er einkum hve gagnrýnir og gagnrýnislausir þeir eru. Þ.e. þeir sjá aldrei neitt athugavert við þá flokka sem þeir styðja og aldrei neitt jákvætt við þá flokka sem þeir styðja ekki. (Ath. hér beiti ég alhæfingastíl til að auka áhrif skrifa minna en um leið dregur úr sannleiksgildi þeirra.) Ég er nú t.d. sjálfur félagi í Samfylkingunni en samt finnst mér oft talsvert vit í því sem Vinstri-Grænir segja. Þar að auki finnst mér þessi hugmynd um einkavæðingu í heilbrigðisgeiranum hið mesta klúður og fullyrði að meirihluti samfylkingarfólks vill ekki sjá það. Samt mótmælir enginn! Ekki þingmenn, borgarfulltrúar eða aðrir. Það er búið að troða þriðju leiðinni svo rækilega í hausinn á þeim að þeir þora ekki að æmta lengur. „Viltu ekki að við verðum stór flokkur?“ er spurt. „Þá máttu ekki hafa þínar eigin skoðanir! Þú verður að gera eins og stendur í handbókinni: Þriðja leiðin – Hvernig á að búa til stóran jafnaðarmannaflokk“ Einhvern vegin held ég að það sé líklegra til árangurs að fólk sjái að það sé rúm fyrir fleiri en eina skoðun í flokknum og að menn ræði málin. Ég býst við að þessu sé svipað farið í öðrum flokkum. Bara þekki það ekki eins vel. A.m.k. virðist mér sem öllum framsóknarmönnum svíði það að Kristinn H. Gunnarsson skuli hafa sínar eigin skoðanir. Meira að segja hef ég talað við samfylkingarfólk sem finnst það líka undarlegt.
Jæja, nóg í bili. Maður á að nota hádegishléið sitt til að borða hádegismat ekki til að blogga. Hver veit, kannski grennist ég af þessu. Ég held ég sé sá maður sem ég þekki sem hef grennst mest. Held ég geti fullyrt að ég hafi grennst um margfalda þyngd mína á ævi minni. Bara undarlegt að það skuli enn vera eitthvað eftir af mér.