Frank Zappa
íturvaxinn Amor er.
Hann örvum skýtur glaður.
í lífsins dansi leika sér
léttlynd kona og maður.
Kampavíns kempur og krómantík
er kósínus tónlistarmanna.
Postula-Palli og pönkarafrík
sér pilla á dansleik svanna.
Frank Zappa í svampfrakka
var að stappa krakka í pappastampa.
Krabbi með krampa er kampavínskempa,
býr til keppnislampa og trampar á glampa.
Salka Valka er farin að kalka.
Hún býr með alka á eyðikjálka.
Frank Zappa í svampfrakka
fer á árshátíðarball, skrall!
Þetta er textinn við lagið Frank Zappa eftir Guðmund Steingrímsson eins og ég man hann best og er að mínu viti alveg ótrúlega stórkostlegur texti.
Það er gaman að í dag eru ákaflega góðar greinar bæði á Múrnum og á Kreml. Það er sérstaklega gaman að sjá þetta því undanfarið hefur manni sýnst sem gagnrýnin hugsun eigi erfitt uppdráttar á Íslandi. T.d. hef ég engan séð benda á að þetta nýja e-kort frá SPRON er bara enn ein aðferðin til að hneppa þjóðina í skuldafjötra. Nú með tilboði um endurgreiðslu ef maður takmarkar innkaup sín við dýrari búðir bæjarins. í auglýsingu í dag setja þeir upp eitthvað dæmi um sýndarfjölskyldu sem fær endurgreitt u.þ.b. 24.000,- kr. á ári. Ég vil fá svar við spurningunni hvað spöruðu þau mikið meira með því að versla á ódýrustu stöðunum og borga út í hönd og fá þannig staðgreiðsluafslátt? Það þyrfti svo sannarlega að kenna gagnrýna hugsun í skólum. Verst að það gefst svo lítill tími í það þar sem helst er hægt að gera það, þ.e. í tveimur efstu bekkjum grunnskólans. Samt er þetta ekki nema kannski nokkrar grundvallarspurningar sem fólk þarf að spyrja: Afhverju ætti ég að trúa þessu? Hvað bendir til að þetta sé rétt? Hver græðir á því að ég trúi þessu? Og síðast en ekki síst: Hvað er rangt við þetta?