Nú hafa forystumenn í tveimur stjórnmálaflokkum gerst uppvísir um vægast sagt stórundarlegan málflutning.
Annar er að sjálfssögðu Ögmundur Jónasson sem lét í ljós skoðanir sem má túlka sem svo að hann vilji reka bankana úr landi. Með miklum vilja má skilja orð hans á þann veg en líklegast var hann nú bara að benda á hve ójöfnuður hefur aukist mikið á Íslandi. Óheppilega orðað engu að síður.
Hinn er Magnús Þór Hafsteinsson, varaformaður Frjálslyndra, en yfirlýsingar hans hafa verið túlkuð sem rasismi, þjóðernishyggja o.s.frv. Líklega líka oftúlkun en útlendingafordómar af þessu tagi eru náttúrulega líklegir til að höfða til vissra kjósenda og hugsanlega það sem Magnús er að spila inna á. Undarlegra fannst mér samt að Margrét Sverrisdóttir tekur undir þessar hugmyndir. Og mér sem fannst einu sinni að Frjálslyndir væru geðþekkari hægrimenn en Sjálfstæðismenn!
Þótt lítið sé hægt að byggja á þessum tveimur málum sýna þau í hnotskurn þann vanda sem blasir við stjórnarandstöðunni ef ríkisstjórnin missir meirihlutann í Alþingiskosningunum. Ég bara sé það ekki í stöðunni eins og hún er að þessir þrír flokkar geti unnið saman. Eða að nokkur flokkur geti unnið með VG eða Frjálslyndum eða þeir með hvor öðrum sé út í það farið. Vonandi breytist þetta eitthvað þegar líður á vorið. Annars eru einu stjórnarmynstrin sem verða möguleg Sjálfstæðisflokkur og Framsókn eða Sjálfstæðisflokkur og Samfylking.