Um síðustu helgi fórum við í brúðkaup á Hvammstanga þar sem þau Skúli og Ester voru að gifta sig eftir að hafa verið saman í 18 ár. Þau eiga líka þrjú börn og tvo fóstursyni svo það var ekki seinna vænna. Það var mjög gaman og leiðinlegt að geta ekki verið í partýinu alla nóttina en á sunnudaginn átti Kári 9 ára afmæli og við vorum búin að skipuleggja heljarinnar Simpson veislu.
Á Hvammstanga fengum við líka nýjasta fjölskyldumeðliminn, lítinn, grábröndóttan kettling sem var gefið nafnið Earl Grey. Óliver, gamli, feiti, guli högninn okkar var nú reyndar ekkert ánægður með þennan nýja meðlim til að byrja með en er farinn að taka hann í sátt.
Þar sem Bjössi mágur og konan hans eru nýbúin að eignast dóttur þá fellur fjölskylduútilegan niður þetta árið. Dagur er farinn á landsmót skáta og um næstu helgi er ættarmót hjá móðurfólkinu mínu í Fannahlíð og því ákvað ég að fara í smá útilegu með Kára. Það verður örugglega gaman hjá okkur tveimur saman. Við ætlum að leggja í hann á morgun og enda svo útileguna í Fannahlíð á laugardaginn.
Gulla, Earl Grey og Óliver verða því ein heima í nokkra daga og þegar við komum aftur verða kettirnir vonandi orðir perluvinur.
Svona að lokum þá langar mig að segja að ég skil ekki afhverju allir eru að pirra sig svona á Össuri þessa dagana. Maðurinn hlýtur að mega hafa skoðanir eins og aðrir. Hann er líklega að nota tækifærið eftir að hann missti formannstitilinn til að láta allt vaða sem hann gat ekki sagt sem formaður. Ég held það sé best fyrir R-lista fólk að láta bara eins og það heyri ekki í honum. Sjálfur skil ég ekki alveg afhverju Vinstri Grænir og Framsóknarmenn eru svona mikið á móti prófkjöri þar sem fólk úr öllum þessum flokkum gæti boðið sig fram og kosið. Mér finnst það hljóma eins og réttlátasta fyrirkomulagið. Ef fylgi Samfylkingarinnar er minna en í síðustu Alþingiskosningum, eins og VG og Framsókn halda fram, þá ættu þeir flokkar ekki að tapa á þessu.