Svo eru bara forsetakosningarnar um næstu helgi. Ég hef áður lýst áliti mínu á forsetaembættinu en það hefur nú samt breyst svolítið eftir að Ólafur neitaði að samþykkja fjölmiðlalögin og sýndi þannig fram á að embættið er kannski ekki tilgangs- og valdalaust með öllu. Þar sem ég hafði nú lofað að hafa mig á kjörstað og kjósa hann ef hann hefði sig í þetta þá verð ég að standa við það. Hins vegar finnst mér umræðan um forsetakosningarnar og væntanlegar kosningar um fjölmiðlalögin nokkuð slæm.
Það lítur út fyrir að með því að kjósa Ólaf sé fólk að lýsa yfir stuðningi við neitunarvaldið og andstöðu við fjölmiðlalögin. Allir sem sitja heima eða skila auðu verða hins vegar túlkaðir sem stuðningsmenn Davíðs og fylgismenn fjölmiðlalaganna. Aldrei að vita nema sá hópur eigni sér atkvæði Baldurs líka. Af þessum ástæðum einum neyðist ég til að fara og kjósa Ólaf þó að mér finnist hann ekkert sérstaklega góður forseti (þangað til nýlega). Forsetakosningarnar eru s.s. farnar að snúast um allt annað en það hvern þjóðin vill hafa sem forseta!
Það sama má segja um kosningarnar um fjölmiðlalögin. Þær koma ekkert til með að snúast um það hvort fólk sé fylgjandi þessum lögum eða ekki. Meirihluti fólks hefur aldrei séð lögin og veit varla um hvað þau fjalla. Kosningarnar munu snúast um hvort fólk er með eða á móti Davíð. Hvort fólk er fylgjandi eða andvígt neitunarvaldi forsetans og síðast en ekki síst hvort fólk sé með eða á móti ríkisstjórninni. Fjölmiðlalögin sjálf eru orðin að algeru aukaatriði í þessu.
Mig grunar að Ólafur eigi eftir að koma út úr þessu öllu saman sem sigurvegari, þ.e. hann vinnur forsetakosningarnar og fjölmiðlalögunum verður hnekkt. Hins vegar munu Davíðsmenn túlka kjörsókn, auða seðla, lágt fylgi forsetans og andstæðinga frumvarpsins (hvert svo sem það raunverulega verður) sem stórsigur foringjans.
Það á líka allt eftir að verða brjálað þegar Björn Bjarnason skipar Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttardómara.