Hér er hægt að lesa 1. kafla tillögunnar að nýrri stjórnarskrá sem heitir: Undirstöður.
Við skulum lita á þessar 5 greinar sem eiga að vera undirstöður Lýðveldisins:
1. gr. Stjórnarform
Ísland er lýðveldi með þingræðisstjórn.
Þetta er í raun samhljóða núverandi 1. grein: „Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn“ bara aðeins annað orðalag. Þarna er samt fyrsti ásteitingarsteinn minn við nýju stjórnarskránna. Mér finnst nefnilega sá siður að Alþingi kjósi ríkisstjórn og ríkisstjórn verði að hafa meirihluta á Alþingi ekki hafa gefist sérstaklega vel. Þetta er fyrirkomulag sem leiðir til algers tangarhalds ríkisstjórna á þinginu og yfirtöku þess á löggjafarvaldinu. Þing sem er þannig algerlega háð ríkisstjórn hefur ekkert vald yfir henni og á mjög erfitt með að sinna eftirlitshlutverki sínu gagnvart framkvæmdavaldinu.
Næsta grein er svohljóðandi:
2. gr. Handhafar ríkisvalds
Alþingi fer með löggjafarvaldið í umboði þjóðarinnar.
Þetta er einfaldlega rangt þar sem þetta stangast á við fyrstu greinina í þessum kafla. Þar sem er þingræðisstjórn ræður stjórnin yfir þinginu og fer þ.a.l. bæði með framkvæmda- og löggjafarvald. Þannig er það í núverandi stjórnarskrá og þannig verður það áfram m.v. þetta. Eina leiðin til að koma í veg fyrir yfirtöku ríkisstjórnar á löggjafarvaldinu er að kjósa hana í sérstakri kosningu og meina henni að leggja lög fyrir þingið. Jafnvel gæti ríkisstjórn þurft að leggja fjárhagsáætlun fyrir þingið sem myndi svo setja fjárlög út frá henni. í dag kemur öll lagasetning frá ráðuneytunum og þannig verður það áfram m.v. þessi drög að stjórnarskrá.
Allt í lagi, áfram heldur þessi grein:
Forseti Íslands, ráðherrar og ríkisstjórn og önnur stjórnvöld fara með framkvæmdarvaldið.
Hæstiréttur Íslands og aðrir dómstólar fara með dómsvaldið.
Upptalningin á því hvaða vald ráðherrar, ríkisstjórn og önnur stjórnvöld fara með er reyndar ófullkomin m.v. það sem sagði á undan um löggjafarvaldið. Ennþá er einnig gert ráð fyrir að ráðherra skipi dómara. í þessum drögum er ekki einu sinni gert ráð fyrir að Alþingi þurfi að samþykkja þá skipan (sem raunar hefði engu skipt þar sem ríkisstjórnin á að hafa meirihluta á Alþingi). Dómsvaldið er því í raun í höndum ráðherra líka. Þannig má umorða 2. grein í heild sinni svona: „Allt vald er í höndum formanna þeirra flokka sem mynda ríkisstjórn hverju sinni.“ s.s. engin breyting á því sem kollkeyrði landið.
Næsta grein:
3. gr. Yfirráðasvæði
Íslenskt landsvæði er eitt og óskipt. Mörk íslenskrar landhelgi, lofthelgi og efnahagslögsögu skulu ákveðin með lögum.
Jú, jú, allt í lagi. Kemur í veg fyrir að Vestmannaeyjar lýsi yfir sjálfstæði en só vatt? E.t.v. ekki lýðræðislegasta stjórnarskrárgrein sem hægt er að hugsa sér.
4. gr. Ríkisborgararéttur
Rétt til íslensks ríkisfangs öðlast þeir sem eiga foreldri með íslenskt ríkisfang. Ríkisborgararéttur verður að öðru leyti veittur samkvæmt lögum.
Engan má svipta íslenskum ríkisborgararétti.
Íslenskum ríkisborgara verður ekki meinað að koma til landsins né verður honum vísað úr landi. Með lögum skal skipað rétti útlendinga til að koma til landsins og dveljast hér, svo og fyrir hvaða sakir sé hægt að vísa þeim úr landi.
Hef svo sem engar athugasemdir þannig, en örfáar spurningar. Það að ríkisborgararéttur sé veittur skv. lögum, þýðir það að Alþingi getur haldið áfram að veita rétt tengdum útlendingum ríkisborgararétt meðan aðrir þurfa að bíða árum saman? Af hverju má ekki svipta menn ríkisborgararétti? Kemur ákvæðið um að íslenskum ríkisborgara verði ekki vísað úr landi í veg fyrir að framsalssamningar virki?
Síðasta greinin í þessum kafla:
5. gr. Skyldur borgaranna
Stjórnvöldum ber að tryggja að allir fái notið þeirra réttinda og þess frelsis sem í þessari stjórnarskrá felast.
Allir skulu virða stjórnarskrá þessa í hvívetna, sem og þau lög, skyldur og réttindi sem af henni leiða.
Þarna er sagt að stjórnvöld skuli fara eftir þessari stjórnarskrá og allir þegnar landsins líka. Þarf virkilega að setja ákvæði um það í lög og stjórnarskrár að það eigi að fara eftir þeim? Allt í lagi ákvæði en að mínu mati algerlega tilgangslaust.
Niðurstaða: Þessi drög staðfesta yfirráð framkvæmdavaldsins, og þar með tveggja til þriggja einstaklinga í einu, yfir öllum valdsviðum landsins. Þetta fyrirkomulag leiddi landið út í þær ógöngur sem við lentum í og mun gera það aftur. Vonbrigði mín yfir því að ekki skuli skilið betur á milli valdsviðanna í þessum drögum eru gífurleg. Þar sem það er ekki gert verða aukinheldur flest ákvæði sem á eftir fylgja í þessum drögum ómarkverð því þau verður að skoða í því ljósi að í þessum kafla er búið að festa fámennisstjórnræðið í stjórnarskrá. Allt tal um eftirlitshlutverk, sjálfstæði dómstóla, rannsóknarnefndir o.s.frv. er með þessum kafla gert tilgangslaust.
Þessi kafli er fyrst og fremst ástæða þess að ég mun aldrei geta samþykkt þessi drög í þjóðaratkvæðagreiðslu.