Um daginn las ég frétt um það að Hjallastefnan hefði verið að taka yfir rekstur leikskólans Laufásborgar í Reykjavík. Fyrir rekur stefnan nokkra eigin leikskóla á Höfuðborgarsvæðinu og hér á Akureyri auk smábarnaskóla. Um þetta má lesa á heimasíðu samtakanna. Fyrst þegar ég heyrði af Hjallastefnunni var það einungis það að hún gengi að einhverju marki út á það að aðskilja kynin í uppeldis- og kennslustarfi og leyfa hvoru kyni fyrir sig að þroskast á eigin forsendum. Það þótti mér í sjálfu sér ekki slæm hugmynd, sérstaklega í ljósi þess að grunnskólar í dag eru e.t.v. frekar drengfjandsamlegir.
Þegar leikskóli Hjallastefnunnunar hafði verið starfandi í nokkra daga hér á Akureyri fór ég að skoða hann á opnum degi þar sem öllum bæjarbúum var boðið að koma. Þarna voru kynskiptar deildir með ámáluðum hólfum á gólfum fyrir börnin að sitja í og línur á öllum gólfum til að ganga eftir. Ég ræddi við starfsmenn og spurði meðal annars út í því af hverju allar deildirnar væru nákvæmlega eins (þeir voru ekki vissir), af hverju það væri nánast ekkert dót þarna inni (það mátti ekki hafa of mikið áreiti heldur var valið dót og tími fyrir börnin), af hverju það væru engin verk eftir börnin neins staðar (það var bannað að hafa slíkt til sýnis) og af hverju það þótti nauðsynlegt að kynskipta þeim alltaf en ekki bara stöku sinnum (það var bara hluti af Hjallastefnunni). Ég fór líka og skoðaði skólalóðina hjá þeim sem er mjög falleg með vönduðum leiktækjum. Þar tjáði starfsmaður mér að þegar börnin færu út fengju allir skóflu og fötu. En ef einhvern langar að leika sér með eitthvað annað? spurði ég. Það er ekki í boði, var svarið. Hér er úthlutað dóti þegar börnin fara út og allir fá það sama. Þannig er komið í veg fyrir leiðindi og rifrildi um dótið.
Ég fór af leikskólanum þennan dag með þá hugmynd að Hjallastefnan ræki ekki leikskóla heldur fangabúðir fyrir börn. Ég hef af þessu talsverðar áhyggjur, sérstaklega í ljósi þess að æ fleiri sveitarfélög eru að fá Hjallastefnuna til að reka leikskóla fyrir sig og það þykir voðalega smart í dag og Margrét Pála er orðin að einhvers konar gúrú þessa fólks. Ég er hræddur um að sveitarfélögin taki þessa ákvörðun að fela Hjallastefnunni að reka leikskóla á öðrum forsendum en faglegum. Ég kannast við sögur þess efnis að starfsfólk hafi yfirgefið Hjallastefnuna vegna faglegs ágreinings og að ef menn kaupi ekki með húð og hári kenningar og starfsaðferðirnar sé betra fyrir mann að fara. Það er e.t.v. ekki skrýtið og eðlilegt þegar verið er að starfa eftir svo skýrt markaðri stefnu að þeir sem ekki eru 100% sammála henni eigi ekki heima í þeim skólum sem vinna samkvæmt henni. Hitt þykir mér verra sem ég hef heyrt að börn sem koma í hefðbundinn grunnskóla úr leikskólum Hjallastefnunar ráði einfaldlega ekki við það umhverfi sem þar er að finna. Þ.e. að þurfa að umgangast börn af hinu kyninu, að hafa sjálf val um viðfangsefni, leiki, hvaða dót eigi að nota o.s.frv., að frímínútur þar sem þeim er ekki úthlutað fötu og skóflu séu þeim ofviða og að þetta brjótist út í aga- og stjórnleysi. S.s. börnin ráða ekki við það aukna frelsi sem fylgir því að losna úr fangabúðunum.
Á Íslandi er ekki neitt opinbert apparat sem fylgist með framkvæmd hins daglega starfs í leik-, grunn- eða framhaldsskólum. Ég er mjög hræddur um að við séum að sigla inn í mjög erfið mál í framtíðinni ef Hjallastefnan fær að halda áfram eftirlitslaust í sínum skólarekstri.