Ég vil byrja á því að biðjast afsökunar á því að hafa misnefnt hina sænsku Perelli eftir einhverjum asnalegum dekkjum. íður en ég fjalla um lögin ætla ég líka að minnast á að ég vil að Danir haldi sig við þennan gaur því hann er skemmtilegur og það skilst hvað hann segir. Lundin hinn finnski á enn sem fyrr gáfulegustu athugasemdirnar og sá norski var mun skemmtilegri núna en í síðasta þætti. Mér fannst sérstaklega flott hjá honum að vera sá eini sem gaf Noregi fimm stig. Lögin núna voru hins vegar talsvert verri:
1. Albanía – Balada e gurid: Hvar á maður að byrja? Fötin, skeggið, enskan? Sviss söng Vampires are alive og Albanía kemur og sannar það. Hins vegar er þetta sæmilega flott lag og vel sungið. Á örugglega eftir að raka inn Balkanstigunum. Ég gef þessu 3.
2. Danmörk – Drama Queen: Þetta er voðalega þreytt og þá ekki gott þreytt nostalgíu retró eitthvað. Bara þreytt og vont. En hvað er hægt að segja? Einhvern vegin tekst Dönunum alltaf að vera í lagi, líka þegar þeir eru slæmir. Viðlagið er líka grípandi en það hafa bara verið svo mikið betri klæðskiptingar í keppninni áður. Ég gef þessu samt 3 (eiginlega bara fyrir viðlagið)
3. Króatía – Dragonfly: Þetta er náttúrulega bara það versta af öllu vondu. Þegar lönd senda svona vond lög í keppnina verða þau að hafa vöðvahönk og langleggja brjóstadívu til að syngja. Króatía hefur hvorugt. Þetta fær varla stig frá hinum balkanlöndunum. Ég gef þessu 0.
4. Pólland – The Jet Set: útlitið á þessu minnti á mjög margt; Chicago söngleikinn, Christinu Agulera, Madonnu, MTV, Hip Hop os.frv. Það eina sem þetta minnti eiginlega ekkert á var Pólland sem hingað til hefur verið frekar hefðbundið austur-evrópskt í sínu lagavali. Vídeóið var flott og lagið svo sem ekkert slæmt heldur. Það var mikið lagt upp úr kynþokka söngkonunnar en mér fannst eins og söngvarinn væri alveg í formi til að fara úr bolnum og vera ber að ofan. Ég ætla að skella 3 á þetta.
5. Serbía – Molitva: Þetta lag var feikilega vel sungið og viðlagið kraftmikið og flott. Atriðið var líka mjög serbneskt með þessari slavnesku dulúð sem Serbarnir eru svo færir í. Man einhver eftir svanakonunni? Það er ljóst að Serbar hafa ákveðið að fara ekki þessa hefðbundu leið að finna leggjalanga, brjóstgóða söngkonu heldur hafa ákveðið að láta hæfileikana ráða og ég vona að það skili sér fyrir þá. Þetta lag fær fullt af stigum frá hinum Balkanlöndunum en e.t.v. ekki mörg frá neinum öðrum. Ég gef þessu 3.
6. Tékkland – Mála Dáma: Þið eruð e.t.v. farin að halda að ég ætli að gefa öllum löndunum 3. En, nei, það er ekki rétt. Þetta lag var vont. Iðnaðarrokk sem vantar iðnaðinn í. Það hefði líklega verið hægt að bjarga þessu fyrir horn með mjög mikilli hljóðversvinnu. Síðan fór ég á klósettið. Þetta er tissepausen í keppninni. Ég gef þessu 0.
7. Portúgal – Danca Comigo: Það vantar krókinn í céið. Kómíski dansinn? Það myndi a.m.k. passa vel við dansarana sem voru þarna á bakvið hana. Þetta var líka svona retró nostalgíudæmi eins og Holland en bara ekki eins gott. Hins vegar er ég mjög hrifinn af portúgölsku og bakraddasöngkonurnar í gullkjólunum eru náttúrulega bara stórkostlegar. Ekki jafn gott og Holland en fínt samt … Ég verð líklega að gefa þessu … 3.
8. Makedónía – Mojot Svet: Hljómar eins og mikill sviti. Það verður samt að segjast eins og er að Makedónar eru mjög færir í Eurovision og þetta var ekta Eurovision, ekta Balkan og söngkonan með þá lengstu og flottustu leggi sem ég hef séð í Eurovision … eða bara á ævinni. Ólíkt Serbíu á þetta lag eftir að fá atkvæði frá fleirum en hinum Balkanlöndunum. Ég gef þessu alveg 4.
9. Noregur – Ven a Bailar Conmigo: Ég held að fá lönd hafi sent jafn fjölbreytt lög í Eurovision og Noregur. Þetta er talsvert frábrugðið Bobbysocks og Wig Wam (þó fannst mér ég sjá aðra söngkonuna úr Bobbysocks í kynningunni). Þetta er suðrænt latínólag sem líður óneitanlega fyrir það að við Norðurlandabúar kunnum ekkert að gera svoleiðis lög. Munið þið eftir Sólarsamba? Portúgalska lagið er t.d. mun betra. Og hvar drógu þeir upp þessa söngkonu? Hún var svo andlitsstrekt og með svo mikið botox í vörunum að hún afskræmdist í framan í hvert sinn sem hún reyndi að ná háu tónunum og silíkonið var gersamlega við að springa upp úr kjólnum. Og kjólatrikkið! ÞREYTT! Mjög vont, alveg hryllilega vont. Getur maður gefið mínus stig? Ég gef þessu feitt 0.
Þá er þessu lokið um annan þáttinn. Fylgist spennt með umfjöllun minni um þriðja þáttinn og í framhaldi af því lokauppgjöri á lögunum sem taka þátt í undankeppninni.