Fyrir heilum áratug (2001) þá skrifaði ég bók. Síðan gerði ég eiginlega ekkert við hana. Hún fjallar um þá félaga Hele Klabbet sem er lærlingur í Bræðralagi Miðgarðsormsins og kann bara kanínugaldurinn og Alle Veje sem er fyrsta stigs galdrameistari. Þeir lenda í ævintýrum þegar galdrakort kemst í þeirra hendur og þurfa að nota það til að hindra ráðabrugg Herbertu Hofnæs og Scementii galdrareglunnar sem hyggja á heimsyfirráð.
Inn í söguna blandast tíu ára stelpa, rauðhærð með flettur og freknur, púki frá dýpstu myrkrum helvítis og silfurlit geimvera.
Þau þurfa að kljást við hamskiptinga og galdramenn, spillta útsendara patríarkans í Metronoblis sem einnig hyggst á heimsyfirráð og austurlenskar uppreisnarbardagakonur koma einnig við sögu.
Ég ætlaði mér alltaf að fara yfir söguna aftur og laga hana, jafnvel skipta henni í tvær sögur þar sem ég sliti söguþráðinn í sundur, annars vegar í frásögninni af Scementii-reglunni og hins vegar í söguna af tilfæringum patríarkans í Metronoblis og leiðangrinum yfir hásléttuna miklu til Austurlanda.
Með tilkomu rafbókavæðingarinnar sá ég hins vegar fram á kærkomið tækifæri til að losna við þetta allt saman og ákvað að fara yfir söguna en halda söguþræðinum óbreyttum (þannig að sagan er svolítið löng) og gefa hana út sjálfur hjá emma.is.
Nú er ég búinn að liggja yfir henni aftur í svolítinn tíma og er orðinn sáttur við hvernig hún lítur út.
Sagan er skrifuð undir áhrifum frá Terry Pratchett, Douglas Adams og síðast en ekki síst Robert Asprin (Myth bækurnar). Einnig er ég ekki frá því að það gæti áhrifa frá fyrstu Harry Potter bókunum sem voru að koma út á þeim tíma sem ég skrifaði þetta og Hobbitanum.
En núna er bókin s.s. komin út og hægt að kaupa hana á emma.is og hún kostar bara 990,- kr.