Þegar konum gengur illa í prófkjörum heyrast gjarnan ramakvein um slæma útreið, að prófkjör henti konum illa, séu hliðhollari körlum o.s.frv. Meira að segja hef ég heyrt minnst á kvenfyrirlitningu í þessu samhengi. Flestir flokkar hafa brugðist við þessu með einhvers konar kynjakvótum. Þó að þeir séu oft á því formi að tryggja öðru kyninu væntanlegt varaþingmannssæti en ekki s.k. öruggt sæti er það þó viðleitni í rétta átt. í prófkjöri Samfylkingarinnar fyrir bæjarstjórnarkosningarnar síðasta vor lentu konur í sætum 2 – 4 og þurfti þá að færa konuna í 4. sæti niður og karlinn í 5. sæti upp vegna þessara kynjakvóta. Það var í fyrsta skipti sem ég hef heyrt að kynjakvóta hafi verið beitt vegna og hás hlutfalls kvenna.
í prófkjöri VG á höfuðborgarsvæðinu fengu karlar slæma útreið þrátt fyrir að hafa verið stór hluti frambjóðenda. Ungar konur stóðu sig hins vegar mjög vel og af efstu 6 eru víst 4 konur. Þetta þýðir að á einum listanum verða konur í efstu tveimur sætunum. Ekkert við það að athuga nema að reglur VG um fléttulista eiga að koma í veg fyrir slíkt. Það þarf sem sagt kona að víkja fyrir karli vegna kynjakvótaregla VG. Nú ber því hins vegar við að karlinn sem um ræðir neitar að taka sætið af konunni og uppstillingarnefndin segist ekki viss um að hún muni taka mið af þessum reglum. Myndi það gerast ef úrslitin hefðu verið á hinn veginn?
Sjálfum þykir mér mikilvægt að rétta hlut kvenna á þingi og það er augljóst að aðrir flokkar og önnur kjördæmi munu ekki gera það en þá á líka að hafa regluna þannig að hún gildi bara um konur þangað til búið er að ná því markmiði að þær séu eðlilegur hluti alþingismanna (40 – 60%). Annars verða menn að fara eftir þeim reglum sem þeir hafa sett sér eins og Samfylkingin á Akureyri gerði fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar.