Undankeppni Eurovision er búin og fór nokkurn veginn eins og ég hafði spáð fyrir. Þrjú lönd sem ég hafði spáð áfram meikuðu það ekki, þ.e. Holland, Eistland og Belgía. Þau þrjú lönd sem komust áfram en ég hafði ekki spáð góðu gengi eru írland, Litháen og Armenía. Rétt spáði ég hins vegar um að þessi lönd kæmust áfram: Makedónía, Finnland, úkraína, Rússland, Bosnía-Herzegóvína, Tyrkland og Svíþjóð. 70% árangur!
Ég er búinn að gefa lögunum sem voru komin í úrslit stig svo nú er best að taka þetta saman:
5 stig: Noregur og Rúmenía.
4 stig: Spánn, Grikkland, Makedónía og Finnland.
3 stig: Sviss, Malta, Bretland, úkraína, Rússland og Bosnía-Herzegóvína.
2 stig: Litháen, Tyrkland og Armenía.
1 stig: Moldavía, Lettland, Danmörk, Frakkland og Svíþjóð.
0 stig: ísrael, Þýskaland, Króatía og írland.
Merkilegt hvað það eru mörg lönd í úrslitum sem ég hef gefið 0 stig. Reyndar bara ein þjóð sem komst upp úr undankeppninni. Miðað við þetta ætti ég að spá Norðmönnum eða Rúmenum sigri en eins og áður geri ég ekki ráð fyrir að smekkur minn og smekkur Evrópu sé endilega sá sami. Samt ætla ég að vera svo djarfur að spá því að engin af þjóðunum sem ég gaf 0 stig vinni! Hér fer því spá mín um efstu sætin:
5. Rússland – Það var mjög erfitt að gera upp hug sinn varðandi þetta sæti. Það er svo mikið af einhverjum miðlungs austur-evrópskum lögum sem eiga eftir að ná langt þrátt fyrir að vera ömurleg. Rússneska lagið er líklegast þeirra þó svo að úkraína komi einnig sterkt til greina.
4. Rúmenía – Þetta er að vísu lagið sem ég tel að ætti að vinna en samt þori ég ekki að spá því ofar en þetta. Ég vil samt ítreka áskorun mína um að ítalía eigi að fara að taka þátt aftur.
3. Svíþjóð – Þetta er ömurlegasta lagið sem ég er með inn á topp 5. Sjálfur gaf ég því ekki nema 1 stig enda ófrumleikinn og leiðindin ósegjanlega mikil. Samt togast það svolítið á í mér að þó mér finnist lagið svona vont væri fínt ef Svíþjóð myndi vinna. Þá nýtti maður kannski tækifærið og skellti sér á Eurovision næsta vor.
2. Bosnía-Herzegóvína – Þetta er ágætislag og svona lagað virðist moka inn atkvæðum frá Balkanskaganum og fyrrverandi Sovétlýðveldum. Þetta lag gæti jafnvel unnið en er þó líklega ekki alveg nógu „mainstream“ til þess.
1. Grikkland – Já, ég spái því að Grikkirnir vinni aftur. Bæði er að lagið er alveg þokkalegt og þar að auki fær gestgjafaþjóðin alltaf einhver óverðskulduð stig fyrir það eitt að standa sig þolanlega í því hlutverki (þá ættu reyndar Þjóðverjar að fá þau stig því mér skilst að það séu þýskar sjónvarpsstöðvar sem sjái meira og minna um þetta allt saman). Lagið hefur breiða skírskotun og ætti að fá stig frá öllum einingum Eurovisionsins (sem eru Vestur-Evrópa, Suður-Evrópa, Balkanskaginn, Austur-Evrópa og Fyrrverandi Sovétlýðveldi. Athugið að sum lönd geta tilheyrt fleiri en einni einingu og eru þannig betur í stakk búin til að sigra).
Læt þetta nægja í bili.