Kosningasvindl í úkraínu og Þráinn Bertelsson að opinbera fordóma sína og þekkingarleysi á baksíðu Fréttablaðsins. Mér heyrast flestir kennarar ætla að fella nýja samninginn.
Vestrænar ríkisstjórnir (og fjölmiðlar) ásaka úkraínustjórn um kosningasvindl þar sem úrslit kosninganna ríma mjög illa við útgönguspár (sem voru reyndar gerðar fyrir Bandaríkin (hugsanlega í þeim tilgangi að geta dregið úrslit kosningann í efa ef þær færu þannig að handbendi Moskvuvaldsins myndi sigra?)). Ég er ekki í þeirri aðstöðu að geta skorið úr um hvort um svindl hafi verið að ræða eða ekki. Hins vegar finnst mér gaman að nú er enn ein „Flauelsbyltingin“ í burðarliðnum og þá má búast við viðbrögðum frá Sverri.
Eftir að Þráinn Bertelsson líkti grunnskólakennurum við hryðjuverkamenn sem héldu börnum í gíslingu kemur mér engin smekkleysa frá hans hendi á óvart lengur. Þegar hann sakar trúleysingja um þjóðernishyggju, rasisma, fordóma gagnvart framandlegum trúarbrögðum og ég veit ekki hvað og hvað sem ég hefði haldið að ætti frekar við um sanntrúað ofstækisfólk eins og finnst t.d. í Krossinum þá er hann bara að opinbera enn frekar sitt sanna eðli sem er það að hann er smekklaus og fordómafullur og hikar ekki við að dæma um hluti sem hann veit ekkert um.
Á kynningarfundinum í dag um nýja kennarasamninginn sýndist mér flestir vera á því að fella hann. Ég er sjálfur að hugsa um að gera það, a.m.k. kemur ekki til greina að samþykkja hann. Hins vegar fær maður þá mun verri gerðardóm í hausinn og þó að ég myndi sætta mig við það þar sem ég hef nú þegar ákveðið að hætta sem grunnskólakennari í síðasta lagi vorið 2008 þá væri nú betra að fá samninginn frekar en ekkert þangað til. Ég er bara ekki til í að eyðileggja kennarastarfið til framtíðar með því að samþykkja hann. Það kom hins vegar í ljós að ef kosningaþátttaka er undir 20% þá telst samningurinn samþykktur. Er þá ekki málið að enginn kjósi? Þá sleppum við við gerðardóm án þess að þurfa að samþykkja þessa niðurlægingu?