Ég las það á textavarpinu í gær að Rússar væru að ásaka Bandaríkjamenn um að hafa haft hönd í bagga með Flauelsbyltingunni í Georgíu (ég veit að sumum finnst ákaflega pirrandi að kalla þetta Flauelsbyltinguna). Það kom mér svo sem ekkert á óvart enda skrifaði ég um það í lærðri grein um stjórnmál í Georgíu 27. nóvember. Annars virðist Georgíu bera æ oftar á góma þessa dagana. Ég er t.d. að lesa bókina Darwin’s Radio eftir Greg Bear, en hún gerist að hluta til í Georgíu. Eftir að hafa lesið lýsingarnar í bókinni á landslaginu, menningunni og litlu þorpunum með hlöðnum húsum í skógivöxnum og þröngum dölum Kákasusfjallanna, þá er mig farið að dauðlanga að fara þarna sjálfur. Kannski að ég fari bara í netleiðangur í dag og skoði þetta allt saman!
Annars vakti baksíða Fréttablaðsins í gær áhuga minn. Þar var Reynir Traustason að skrifa um Chaneldragtarklædda bókagagnrýnandann sem fór til Grænlands. íhugaverð grein og full af sterkum væmnum mómentum. Það var samt áhugavert að sjá hvernig Chanelkonan þurfti að yfirgefa asann og „menninguna“ á Íslandi til að komast í tengsl við óspillta náttúru hins „hreina“ Grænlands. Þar hitti hún svo fátækan dreng (hinn sanna fulltrúa fátækra 3. heims ríkja um allan heim) og keypti handa honum tafl. Þannig varð hin vestræna Chanelkona stoð og styrkur vanþróuðu landanna með því að eyða smá af auð sínum til að kaupa sér sálarfrið og „hönd í hönd gengu þau á meðal meistara skáklistarinnar … ólíkir heimar höfðu náð saman.“ Ég er ekki viss um að Reynir hafi gert sér grein fyrir því sjálfur þegar hann var að skrifa þetta, en annan eins hroka gagnvart Grænlendingum og fordóma hef ég sjaldan séð í Íslensku dagblaði. Ég held að Reynir ætti að kynna sér aðeins grænleska nútímamenningu og einnig þjóðsögur, þjóðtrú og og fornar hefðir Grænlendinga og þá sæi hann að fátæki drengurinn er e.t.v. ekki raunhæfasti fulltrúi þeirrar þjóðar eða Chanelkonan þeirrar Íslensku.
Skemmtilegar annars þessar myndir sem við höfum af ákveðnum þjóðum. í mínum huga er t.d. hinn týpíski Finni maður sem drekkur 2 lítra af vodka, fer með 114 erindi úr Kalevala og hleypur svo nakinn í snjónum eftir gufubað og lemur sig allan með hrísi. Hvaða mynd ætli Finnar (eða Grænlendingar) hafi af Íslendingum?