Dagný Jónsdóttir, þingkona Framsóknar, rekur víst slyðruorðið af sér í grein á xb.is samkvæmt Fréttablaðinu. Mér sýnist þó frekar að hún reki á sig slyðruorðið með þessari grein að mínu mati. Stúlkan sem lýsti því yfir að stjórnmál snérust um að spila með liðinu sýnir það og sannar að hún er enginn liðhlaupi. Ég man eiginlega ekki til þess að hún hafi sagt neitt markvert sem vitnað hefur verið til frá því hún byrjaði á þingi. Fyrst svíkur hún það sem hún stóð fyrir hjá SUF til að spila með liðinu, svo bloggar hún um lautarferðir og bakstur í miðju fjölmiðlamáli og nú neitar hún að jafnrétti snúist um að jafna stöðu kynjanna m.a. meðal ráðherra þjóðarinnar! Það er stór misskilningur að raunverulegt jafnrétti snúist um að finna hæfasta einstaklinginn burt séð frá kynferði. Ef Dagný trúir þessu raunverulega hlýtur hún líka að trúa því að karlar séu mun hæfari en konur til að vera ráðherrar, að á Íslandi sé varla að finna hæfa konu til að sitja í stjórn stórfyrirtækis og að aumingja stelpurnar séu bara flestar of heimskar og vitlausar til að læra verkfræði og svona stærfræði og soleiðis….. Er ekki augljóst að það er eitthvað annað en hæfni og geta einstaklinganna sem ræður hér?
Formúlan um síðustu helgi sannaði endanlega að hún er dauð úr öllum æðum. Sem betur fer eru komin tæp þrjú ár síðan ég fylgdist með þessu af alvöru. Reyni þó alltaf á vorin en hætti að nenna því þegar Schumacher eyðileggur þetta eitt árið enn. Ég held að Bernie Ecclestone hljóti að tapa milljörðum á þessum manni á hverju ári og Bernie er nú ekki maður sem tapar peningum með brosi á vör. Annað hvort hlýtur hann að fara að kaupa Schumacher út úr þessu eða þá að koma í kring „slysi“. Við skulum vona að Bernie kjósi fyrri kostinn.
Ólympíuleikarnir eru að gera mig brjálaðan. Ekki það að ég hafi neyðst til að horfa á þetta eða að eitthvað sem ég ætlaði að horfa á hafi verið fellt af dagskrá út af þessu (það er ekki neitt á RúV hvort sem er). Hins vegar hefur verið sett upp sjónvarp í vinnunni og svo færist drungi yfir liðið þegar íslensku íþróttamönnunum gengur ekki nógu vel. Hvernig er hægt að fylgjast með íslenskum íþróttamönnum af áhuga og spennu eftir meira en 60 ár af slæmu gengi? Fólk hefur líka svo óraunhæfar og glannalegar væntingar til þeirra. Mér finnst stórkostlegt að Íslendingur hafi lennt í 30. og eitthvað sæti af 42ur í siglingum! Ég meina mér finnst flott að Íslendingar keppi í siglingum á ÓL yfirhöfuð.
Á þessum óðinsdegi fór ég að velta því fyrir mér hvort það væri ekki grundvöllur fyrir því að fara að berjast aktívt fyrir því að þessum vikudaganöfnum verði breytt! Ég held að þessi leiðinlegu; þriðju-, miðviku- og fimmtudagsnöfn séu ekki bundin í lög. Þetta er kannski spurning um að koma upp undirskriftalista á netinu, senda tölvupóst, bréf til þingmanna (það mætti semja um þetta þingsályktunartillögu), áskoranir til framleiðenda dagatala o.s.frv. Það eru margar góðar ástæður fyrir því að breyta þessu til baka:
i) Þetta eru upprunalegu íslensku nöfnin (þ.e. sunnu-, mána-, týs-, óðins-, þórs-, frjá- (freys-, freyju- eða friggjar-) og laugardagur. Það er út í hött að við látum aðrar germanskar þjóðir um að halda þessum arfi lifandi fyrir okkur þegar þær þjóðir eru líklega flestar hættar að skilja sín eigin nöfn á þessum dögum.
ii) Þriðjudagur, miðvikudagur og fimmtudagur eru ákaflega takmörkuð, merkingarsnauð og leiðinleg vikudaganöfn og væri enginn skaði þótt þau hyrfu.
iii) Tungur þeirra þjóða sem við eigum mest samskipti við og eru kenndar í grunnskólum landsins notast allar við gömlu heitin. Það væri til að auka skilning og koma í veg fyrir óþarfa misskilning að breyta þessu, sbr.: „Oh, did you say thursday. I thought you said third-day!“
iv) Gömlu nöfnin eru bara svo töff!
Ef einhver sem les þetta kann að setja upp svona undirskriftalista þá skora ég á þann hinn sama að gera það. Ég skal verða fyrstur til að skrifa undir!