Þegar ég var unglingur var ég í sveit á sumrin í Skagafirði, þ.e.a.s. á bænum Skatastöðum í Austurdal. Skatastaðir eru ákaflega afskekktur bær og er kominn í eyði í dag. Þarna eru há fjöll og áin rennur um dalinn í hrikalegu gljúfri. í dag er farið í rafting ferðir á fljótinu og staðurinn býður upp á mikla möguleika í ferðamennsku. En núna á að setja virkjun í Jökulsá-eystri inn á aðalskipulag Skagafjarðar. Lærir fólk virkilega ekki neitt af Kárahnjúkavirkjun? Sjálfur tek ég heils hugar undir þá skoðun sem ég heyrði fleygt í útvarpinu, mig minnir að það hafi verið Mörður írnason sem kom með hana, að banna ætti frekari vatnsaflsvirkjanir á Íslandi þangað til farið hefur fram heildarúttekt á virkjunarkostum, þeim forgangsraðað og ákveðið hvað eigi að friða. Þar að auki er fáránlegt að vera að byggja virkjanir sem engin þörf er fyrir og leita svo eins og hundur út um allt að einhverjum sem er til í að kaupa orkuna sem hún framleiðir fyrir skít og kanil. Því legg ég til að Landsvirkjun verði lögð niður (ekki einkavædd) og frekari virkjanir, jarðhita eða vatnsafls, sjávarfalla eða vinds, einungis reistar ef orkuþörf landsmanna krefst og þá verði stofnaðir um þær sérstakir vinnuhópar sem vinni einungis að einni virkjun.
Við verður að láta Kárahnjúkavandann okkur að kenningu verða og forðast Austurdalsvandann. Svo hef ég heyrt að það eigi að kalla fyrirbærið Skatastaðavirkjun. Megi nafn þessa forna ættarseturs Skata landnámsmanns ekki verða tengt við slíkt skaðræðisfyrirbæri.