Ég er búinn að vera í vorferðalagi með 10. bekkinn síðustu fjóra daga. Æðislega gaman en það getur tekið svolítið á að koma rúmlega 30 unglingum í háttinn á kvöldin. Ég ætlaði samt ekki að blogga um þetta heldur nördast aðeins og spjalla um ósamræmið sem verið var að tala um á nýju og gömlu Star Wars myndunum. Það vill hins vegar ekki betur til en svo að það er búið að fjarlægja fréttina sem Sverrir vísaði til af netinu. Ætla samt aðeins að fjalla um það sem ég man eftir.
1. Á þessum tímum mikillar tækni og vísinda virðast fæðingarlækningar mjög frumstæðar og t.d. hvorki hægt að komast að því að Padmé ber tvíbura undir belti né koma í veg fyrir að hún deyji af barnsförum.
Svar: Við vitum ekki mikið um Jedi regluna en þó það að gamla reglan (þ.e. áður en Logi endurreisir hana í VI) var mjög ströng og t.d. máttu Jedi riddarar ekki giftast. Það getur verið hluti af Jedi trúinni að fæðingar eigi að vera náttúrulegar (a.m.k. að ekki eigi að beita tækninni í jafn hégómlega hluti eins og að komast að kyni eða fjölda barna). Hins vegar kemur skýrt fram í myndinni að Padmé deyr ekki af barnsförum því það er ítrekað að það sé ekkert að henni. Hún missir bara lífslöngunina og það held ég að jafnvel tækni á Star Wars mælikvarða geti ekki læknað.
2. Obi Wan Kenobi eldist óeðlilega mikið á milli þessarra tveggja sería og Yoda jafnvel líka.
Svar: Episode IV gerist væntanlega tæpum 20 árum eftir Episode III. Þó svo að Sir Alec Guinnes hafi verið kominn hátt á sjötugsaldurinn þegar hann lék í Star Wars gæti hann hafa verið að leika sextugan mann. Ewan McGregor er líka frekar unglegur fyrir að vera fertugur en gæti þó verið að leika mann á þeim aldri (miðað við skeggið). Yoda er hins vegar mjög sprækur í Episode V en eldist hratt fyrir Episode VI. Við vitum hins vegar ekki nóg um hans tegund til að geta fullyrt hvort þetta sé ekki bara eðlilegt.
3. Hið mikla hrun sem verður á tækni milli Episode III og Episode IV en getur ekki verið eingöngu vegna kreppunnar sem á að vera ríkjandi.
Svar: Þetta er fyrsta góða gagnrýnin. Annars er tæknin í eldri myndunum svo sem ekki minni en í þeim nýjustu, hún er bara minna sýnd vegna minni möguleika í tæknibrellum við gerð myndanna. T.d. þá er keisarinn byrjaður á smíði Dauðastjörnunnar í lok Episode III en hún er fyrst „opnuð“ í Episode IV og eyðilögð. Hins vegar tekst keisaraveldinu að vera langt komið með nýja í Episode VI. Það er helst að hönnun líði mikið á þessum tíma og hvergi er að sjá hin glæsilegu og fægðu geimskip sem við sjáum í nýju myndunum. X-vængjurnar sem eru flottustu árásarflaugarnar á tímum Loga eru mjög kassaðar samanborið við Glæsileika Naboo-vélanna. Um þetta talar reyndar Obi Wan í Episode IV þegar hann segir: „Those were more elegant and civilized times.“ Reyndar sjáum við í Episode III að skip Organa frá Alderbaran hefur þessa klossuðu hönnun (væntanlega út af því að það var hannað fyrir Episode IV) svo við verðum að gera ráð fyrir að uppreisnarmennirnir í gömlu seríunni styðjist við alderbaranska hefð í hönnun. Eðlileg tenging líka við Víetnam stríðið að uppreisnarmennirnir séu verr tækjum búnir, með úreltan búnað og illa hannaðan í baráttu sinni við hið illa keisaraveldi.
Læt þessum nördisma lokið en tek kannski þráðinn upp aftur ef ég man eftir fleiri atriðum. Ætla samt í lokin að gagnrýna það sem mér finnst skrítnast í þessum myndum (og öðrum geimmyndum) en heyri sjaldan gagnrýnt. í fyrsta lagi þá virðist þyngdaraflið virka feikilega vel í öllum þessum geimskipum, jafnt stórum sem smáum. Við getum kannski gert ráð fyrir því að stórir störnuspillar búi yfir gerviþyngdarafli en það er undarlegt að lítil eins manns skip eða Milljón ára fálkinn geri það. Þar að auki segja náttúrulögmálin okkur það að hljóð berist ekki í gegnum lofttæmi. Samt sem áður þá heyrum við mjög vel hávaðann og lætin í öllum geimorrustunum. Geimskip springa með látum og væl geislabyssanna ómar yfir öllu. Þetta tvennt finnst mér alltaf ákaflega skrítið. Að lokum þá var gaman að sjá að Milljón ára fálkinn átti stutta en skemmtilega innkomu í Episode III. Þetta var svona „Cameo Apperance“ eins og það er kallað í útlandinu. Tókuð þið eftir þessu?