Háttvirtur borgarstjóri var í Kastljósviðtali í gær. Það er óskemmtilegt að verða vitni að svona löguðu og þá sérstaklega stuttu eftir að hafa lýst stuðningi við hann í Listaháskólamálinu. Helgi Seljan þurfti að hafa mikið fyrir því að fá svar við þessum tveimur spurningum sem hann lagði upp með að fá svarað, þ.e. hvernig bar brottvikningu Ólafar úr skipulagsráði að og hver er afstaða Ólafs gagnvart Listaháskólanum á Laugarveginum. Svo loksins þegar Ólafur svaraði þessu tvennu var eins og Helgi tæki ekki eftir því og hann hélt áfram að spyrja. Mér sýnist líka að hann sé að draga í land þar og ætli að leyfa þessu skrýmsli að rísa. Ólafur kom hins vegar mjög illa út úr þessu viðtali og það var fáránlegt að horfa á hann tala út og suður og reyna allt til að forðast að svara spurningunum. Hins vegar er athyglisvert ef rétt er það sem hann sagði í lok viðtalsins, að hann hefði verið boðaður í Kastljós til að ræða um Bitruvirkjun og umhverfismál. Bæði að Katljós sé að blekkja menn til að mæta og eins að hann hafi trúað þessu. En svo getur líka verið að hann sé að rugla með þetta eins og annað.
Ég held hins vegar að hann hafi lítið um það að segja, þ.e. hann hættir sem borgarstjóri eftir u.þ.b. hálft ár og nær örugglega ekki inn í borgarstjórn eftir næstu kosningar. Reyndar grunar mig að þegar þar að kemur að Hanna Birna eigi að taka við stjórnartaumunum lýsi Ólafur því yfir að atið í honum og ágangur fjölmiðla hafi verið slíkur að hann sé búinn að fá yfir sig nóg og hafi ákveðið að hætta í pólitík. Þá kemur Margrét Sverris aftur inn í borgarstjórn og meirihlutinn fellur einu sinni enn. Ólafur sýndi það í viðtalinu í gær að honum er trúandi til alls og Össur Skarphéðinsson (meistari spunans) heldur því fram að þetta sé allt saman þrælskipulögð hefndaraðgerð hjá honum gagnvart Sjálfstæðisflokknum fyrir útreiðina á landsfundinum um árið og blekkingarnar þegar fyrsti meirihluti kjörtímabilsins var myndaður í kaffitíma í samræðum við Ólaf.
Ég held samt að það hafi verið rétt ákvörðun hjá honum að skipta um fulltrúa í skipulagsráði og að ekki eigi að vinna þessa tillögu að Listaháskóla frekar, heldur fleygja henni.