Sýndarverkföll eru mér hugleikin þessa dagana. Menn sem ég hefði talið samfélagsmeðvitaða jafnaðarmenn hafa nefnilega vegið að kennurum fyrir að sækja bætt kjör með því neyðarúrræði að fara í verkfall. Verkfall sem enginn tapar jafn mikið á og kennarar sjálfir. Verkfall sem samningsaðilar okkar m.a.s. græða á sé talið í krónum og aurum. íðan las ég á e-u bloggi að standi verkfallið í 4 – 6 vikur muni það koma í veg fyrir hallarekstur sveitarfélaganna á þessu ári og lagfæra skuldastöðu þeirra til muna. Það er því augljóslega mikill þrýstingur á sveitarfélögin að semja.
Þessir blessuðu kjánar sem fyrr var minnst á og halda að þeir séu vinstri menn hafa einnig spurt af hverju kennarar fari ekki bara í sýndarverkfall! Nú hvá væntanlega margir enda sýndarverkfall ekki hugtak sem er þjált í vitund almennings. Best að útskýra það. Sýndarverkfall er þegar verkamenn hætta að taka laun fyrir vinnu sína en vinna hana samt. Atvinnurekandinn heldur þó áfram að borga laun en þau fara í sérstakan sjóð sem er notaður til samfélagsverkefna. Atvinnurekandi heldur áfram að standa undir kostnaði við reksturinn en allur hagnaður af honum rennur að sama skapi í þennan sjóð svo báðir aðilar tapa rétt eins og í verkfalli (jafnvel mun meira) en samfélagið sjálft getur beinlínis hagnast á þessu. Snjöll hugmynd!
Á þessu eru hins vegar tveir mjög stórir gallar:
1. Sýndarverkfall virkar ekki þar sem afurð vinnunnar er ekki einhver vara sem hægt er að selja fyrir peninga. Þó sveitarfélögin þyrftu að borga laun kennara í sjóð sem síðan yrði varið til uppbyggingar í samfélaginu breytti það engu ef kennar héldu áfram vinnu sinni. Sveitarfélögin væru að fá sömu (eða meiri) þjónustu fyrir sama pening.
2. Annar deiluaðili getur ekki tekið upp á því upp á sitt einsdæmi að fara í sýndarverkfall. Báðir aðilar verða að koma þar að eða það verður að breyta lögum á Íslandi þannig að verkföll verði ólögleg en sýndarverkföll lögleg. Þá þyrfti einnig að setja reglur um hvernig slík verkföll gætu virkað fyrir kennarastéttina.
Sýndarverkfall kennara myndi því virka þannig að einungis kennarar myndu tapa á því allir aðrir græða.
í fréttum stöðvar 2 var varpað fram þeirri tölu að kostnaður samfélagsins vegna kennaraverkfallsins væri um 300 milljónir á viku. í Fréttablaðinu hefur einnig komið fram að sveitarfélögin spara 40 milljónir á dag í verkfallinu. Sýndarverkfall kennara gæti því virkað þannig að kennsla héldist áfram óbreytt en auk 40 milljónanna á dag þyrftu sveitarfélögin að borga umræddar 300 milljónir í samfélagssjóðinn til að borga þann hagnað af vinnu kennara sem annars hefði tapast.
Ég er viss um að það yrði mun auðveldara að ná samningum við sveitarfélögin ef þessar reglur giltu og ég þori að fullyrða að ef Alþingi setur lög um sýndarverkföll þar sem þjóðfélagslegur hagnaður af kennslu er metinn og launagreiðendum gert að borga hann í sýndarverkfalli þá mun ekki standa á okkur að beita þeirri aðferð í kjarabaráttu frekar en vinnustöðvunarverkföllum.
í alvöru sýndarverkfalli er það bara launþeginn og launagreiðandinn sem tapa. Almenningur græðir.