Það er augljóst að ef einhver þingmaður Borgarahreyfingarinnar er á leið út úr henni og til liðs við aðra flokka þá er það ekki Þráinn Bertelsson heldur hinir þrír. Það var ekki Þráinn sem fór í pólitískan skollaleik í ESB málinu og greiddi atkvæði gegn stefnu Borgarahreyfingarinnar um að ekki væri hægt að taka afstöðu fyrr en samningur lægi fyrir og því ætti að hefja viðræður við ESB og leyfa þjóðinni svo að skera úr um málið. Það er ekki heldur Þráinn sem hefur lýst því yfir að vel komi til greina að samþykkja ICESAVE með ákveðnum skilyrðum sem samræmast á engan veg þeim forsendum sem settar voru fram í stefnuskrá Borgarahreyfingarinnar um samninga við kröfuhafa.
Mér leist ekkert alltof vel á Þráinn til að byrja með og hef ákveðið horn í síðu hans vegna fordómafullra og þröngsýnna skrifa hans um trúlausa hér um árið, en ég verð að segja eins og er að í þessum málum er hann minn þingmaður og eina ástæða þess að ég sé enn einhverja ástæðu til að styðja Borgarahreyfinguna.
Finnur í titlinum er svo Finnur Sveinbjörnsson, bankastjóri Kaupþings. Nú les ég í DV að hann hafi með fjárglæfrastarfsemi sinni fyrr á árum kostað þjóðina 150 milljarða. Þ.e. áður en FLokkurinn gerði hann að bankastjóra með hjálp Samfylkingarinnar. (Ó, Jóhanna ábyrgð þín er mikil!) Mér sýnist ekki bara að maðurinn ætti að víkja heldur jafnvel að hann eigi heima á bak við lás og slá.
Annað virðist siðleysi vera hið ríkjandi norm í bönkunum m.v. þessa færslu Jónasar:
„Jó-jó prins og prinsessa
Finnur Sveinbjörnsson kúluprins og jó-jó lögbannsins er ekki eina vandamál Kaupþings. Komið er í ljós, að formaður bankaráðsins er líka kúluprinsessa. Hulda Dóra Styrmisdóttir fékk kúlulán upp á 200 milljónir á núverandi verði. Hún er ennfremur annað jó-jó í lögbannsmálinu. Fyrst samdi hún tilkynningu um lögbannsbeiðnina. Síðan samdi hún bréf til starfsmanna, þar sem ráðið þvær hendur sínar af Finni og lögbanninu. Hafi ekki þjónað hagsmunum bankans og hafi valdið bankanum skaða, sem Hulda Dóra harmar. Of mikið er fyrir einn banka að hafa jó-jó í tveimur æðstu stöðunum. Hætta þau ekki bæði strax?“
Spurningin um Þráinn eða Finn (eða jafnvel þessa Huldu Dóru) svara ég því þannig að Þráinn á að sitja sem fastast en Finnur á að hverfa á braut.