Ég get nú bara ekki orða bundist af kæti. Ég var að lesa svo skemmtilegar greinar á Kreml og Múrnum.
Á Kreml er ráðist á Davíð Oddson af offorsi. Af hverju? Jú, af því að hann réðst á stjórnendur Kaupþings-Búnaðarbanka. Á Kreml s.s. lesa þeir yfir hausamótunum á Davíð með tilvitnunum í Passíusálmana um að menn eigi ekki að rjúka til og dæma aðra. Meira að segja ásaka þeir hann um hræsni! Það hljóta fleiri en ég að sjá kaldhæðnina í þessu og vera skemmt.
Á Múrnum er hins vegar verið að fjalla um Flauelsbyltinguna í Georgíu og henni fundið flest til foráttu. Edvard Shevardnadze hafi jú verið réttkjörinn forseti landsins. Að vísu viðurkennir greinarhöfundur að það hafi verið vegna kosningasvindls en segir engu að síður að það sé alls ekki víst að Saakashvili, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, hefði unnið annars. Það s.s. skiptir öllu máli fyrir þá Múrverja hvort það eru vinstri- eða hægrimenn sem svindla í kosningum. Annars veit ég ekki hvort Shevardnadze geti talist vinstrimaður en hann er a.m.k. fyrrverandi kommúnisti og þá finnst Múrverjum óverjandi að gagnrýna hann.