Ég hef ekkert getað bloggað frá því á þriðjudaginn. Það hefur verið nóg að gera að reyna að leiðrétta misskilninginn sem KÞJ kom af stað. Merkilegt að sá maður hafi aldrei neitt til málanna að leggja annað en upphlaup og sýndarmennsku. Eins og ég sagði á þriðjudaginn komu engar mótaðar tillögur frá honum, kennarar útskýrðu sín sjónarmið og KÞJ lagði ríka áherslu á að báðir aðilar töluðu við sína samninganefnd.
Það gerðum við en hann rauk beint í menntamálaráðherra með einhverja niðurstöðu sem engin var. Svo er þetta kynnt í fjölmiðlum eins og einhver sameiginleg tillaga hans og kennara á Akureyri til lausnar deilunni. Engir eru jafn ósáttir við þessa tillögu og kennarar á Akureyri.
Þrátt fyrir að BKNE hafa sent út fréttatilkynningu til allra fjölmiðla, Birna sem er trúnaðarmaður í skóla hér á Akureyri hafi verið í Dægurmálaútvarpinu á Rás 2 í gær og fjölmiðlar hafi talað margoft við Tryggva formann á þriðjudaginn veður þessi misskilningur enn uppi og fréttatilkynningin hefur ekki einu sinni verið birt.
Alvarlegra finnst mér þó að nú virðast KÞJ og hans hundtryggi aðstoðarmaður Gunnar Gíslason vera að hvetja skólastjóra á Akureyri til að funda með sínum kennurum og fá þá til að álykta með þessum arfavitlausu hugmyndum. Burtséð frá því að önnur eins stéttarsvik skólastjóra eru vandfundin. Einn slíkur fundur fór fram í morgun og sem betur fer tóku kennarar þess skóla ekki í mál að álykta eitt né neitt. Þar að auki er það náttúrulega skýlaust verkfallsbrot að ræða við starfsmenn í verkfalli um skipulag og vinnu eftir að verkfalli lýkur. Annað ef skólastjórarnir væru að bjóða fólki í kaffi og reyna að stappa í það stálinu.
Á morgun hefur annar skólastjóri boðað til sambærilegs fundar og ég hvet kennara eindregið til að mæta ekki.
Sjálfur verð ég eindregnari í afstöðu minni með hverjum deginum sem líður og aldrei ákveðnari sem nú að sætta mig ekki við neinar málamyndakauphækkanir. Ef það þarf 9 mánaða verkfall til að ná fram mannsæmandi launum þá verður það bara að vera þannig!