Ég les sums staðar að Össur sé að herja á Ingibjörgu Sólrúnu formann Samfylkingarinnar og gefi henni ekki nægt rými. Þetta finnst mér alveg stórmerkilegur málflutningur. Ég verð ekki var við það að þó aðrir þingmenn segi skoðun sína eða haldi úti bloggsíðum séu þeir ásakaðir um að gefa formanninum ekki nægilegt rými. Þetta virðist líka bundið við Samfylkinguna. Enginn sakar Ögmund Jónasson um að gefa Stengrími J. ekki nægilegt rými. Þegar Björn Bjarnason bloggar fer enginn að tala um að hann veiti Geir H. Haarde ekki nægt rými.
Eftir að hafa velt þessu fyrir mér í svolitla stund er ég farinn að hallast að því að þarna sé um ákveðna karlrembu að ræða. Þ.e. Ingibjörg þarf rými frá öðrum þingmönnum til að tjá sig vegna þess að hún er kona. Össur skyggir á hana vegna þess að hún er kona en Björn og Ögmundur skyggja ekki á sína formenn vegna þess að þeir eru karlar.
Kannski á þessi grunur minn um það að þetta sé bara karlremba ekki við rök að styðjast þar sem aðrir þingmenn Samfylkingarinnar virðast mega tjá sig eins og þeir vilja án þess að þeir séu að takmarka rými Ingibjargar. Þetta er þessvegna kannski frekar einhverjir Össurarfordómar, eða tengt því að hann er náttúrulega fyrrverandi formaður. Fyrrverandi formenn annarra flokka eru hins vegar hættir í pólitík (nema auðvitað Davíð).
Erum við hér kannski að komast að nýjum sannleika í íslenskum stjórnmálum, þ.e. að fyrrverandi formenn verði að hætta í pólitík því annars skyggja þeir á nýjan formann með því að halda áfram að tjá sig og taka þátt. Er meira mark takandi á fyrrverandi formönnum en núverandi? Eitthvað hlýtur að hafa valdið þvi að þeim var skipt út?
Sjálfur hef ég enga trú á því að Ingibjörg Sólrún láti einn eða neinn takmarka rými sitt og segi ekki bara nákvæmlega það sem hún vill. Allt þetta tal um að Össur sé ekki að gefa henni nægjanlegt rými virkar þannig mjög lítilsvirðandi fyrir hana.