Fyrsta sýningin sem ég sá var Umbúðalaust í flutningi Leikfélags Kópavogs. Þetta er sýning sem er unnin með spuna í samstarfi leikaranna og leikstjórans. Leikfélag Kópavogs hefur unnið fleiri svona sýningar og þessi minnti mig um sumt á Memento Mori sem þau settu upp með Hugleik um árið og við í Freyvangsleikhúsinu settum upp síðasta haust. Þessi sýning er þó ekki jafn sterk og hún. Að vísu hefur hún það umfram Memento Mori að hún er sjónrænt mikilfenglegri en sagan á bakvið og samhengið í verkinu er ekki jafn gott. Auðvitað er ómaklegt að fjalla um þessa sýningu á þeim nótum að bera hana saman við þessa fyrri verðlaunasýningu.
Umbúðalaust er ádeila á neyslusamfélagið, kaupæði og umbúðamenningu. Þess vegna hefði verið skemmtilegt ef það hefði verið kafað dýpra í þessari sýningu. Vissulega er farið aðeins undir yfirborðið en söguþráðurinn verður samhengislaus og sjaldan er farið það djúpt í að greina hvers vegna yfirborðið (umbúðirnar) sem persónurnar hylja sig með eru einmitt eins og þær eru en allar eru þær falskar að einhverju marki.
Það má því kannski segja að það séu einmitt umbúðirnar sem halda þessu verki uppi. Sviðsmynd, ljós og búningar eru framúrskarandi og hópurinn notar þessi atriði einmitt til að skapa mjög fallegar og áhrifaríkar myndir á sviðinu. Það er helst það sem lifir eftir sýninguna, þ.e. hve flottar umbúðirnar voru. E.t.v. er það meðvitað hjá leikflokknum að leggja einmitt svo mikið upp úr umbúðunum í verki sem hefur þetta umfjöllunarefni.
Sýningin er mjög listræn og falleg en hefði mátt taka betur á því sem var til umfjöllunar.
Ég gef þrjár stjörnur (af fimm).