Hér á dagatalinu til hlðar eru nú engir feitletraðir reitir og mánuðurinn ósnortinn misgáfulegi bloggi teygir sig framundan. Spor bloggarans munu þó innan tíðar marka för á dagatalið sem vitna um misfrjóar vangaveltur hans.
Nú er mikið fjaðrafok vegna gjörnings í leiklistadeild Listaháskólans. Mikið á ég erfitt með að sjá að þarna sé um misnotkun að ræða en hitt er augljóst að tengingin við kúgun konunnar og miskunnarleysi klámheimsins er augljós. Gjörningurinn hefur eflaust vakið meira umtal en leiklistarnemendurnir áttu von á. Hins vegar kom það mér á óvart að lesa að þetta hefði átt að vera ádeila á firringu vísindanna. Ég sé ekki alveg hvað vísindin hafa með þetta að gera.
Verri fréttir eru af hrottafengnum aðferðum rússnesks þjálfara hjá fimleikafélaginu Björk. Nú vil ég taka fram að ég hef ekkert vit á fimleikum og var ekki á staðnum og á eiginlega bágt með að trúa því að þessar þjálfanir viðgangist eftir hrun Sovétríkjanna. Mest kom mér á óvart að lesa að aðrir þjálfarar viðurkenndu að teygja oft á þetta ungum krökkum þangað til þau færu að gráta. Ég held að félagsstarf, hvort heldur sem er í íþróttum eða öðru, sé komið á villugötur þegar það er orðið eðlilegt að þátttakendur gráti undan því. Getur það verið að vonin um að þjálfa fimleikameistara framtíðarinnar sé orðin svo mikil að menn láta sér ekkert fyrir brjósti brenna? Eins finnst mér skrýtið að börn sæki í þetta starf ef framkoman og þjálfunaraðferðirnar eru svona. í raun kemur ekki nema tvennt til greina: Annað hvort eru kröfurnar og þrýstingurinn frá heimilunum ómanneskjulegar eða þá að þessar fréttir eru allar færðar í stílinn, ýktar og ótrúverðugar. í ljósi reynslunnar af fjölmiðlaumfjöllun um ýmis önnur mál þykir mér seinni skýringin líklegri.