Það er birt ný skoðanakönnun í Fréttablaðinu í dag og sitt sýnist hverjum. Það er rætt við alla stjórnmálaleiðtogana og allir túlka þeir könnunina sér í hag. Ég er búinn að lesa nokkur blogg þar sem bloggarar keppast við að teygja niðurstöðuna þannig að hún falli að þeirra pólitísku skoðunum og flokkadráttum.
En hvað þýðir þá þessi könnun. Hvað er athyglisverðast við hana?
í fyrsta lagi sú staðreynd að tæpur helmingur aðspurðra neitar að svara. Það gerir niðurstöðuna ekki ómerkilegri en eykur skekkjumörk gífurlega. Hvaða hópur er þetta sem neitar að svara? Hópurinn sem nánast allir stjórnmálaflokkar vilja eigna sér, m.a.s. Sjálfstæðisflokkurinn.
í öðru lagi að þrátt fyrir allt skuli Sjálfstæðisflokkurinn fá 29,2% í þessari könnun (mér hefði fundist 9,2% eðlilegra).
Ég held að það sé óhætt að segja að þetta háa hlutfall óákveðinna þýði einfaldlega að þetta fólk geti ekki hugsað sér að kjósa þá flokka sem nú er boðið upp á. Það þýðir ekki að nýr valkostur fengi allt þetta fylgi. Við sjáum á Íslandshreyfingunni að ný framboð eiga erfitt að laða til sín fylgi (og hæfa frambjóðendur). Stór hluti þessa hóps kaus Sjálfsstæðisflokkinn síðast en getur ekki hugsað sér að gera það aftur en getur eiginlega ekki hugsað sér að kjósa hina flokkana heldur. Þetta fólk er líklegt til að sitja heima í kosningum eða e.t.v. kjósa Samfylkinguna. Einhver hluti hópsins eru fyrrverandi kjósendur Samfylkingar sem treysta sér ekki til að lýsa yfir stuðningi við Vinstri-græna. Það fólk kemur líklega til að skiptast á þessa tvo flokka ef framundan væru kosningar. Lítill hluti þessa hóps eru Framsóknarmenn sem létu tilleiðast að kjósa flokkinn síðast í þeirri von að hann biði ekki þau afhroð sem hann gerði. Fólk sem núna vill ekki lýsa yfir stuðningi við Framsókn og endar líklega hjá Vinstri-grænum. Ég geri ráð fyrir að þeir sem kusu Vinstri græna síðast hafi líklega allir gefið sig fram núna og séu því ekki í hópi óákveðinna.
Sé þetta rétt hjá mér eiga líklega bæði Vinstri grænir og Samfylking enn eitthvað fylgi í þessum hópi en Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn líklega ekkert. Það gæti útskýrt þessa góðu niðustöðu Sjálfstæðisflokksins í könnuninni. Þeir sem fylgja flokknum í gegnum þykkt og þunnt gefa sig allir fram og hátt hlutfall þeirra sem neita að svara leiðir til þess að þeir eru næstum þriðjungur þeirra sem taka afstöðu. Þ.a.l. að raunfylgi Sjálfstæðisflokksins er núna milli 15 og 20% ekki hærra. Vinstri grænir slaga líklega í 30 og Samfylking í 40. Afgangurinn af óákveðnum enda svo væntanlega á því að kjósa Frjálslynda, Íslandshreyfinguna eða nýtt framboð ef gengið væri til kosninga.
í ljósi þessa þætti mér ólíklegt annað en að nýtt framboð mundi koma fram og ef þar væri frambærilegt fólk á listum, s.s. þekkt fólk úr stéttafélögum, félögum atvinnurekanda, menntageiranum, fólk sem væri þekkt af því að hafa varað við núverandi ástandi og boðið fram lausnir, þá gæti slíkt framboð fengið talsvert fylgi (milli 10 – 15% sem er mikið fyrir nýtt framboð).