Sit heima í dag, rauðeygður og snörlandi. Er farinn að halda að það væri best að teipa bara tissjúið yfir nefið á mér. Verst að það myndi líklega fjúka af á fimm mínútna fresti þegar ég hnerra.
Af einhverjum ástæðum fór ég að hugsa um nöfn um daginn. Jú, ég man af hverju. Ég var að ganga heim úr skólanum þegar það er hrópað: Daníel! Daníel viltu koma að leika á eftir? Þetta var ungur drengur sem ég kannaðist ekki neitt við sem kallaði þetta til mín og ég vissi ekki hvaðan stóð á mig veðrið, fyrr en annar drengur sem ég hafði ekki tekið eftir fyrr en var á bak við mig svaraði: Já, ég kem til þín!
Mikið finnst mér óþægilegt að það séu fleiri en ég sem heita Daníel. Þegar ég var var lítill þá var ég alveg einn um þetta nafn. Þangað til Danni Gísla byrjaði í bekknum og varð besti vinur minn. Man hvað mér fannst merkilegt að nýi strákurinn skyldi líka heita Daníel. Ég held að við höfum verið tveir einir um þetta nafn í skólanum í gamla daga. Núna virðist annar hver strákur heita Daníel.
Ég hef aldrei verið sérstaklega ánægður með þetta nafn fyrir utan það hvað það var sérstakt og fáir hétu þessu. Núna er það farið. Ég hef þó alltaf Freyr, það eru ekki margir sem heita það eingöngu. Kannski ætti ég bara að kalla mig Frey Axelsson.
Þess vegna langar mig aðeins til að fjalla um nöfn. Sum nöfn finnast mér hallærisleg, eins og Daði. Ég veit ekki af hverju þetta nafn virkar svona á mig. Kannski vegna þess að hljómar of líkt Duh! Jón er líka hallærislegt nafn. Samt heitir faðir minn Jón. Jón getur samt verið flott, t.d. ef menn heita Jón Jón eða Jón Jónsson. Það er smart. Jón er líka flott í fleirtölu; Jónar. Jón Jón Jónsson getur þá kallað sig Jónar Jónsson. Það er töff. Jón kemur annars illa út með öðrum nöfnum, Jón Þór, Jón Gunnar og Jón Axel eru litlu skárri en bara Jón. Ég vil taka það fram að þetta segi ég án vanvirðingar við alla þá sem heita Jón. Það er ekki þeim að kenna og þeir eru ábyggilega hin mestu sjarmatröll þrátt fyrir nafnið. Annars finnast mér gömul óalgeng íslensk nöfn best, t.d. úr goðafræðinni eins og Týr, Mímir, Þrymur, Máni. Óðinn er náttúrulega aðaltöffaranafn sögunnar. Loki væri líka skemmtilega sérstakt. Pælið í því ef Mörður írnason myndi skíra son sinn þetta; Loki Marðarson. Það er svakalegt nafn!
Synir mínir heita Valtýr Kári og Dagur Arinbjörn. Ég er mjög ánægður með það og vona að þeir verði það líka.