Þá er enn ein vikan að renna sitt skeið á enda. Ótrúlegt miðað við hvað vikurnar þjóta hjá að það skuli enn vera janúar og meira að segja heil vika eftir af honum! Þessa dagana er heldur ekki hægt að komast hjá því að hlusta á alls konar sjálfskipaða sérfræðinga tjá sig um Evrópumeistaramótið í handbolta. Merkilegt hvað allir geta orðið spenntir fyrir því að fylgjast með landsliðinu fara að tapa einhverjum leikjum á einhverju móti í útlöndum. Ég skil þetta ekki. Svo var nú alveg dásamlegt að hlusta á íþróttafréttirnar á Stöð 2 í morgun. Þar var sagt: „Íslenska liðið fékk hvorki við rönd né reist.“ Gott að vita að íþróttafréttamenn séu svona vel að sér í notkun á hvorki-né. Síðar talaði þessi sami íþróttafréttamaður um Snæfellnes, en þann landshluta hafði ég aldrei heyrt um áður þó svo ég hafi átt heima á Snæfellsnesi.