Það er gaman að flakka um á vefnum og lesa það sem hinn eða þessi hefur verið að skrifa. Sumir skrifa ákaflega skemmtilega á meðan aðrir ættu varla að hafa leyfi til að setja fingur á lyklaborð, allt vaðandi í stafsetningar- og málfræðivillum. Þess vegna finnst mér mjög gaman að lesa Múrinn þó að ég sé ekki alltaf sammála því sem þar stendur. Hann er nefnilega bæði vel skrifaður og skemmtilegur. Hins vegar finnst mér ekkert gaman að kíkja á vef-Þjóviljann því hann er bæði illa skrifaður og ég er ósammála eiginlega öllu sem stendur þar.
Þar sem ég var að flakka um vefinn og lesa hitt og þetta rifjaðist upp fyrir mér að fyrir nokkru síðan fann ég í gömlu drasli ræður sem ég hafði skrifað meðan ég var í MORFíS. Það sem kom mér mest á óvart var hversu vel þær voru skrifaðar. Ég meina, ég var líklega 16 – 17 ára þegar ég skrifaði þetta og samt efast ég um að ég gæti skrifað eitthvað betur í dag. Er það ekki sorglegt þegar ég er orðinn tvöfallt eldri en finnst eins og ég hafi ekki tekið neinum framförum í ritun? Þarna voru líka myndir af mér frá sama tíma fúlskeggjuðum sautján ára í einhverri Versló-keppninni. Komst að því að ég hef ekkert breyst útlitslega heldur. Myndin hefði eins getað verið tekin í gær eða í fyrra því ég er ekki með skegg núna.
Mórallinn með þessu öllu er að stundum eru breytingar æskilegar en stundum ekki. Svo er það spurning hvort ég leit út fyrir að vera 32 ára þegar ég var 17 eða hvort ég lít út fyrir að vera 17 núna? Ég hallast að því fyrrnefnda því nú, eins og þá, er ekkert mál fyrir mig að fá afgreiðslu í Ríkinu. BBíB.