Það er með ólíkindum hve margir höndla það ekki að menn séu ósammála þeim. Sumir bregða fyrir sig lygum (eins og ég hef áður bent á) en aðrir falla í þá gryfju að ætla að fólk hafi verið afvegaleitt til að gefa upp ranga skoðun. Nú getur vel verið að hvalveiðimálið sé dæmi um smjörklípuaðferð Sjálfstæðisflokksins eins og sumir hafa haldið fram. Það þýðir þó ekki að allir sem eru ósammála þeim sem eru á móti hvalveiðum séu allir á einum hug varðandi íraksstríð, virkjanaframkvæmdir á Austurlandi, eftirlaunafrumvarpi og öðrum ósóma. Undarlegast þykir mér samt þegar þeim sem eru fylgjandi hvalveiðum er núið um nasir fyrir að vera á móti ferðamennsku.
Nú skal ég viðurkenna að sjálfur er ég ekkert sérstaklega hrifinn af ferðamennsku sem atvinnugrein þó mér þyki mjög gaman að vera ferðamaður. Þetta er atvinnustarfsemi sem krefst fjölmenns, lítið menntaðs vinnuafls (og nokkurra hálaunaðra sérfræðinga), þarna er mikil starfsmannavelta, lágar tekjur og þetta er sú starfsemi sem verkalýðsfélög hafa átt hvað erfiðast með að fá til að standa við kjarasamningna. Þar að auki mengar ferðamennska gífurlega, gengur á náttúruauðlindir auk þess sem umgengni við markverða staði er oft mjög ábótavant og vantar gott eftirlit með átroðningi ferðamanna. Mér þykir þess vegna mjög skrýtið þegar vinstri sinnaður umhverfisverndarflokkur leggur áherslu á ferðamennsku sem valkost við stóriðju. Ég sé ekki mikinn mun á þessum tveimur atvinnugreinum hvað varðar umhverfið eða verkalýðsmál, nema stóriðjan borgar líklega hærri laun.
Sjálfur vildi ég sjá vinstri flokka á Íslandi leggja meiri áherslu á menntun, hátæknistörf, frumkvöðlastarfsemi o.s.frv. Þeir þurfa líka að átta sig á því að þó að smáir vinnustaðir sem borga há laun vel menntuðum starfsmönnum séu vissulega frábær framtíðarsýn þá geta ekki allir vinnustaðir verið þannig og það er ekki náttúrulögmál að stórfyrirtæki þurfi að vera mannfjandsamleg. Þó manni sýnist Alcan vera í mun að sanna að svo sé.