Hreint ótrúlegt að ég sé ekki enn búinn að blogga um lögin í úrslitunum. Það er reyndar ýmislegt undarlegt á seyði í samfélaginu sem vert væri að blogga um en ég ætla að láta það bíða þar sem mikilvægari mál brenna á mér, s.s. Eurovison. Læt ég þá gamminn geisa:
Sviss: Þetta er bráðhuggulegt lag í svona verumöllvinirogstuðlumaðfriðiíheiminum stemmingu einhverri. Kannski ekki mjög sterk lagasmíð en allt í lagi. Vídeóið er líka mjög fallegt. Ég gef þessu 3 stig.
Moldavía: Þetta lag er voðalega skrýtið. Það er svosem allt í lagi stemming í því en það hljómar samt einhvern vegin eins og menntaskólabílskúrsband að reyna að meika það á músíktilraunum frekar en metnaðarfullt Eurovisionatriði. Gaurinn sem segir YEAH og COMMON, SHAKE IT GIRL og fleira í þeim dúr fer líka í taugarnar á mér. Ég gef þessu 1 stig.
ísrael: Merkilegt hvað ísraelar eru alltaf veikir fyrir einhverjum friðar- og ástarboðskap í Eurovision þó þeir keppist við að brytja niður Palestínumenn þess á milli. Þetta er voðalega amerískt eitthvað og óáhugavert. Hefði kannski fengið eitt stig ef þetta hefði verið frá einhverjum öðrum en ísrael. Ég gef 0 stig.
Lettland: Þetta er mjög merkilegt lag. Allt sungið þó mig grunaði að sé einhver taktgjafi undir þessu. Hins vegar er þetta voðalega leiðinlegt þó það sémjög flott. Sérfræðingarnir sem eitthvert vit hafa á svona nú að þetta væri líka illa gert svo líklega er þetta flopp en ekki flott. Ég gef 1 stig.
Noregur: Þetta er alveg ákaflega fallegt lag og ég tek ofan fyrir Norðmönnum að syngja á norsku. Joijkið eða hvað það heitir þetta merkilega hljóðfæri sem er spilað á á bakvið í þessu lagi er líka fáránlega flott (man eftir því úr Emil í Kattholti). Lagið er samt full fullt af endurtekningum. Það er samt ekkert sem böggar mann fyrr en við 10 hlustun. Ég gef þessu 5 stig.
Spánn: Af einhverjum ástæðum höfða Las Ketchup ekki til mín. Lagið er samt skemmtilega óeurovisionlegt og fær stig fyrir það. Þetta er vel yfir meðaltali og fær þess vegna 4 stig frá mér.
Malta: Þetta er alveg ótrúlega ódýrt lag. Alger formúla frá upphafi til enda. Að því sögðu verður samt að viðurkenna að það er sæmilega grípandi og nokkuð vel fram sett. Atriðið í undankeppninni á Möltu var líka frábært. Sérstaklega þegar söngvarinn braust í gegnum eitthvert plakat svipað og Romario gerði í laginu hennar Silvíu Nætur. Ég gef þessu 3 stig.
Þýskaland: Sumum finnst voða sniðugt að Þjóðverjar skuli senda Countrý-lag í Eurovision en það er bara enn eitt dæmið um smekkleysi þeirra. Þetta lag er smekkleysi frá upphafi til enda og alger viðbjóður í ofanálag. Minnir mig á allt það versta við Þýska menningu. Ég gef þessu 0 stig.
Danmörk: Aldrei hafa Danir sokkið jafn djúpt og nú. Þetta er að vísu ágætis Kántrýlag þó það vilji ekki kannast við það. En mikið djöfull er þetta leiðinlegt. Þar að auki tvistar enginn í vídeóinu! Lélegasta framlag Dana sem ég hef nokkurn tíman heyrt. Ég gef þessu samt 1 stig.
Rúmenía: Þetta er besta lagið í keppninni í ár. Ég er að vísu ekki mjög hrifinn af svona tónlist og enskan hjá söngvaranum er bjöguð á köflum. Hann ætti að halda sig við ítölskuna enda er sá kafli lagsins rosalega flottur. Ég held að þetta vinni (ég vona það a.m.k.). Ég gef þessu 5 stig og vona að ítalir fari að taka þátt aftur. Þeir sendu alltaf flottustu lögin.
Bretland: Maður veit ekki alveg hvað maður á að segja um þetta lag. Minnir svolítið á Eminem. Undirsöngurinn er rosalega flottur. Ég er að vísu aldrei neitt hrifinn af rappi og það er eitthvað krípí við þetta. Af einhverjum ástæðum er þetta samt þokkalega flott. Ég gef þessu 3 stig.
Grikkland: Grikkjum er spáð góðu gengi í ár og gestgjafaþjóðin fær alltaf slatta af stigum ef keppnin er flott. Þetta lag er líka mjög flott og minnir mig svolítið á gamlan Bonnie Tyler slagara eða Fleetwood Mac þegar þeir voru upp á sitt besta. En mikið skelfilega var söngkonan eitthvað suppuleg og sjúskuð í vídeóinu. Ef hún verður svona í keppninni missir hún einhver stig út á það. Ég gef þessu 4 stig.
Frakkland: Frakkar halda áfram að valda vonbrigðum. Samt getur þjóð sem maður er alveg hættur að búast við nokkru frá valdið vonbrigðum. Frakkar hafa líka fyrir löngu gefist upp á engilsaxneskun keppninnar þó þeir hafi ekki farið í fýlu og hætt eins og ítalir. Þetta er þó með slökustu famlögum Frakka í langan tíma. Lagið í fyrra var t.d. mun betra. Ég gef þessu 1 stig.
Króatía: Hvað er eiginlega að gerast? Balkanskt þjóðlagapopp á sýru. Ég hélt að ég hefði heyrt margt slæmt en þetta slær öll met. Er hægt að gefa mínusstig? Ég gef þessu 0.
Ég ætla að bíða og sjá hvaða lög komast áfram úr undanúrslitunum áður en ég fer að spá einhverju um úrslitin í úrslitakeppninni.