Normalkúrfan er ansi hreint áhugavertfyrirbæri. Hún passar nefnilega alveg ótrúlega oft við undarlegustu hluti. Þannig er það þekkt fyrirbæri innan menntageirans að námsárangur (þ.m.t. einkunnir en ekki bara þær) raðast samkvæmt normalkúrfunni. Þ.e. fáir standa sig afburða illa, fleiri eru slakir, flestir eru meðalmenn en nokkrir skara fram úr og einstaka er snillingur. Flest röðumst við hins vegar innan eins staðalfráviks frá meðaltalinu. Þannig gefur það raunsannari mynd af árangri nemenda að raða þeim á normalkúrfuna og sýna þeim hvar þeir standa á henni en að gefa þeim einkunn úr einstaka prófum því þau geta verið svo mismunandi.
Greindarvísitala fellur einnig á normalkúrfuna, vinnusemi o.m.fl. Mér skilst meira að segja að skóstærð (fullorðinna) raðist á normalkúrfu. En merkilegasta pælingin að því er mér finnst núna er að mannfjöldaþróun virðist líka falla að normalkúrfunni. Þ.e. í upphafi var mannkynið mjög fámennt (Ég hef heyrt tölur niður í 24 einstaklinga sem forfeður alls mannkyns) en svo fjölgaði því mjög hægt í gegnum árþúsundin. Fyrir nokkrum öldum fór þessi fjölgun að aukast og á síðustu öld sprakk hún upp úr öllu valdi. Vandamálið við þetta er það að ef kenningin stenst þá nálgumst við óðfluga meðaltalið (Þann tímapunkt sem mannkynið verður fjölmennast) og svo á okkur eftir að fækka jafnhratt og okkur fjölgaði. Við erum með öðrum orðum komin innan eins staðalfráviks frá einhverri katastrófu!
Enda segir líkindareikningurinn okkur þetta sama. Fyrst þú ert á lífi í dag, þá er lang líklegast að flestir einstaklingar sem munu nokkurntíman verða á lífi séu á lífi einmitt í dag eða í nálægum tíma í fortíð eða framtíð. Það væri bara svo fjandi ólíklegt að þú sért einn af þeim örfáu einstaklingum sem eru uppi í upphafi mannkynssögunnar (Ef við gerum ráð fyrir að hún eigi eftir að standa í mörgþúsund ár í viðbót).
Annars er líkindareikningur ákaflega skemmtilegur. ímyndaðu þér kassa. Hann má vera eins stór og þú vilt. Á honum er takki og þegar ýtt er á hann kemur kúla út úr kassanum (þetta er n.k. ógagnsæ lottóvél) en þú veist ekkert hvað það eru margar kúlur í kassanum. Þær eru hins vegar allar númeraðar frá 1 og upp úr.
íttu á takkann. út kemur kúla og hún er númer 12. Hvað eru kúlurnar margar? Það er engin leið að segja. Eru þær 12? Eru þær 24? Eða eru þær 100? Hver veit? Það eina sem við getum sagt með vissu er að þær eru a.m.k. 12.
íttu aftur á takkan. Næsta kúla sem kemur út er númer 24.897. Þessu bjóstu ekki við!
Burt séð frá þessum skemmtilegu pælingum er ljóst að mannkynið á ekki eftir að vara að eilífu. Til þess þarf ekki að koma nein katastrófa eða normalkúrfa, líkindareikningar eða annað slíkt. Nei, það sem segir okkur án alls efa að mannkynið verði ekki eilíft er Þróunarkenningin. Þróun er nefnilega ekki eitthvað fyrirbæri sem er lokið. Tegundirnar þróuðust ekki bara í fornöld og núna eru þær orðnar stöðugar. Þróunin gerist hins vegar svo hægt að við tökum ekki eftir því. Samt eru ákveðnir þættir í fari mannkyns í dag sem eru frábrugðnir forfeðrum okkar fyrir nokkrum þúsundum ára. Hárvöxtur er minni og við sjálf erum stærri. Við erum að þróast smám saman í nýja tegund.
Á þessari stundu er ekkert útlit fyrir að verkfallinu fari að ljúka og ég er farinn að delera alvarlega. Kannski ég taki mig til og skrifi skáldsögu. Ef mér tekst að koma henni út er jafnvel möguleiki á að ég hafi tekjur af þessum verkfallstíma. Uppástungur um söguefni eru vel þegnar.