Fréttirnar af samningafundinum í gær ollu örugglega öllum vonbrigðum. Næsti fundur boðaður eftir viku! Mikið er óskandi að það náist samningar þá. Annars hafa kennaraverkföll hingað til haft tilhneigingu til að verða löng (þetta eina sem var 1995). Framhaldsskólakennarar fóru í 8 vikna verkfall um árið og fengu sem betur fer ágætis launasamning út úr því. Ef við grunnskólakennarar verðum að vera í verkfalli í 8 vikur til að ná sambærilegum kjörum þá verður bara að hafa það. Annars sýnist mér á því að lesa heimasíður framhaldsskólakennara að það sé þungt í þeim hljóðið og þeir búist við harðri baráttu við ríkið í næstu samningalotu.
Annars hefur allt gengið vel hérna á Akureyri, fá vafamál komið upp og þau nánast leyst af sjálfu sér. Enda eru skólastjórar að sjáfssögðu í þessari baráttu líka þó þeir hafi ekki verkfallsrétt sjálfir. Þeirra hagsmunir liggja í því að styðja kennara eins vel og þeir geta og því ekki að búast við öðru en að þeir hlýti úrskurðum úrskurðarnefndar til hins ítrasta.
Annars hefur veðrið í Reykjavík verið með þeim hætti að fulltrúar úr samninganefndinni sem ætluðu að koma hingað norður komust ekki þar sem flug féll niður en von er á Finnboga formanni í verkfallsmiðsöðina á týsdag til að útskýra fyrir okkur þessa tregðu í samningaumræðunum.
Ég vona að margir kennarar mæti og sýni að baráttuþrek okkar er síður en svo að minnka þrátt fyrir slakt útlit.
Það er samt ekki annað hægt en að sýna fólki skilning sem finnst verkföll vera úrelt aðferð og valda þeim skaða sem síst skyldi. Það er hárrétt. Vandinn er sá að þetta er neyðarréttur og önnur úrræði ekki fyrir hendi. Það væri óskandi að fólk legðist í það að benda á aðrar leiðir áður en það tapar sér í gagnrýni á verkfallið.