Helstu pólitísku tíðindi dagsins eru tvenn. Annars vegar að Samfylking og Sjálfstæðisflokkur eru búin að ganga frá meirihlutasamstarfi flokkanna á Akureyri og hins vegar að Halldór ísgrímsson hyggst segja af sér sem formaður Framsóknarflokksins. Önnur tíðindin eru skelfileg, hin gleðileg. Önnur tíðindin eru staðfest, hin ekki. Báðum fylgja hins vegar ógnvekjandi aukaverkanir. Annars vegar áframhaldandi bæjarstjóratíð Kristjáns Þórs Júlíussonar og hins vegar möguleg endurkoma Finns Ingólfssonar í stjórnmál. Hann og Björn Ingi geta þá grafið Framsóknarflokkinn í sameiningu.
í raun á ég ekki nógu stór orð til að lýsa vonbrigðum mínum með fyrri tíðindin. Þess vegna vil ég bara birta hér orð Hermanns Jóns Torfasonar sjálfs:
Fyrir hvað stend ég?
Það þarf nýjan meirihluta í bæjarstjórn í vor. Meirihluta sem undir forystu Samfylkingarinnar beitir sér fyrir öflugu atvinnulífi, bættri velferðarþjónustu og framsæknu og metnaðarfullu skólastarfi. Meirihluta sem hlustar á fólkið í bænum og leggur áherslu á að bæjarfulltrúar eru kosnir til að gæta almannahagsmuna. Ég var valinn til að fara fyrir lista Samfylkingarinnar í komandi kosningum og ætla mér að leiða flokkinn til forystu í næstu bæjarstjórn.
Það er best að spyrja Hermann sjálfan hvernig áframhaldandi valdaseta Sjálfstæðisflokksins samræmist þessum orðum og hvort hann telji sig vera að hlusta á kjósendur Samfylkingarinnar með myndun þessa meirihluta.
Óformleg könnun (ég var nú bara að spjalla við nokkra samkennara mína) leiddi í ljós að fjórir kjósendur Samfylkingarinnar telja sig hafa verið svikna. Það gerir 100% óánægju. Þetta er reyndar ekki mjög vísindaleg könnun en hlýtur samt að gefa vísbendingar. Það væri fróðlegt ef einhver fjölmiðillinn léti gera könnun á fylgi flokkanna þegar búið er að mynda meirihluta í flestum sveitarfélögum og athugi hversu margir þeirra hafa meirihlutafylgi á bakvið sig.