Mikið djöfulli, viðbjóðslega, ógeðslega er þessi nýi listaháskóli á Laugavegi skelfilega, andskoti ljótur og stingur í stúf við götumyndina. Verður ekki Ólafur F. að gera eitthvað í þessu? Svona fer þegar arkítektum er hleypt í að teikna hús. Þetta skrýmsli gæti sómt sér við hliðina á kjarnorkuveri og olíuhreinsunarstöð í iðnaðarhverfi í útjaðri stórborgar í Bandaríkjunum en í hjarta smábæjar eins og Reykjavíkur, við hliðina á litlum bárujárnsklæddum timburhjöllum, er þetta eins og stórvaxið graftarkýli í miðju smettinu á höfuðborginni.
Ég var á Skriðuklaustri á Héraði um daginn og þar héngu uppi teikningar úr samkeppni um gestastofu við safnið. Þar hafði dómnefndin haft þá skynsemi að segja í umsögn um allar tillögurnar að þær væru ljótar, með mismunandi orðalagi þó. Meira að segja sigurtillagan fékk þá umsögn að hún væri dimm, þröng og í ósamræmi við staðinn.
Af hverju í ósköpunum er ekki hægt að teikna hús þannig að þau passi við það sem fyrir er í umhverfinu. Ég held að öllum nema arkítektum gæti tekist það.
Eins og sést er ég haldinn fordómum gagnvart arkítektum og tel einsýnt að ef það þarf að fá einhverja til að teikna hús þá eigi að setja verkfræðinga í það en ekki arkítekta.