Núna er í gangi þemavinna þar sem við eigum að halda áfram að vinna framkvæmdaáætlunina um virðinguna og útbúa kennsluáætlun sem inniheldur hana. Við þetta er ég búinn að sitja sveittur 😉 síðasta klukkutímann og nota því kaffipásuna í að blogga svolítið. Kemst samt ekki hjá því að finnast tíma mínum svolítið spanderað í hégóma og eftirsókn eftir vindi í svona starfi (engar Hannesarkommur).
Til að byrja með er hún alveg bráðskondin þessi frétt af gömlu sprengihylkjunum sem Danir fundu í Suður-írak um daginn. Frá upphafi var ljóst að þetta voru gömul sprengihylki frá íran-írak stríðinu sem var búið að setja til hliðar og meira að segja nota í undirstöður vega (þetta virðist nú vera talsvert ítarleg leit hjá þeim ef þeir eru farnir að grafa vegina í sundur). Þessu hampaði Halldór ísgrímsson sem heimsviðburði! Merkilegt að Utanríkisráðherra þjóðarinnar sé svo vel að sér í heimsmálunum að vita ekki að svona tóm sprngjuhylki (eða með einhverju glundri í) finnast í írak nánast á hverjum degi og er ekki haft hátt um það þar sem þeir fengu þær flestar (eða glundrið í þeim) frá Bandaríkjunum og Bretlandi. Það voru heldur ekki þessi vopn sem menn áttu við þegar talað var um gereyðingarvopnin í írak. Það vissu allir að Saddam hafði notað efnavopn á írani og Kúrda. Það var bara öllum sama, þ.m.t. Halldóri ísgrímssyni.
Annað sem ber hátt í fréttum hér Norðanlands er að einhverjir Snæfellingar voru að kaupa úA og nú eru allir brjálaðir að ekki hafi verið samið við heimamenn. Samt er eins og mig minni að Akureyringar hafi aldrei haft áhyggjur af því þegar úA og Samherji voru að kaupa upp útgerðir út um allt land og flytja kvótann frá smáþorpunum hingað. Meðal annars var nánast allur kvóti Ólafsvíkur keyptur upp af þessum fyrirtækjum og fluttur til Akureyrar. Þegar Samherji keypti Guðbjörgina (og útgerðarfélag hennar held ég) lofuðu þeir öllu fögru um að hún yrði áfram gerð út frá ísafirði. Það var svikið stuttu síðar. Ég held að öll loforð um slíkt hafi verið svikin og gef því ekki mikið fyrir loforð Snæfellinganna um að úA verði rekið áfram í óbreyttri mynd á Akureyri. Enda, ef ég væri þeir, yrði það fyrsta sem ég gerði að flytja allt heila klappið til Ólafsvíkur eða ísafjarðar. í Ólafsvík stendur til dæmis enn gott og stórt frystihús autt og ónotað með skrifstofuaðstöðu og alles, síðan Akureyringar lögðu útgerð þar í rúst. Það að Snæfellingar stundi enn útgerð (að vísu með því að leigja og kaupa kvóta dýru verði af fyrirtækjum eins og úA og Samherja) sýnir þó að það er hægt þó það sé erfitt svo við Akureyringar þurfum ekki að örvænta þó úA hverfi úr bænum. Líklega verður hægt að fá styrk frá KB (bankanum ekki kaupfélaginu) til að kaupa upp einhverja vestfirska útgerð og leggja enn eitt plássið þar í rúst (er ekki enn einhver kvóti á ísafirði eða Bolungarvík sem má kaupa á uppsprengdu verði svo kvótakóngarnir þar geti í staðinn orðið tískukóngar í Smáralindinni og Kringlunni)?
Það er líka verið að byggja nýtt 4000 manna hverfi hér á Akureyri og ljóst að það þarf að leggja einhver smáþorp á Austfjörðum eða Vestfjörðum í eyði til að manna það. Raufarhöfn og Kópasker duga því miður ekki nema til að fylla upp í sitthvora blokkina og þó svo að við bætum Þórshöfn, Vopnafirði og Borgarfirði eystri við erum við varla komin nema í tæp tvöþúsund! (U.þ.b. 1900 manns í þessum sveitarfélögum samtals samkvæmt Sambandi íslenskra sveitarfélaga og er þá dreifbýli talið með).
Þá er líklega best að fara að pæla aftur í virðingunni og hætta þessu masi. 🙂
P.S. Það virðist samt engum detta í hug að það þurfi líka störf fyrir þessa 4000. Nei, það er nóg að byggja húsin, virðast menn halda, þá kemur fólkið. Spái því að nokkur verktakafyrirtæki hér á Akureyri eigi eftir að fara á hausinn á næstunni.