Þetta er aldeilis búin að vera viðburðarrík helgi! Byrjaði á því að fara á æfingu hjá Freyvangsleikhúsinu á föstudagskvöldið og verða veðurtepptur þar. Æfingin var búin rétt fyrir ellefu og þá ætluðu allir að fara heim. Fórum út í bílana og ræstum þá á stæðinu en sáum ekki út úr augum! Ég sá þó að einn sem var á jeppa bakkaði út úr stæðinu og sneri bílnum eins og hann væri að fara. Þannig að ég ákvað að bakka út og stilla mér upp fyrir aftan hann. Ég gæti þá elt hann í bæinn. Nei, beint fyrir aftan bílinn minn var náttúrulega risastór snjóskafl sem ég auðvitað sá ekki í blindbylnum og bakkaði því beint í hann og festi bílinn og blokkeraði þannig allt stæðið. Það skipti auðvitað ekki máli þar sem færðin var svo slæm að enginn komst burt hvort sem var. Jeppinn hætti meira að segja við og lagði aftur. Stuttu seinna kom svo einn úr leikhópnum sem ekki var á æfingunni á traktor og sagði okkur að vera ekkert að fara. Um miðja nóttina fórum við svo reyndar nokkrir út og bisuðum við það í nokkurn tíma að losa bílinn og tókst það á endanum. Svo við vorum þarna í Freyvangi um nóttina og spiluðum og drukkum kaffi. ígætis skemmtun svo sem en þar sem ég vissi að ég myndi ekki sofna hélt ég áfram að leggja kapal meðan hinir skriðu út í ýmis horn og fóru að sofa. Um klukkan fjögur um nóttina lagðist ég samt út í horn hjá flyglinum og reyndi að sofna eitthvað en tókst eiginlega ekki þar sem gólfið var frekar hart. Held ég hafi þraukað í klukkutíma samt. Fór þá bara út í bíl og hitaði hann og fór að sofa þar. Þá var veðrið reyndar gengið niður en mér þótti ekki skynsamlegt að reyna að keyra heim strax. Klukkan hálf sex vaknaði ég svo skjálfandi úr kulda úti í bíl og skreiddist aftur inn í Freyvang. Þá voru einhverjir að fara á fætur og ég fann sófa sem ég gat fleygt mér í í svona klukkutíma í viðbót. Uppúr sjö voru svo allir rifnir á fætur því það hafði sést til veghefilsins og við rukum öll út og komumst burt. Ég kom því heim af föstudagsæfingunni klukkan 8 á laugardagsmorguninn og notaði svo allan daginn til að sofa þangað til ég þurfti að vakna til að fara í mat til tengdó.
Vaknaði svo klukkan 10 í morgun til að fara á sunnudagsæfinguna sem átti að byrja klukkan 11 og lagði af stað í þessu fína veðri og allt í góðu. Svo, þegar ég er að beygja inn í Eyjafjarðarsveitina drepur bíllinn á sér! Ég gat startað honum aftur og látið hann hita sig en komst að því að hann drap á sér aftur ef vélin datt niður í hægagang. Ég var að velta því fyrir mér að snúa við en ákvað að keyra aðeins áfram til að sjá hvort þetta yrði ekki allt í lagi. Nei, drepur þá ekki bíllinn bara á sér á fullri ferð! Ég reyndi að láta hann renna í gang en það gekk ekki svo hann dó bara þarna úti í vegarkannti og var ekki hægt að starta honum aftur. Hélt ég því af stað gangandi í átt að Freyvangi og leið ekki á löngu áður en ég gat húkkað far þangað. Þá var æfingin að sjálfsögðu löngu byrjuð enda hafði henni verið flýtt um klukkutíma. Ég hringdi svo og fékk tengdapabba til að sækja mig og draga bílinn inn á Akureyri. Núna stendur hann fyrir framan viðgerðarverkstæði sem gamall skólapróðir tengdapabba á og ég ætla að hringja í á morgun og athuga hvort hann geti ekki gert við hann fyrir mig. Og kannski pústið í leiðinni? Hins vegar verð ég líklega að fá að semja um að borga viðgerðina í einhverjum pörtum. Það síðasta sem ég hef efni á þessa dagana eru bílaviðgerðir.
Allt væri þetta í himnalagi ef Dagur ætti ekki afmæli á þriðjudaginn sem við eigum eftir að kaupa allt inn fyrir. Líklega verðum við að fá lánaðan bílinn hjá tengdó til að skutlast í búðir. í dag gengum við Dagur hins vegar um allt Gilja- og Síðuhverfið í 14° frosti og bárum út boðskortin. Hann ætlar að bjóða níu bestu vinum sínum úr skólanum en ekki öllum bekknum, annars hefði ég bara sent hann með boðskortin í skólann á morgun. Það er hins vegar von á hitabylgju í vikunni og hita vel yfir frostmarki í marga daga! Jibbí skibbí.