Nú hefur Steingrímur J. Sigfússon varpað fram þeirri hugmynd að VG og Samfylking myndi kosningabandalag fyrir næstu kosningar. Slíkt væri fáheyrt í íslenskri pólitík og Samfylkingin hefur tekið illa í hugmyndina. Það finnst VG slæmt. Að vissu leyti má skilja vonbrigði VG með það þó efast megi um að Steingrímur hafi átt von á að Samfylkingin tæki þessari hugmynd opnum örmum. Jafnvel frekar má ímynda sér að tilgangur hans með yfirlýsingunni hafi einmitt verið sá að fá þessi viðbrögð fram hjá Samfylkingunni því þau láta VG óneitanlega líta betur út í samanburðinum og maður sér á bloggsíðum VG-linga hvívetna að herbragðið hefur borið árangur, a.m.k. í þeirra röðum. Það væri líka mjög gott fyrir íslenska pólitík að bjóða upp á skýra valkosti fyrir kosningar svo þjóðin geti raunverulega kosið næstu ríkisstjórn. Til að slíkt gangi upp þurfa flokkarnir að mynda tvö kosningabandalög. Það er ekki nóg að einhverjir tveir af fimm flokkum geri það, nema hinir þrír lýsi því þá jafnframt yfir að þeir ætli að vinna saman eftir kosningar líka. Þá geta kjósendur kosið á milli bandalaganna, annars ekki.
Fyrirkomulag líkt og ég var að lýsa hefur lengi tíðkast á hinum Norðurlöndunum, þ.e. að borgaraflokkarnir myndi saman kosningabandalag annars vegar og vinstri flokkarnir hins vegar. Þetta var einnig raunin á ítalíu í nýlegum kosningum þar. Því miður hefur þetta ekki verið raunin á Íslandi og ólíklegt að svo verði í bráð því til þess að þetta sé raunhæfur möguleiki verða allir stjórnmálaflokkarnir að taka þátt.
Hitt er svo annað mál að ef ríkisstjórnin missir meirihlutafylgi í næstu kosningum þá er augljósasti kosturinn sá að stjórnarandstaðan taki við. Við verðum samt að gera ráð fyrir þeim möguleika að hún nái ekki saman.
Fyrir sveitarstjórnarkosningar hér á Akureyri var augljóst mál að minnihlutinn myndi vinna meirihlutann og taka við. Þeir sem kusu minnihlutaflokkanna gerðu það án vafa í þeirri trú að þeir væru þar með að kjósa meirihluta Samfylkingar, VG og Lista fólksins næsta kjörtímabil. Hins vegar fór það svo að Samfylking og VG náðu alls ekki saman og niðurstaðan varð stjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Niðurstaða sem eflaust mikill meirihluti Akureyringa er ósáttur við og meirihluti sem líklega nýtur minnihluta stuðnings bæjarbúa. Hins vegar er erfitt að sjá annan starfhæfan meirihluta þegar Samfylking og VG geta ekki unnið sman (hverju sem það er svo um að kenna).
Gerist slíkt sama í landsmálunum má segja að ákaflega fáir möguleikar verði í stöðunni. Þrátt fyrir að samstjórn Samfylkingar, VG of Frjálslyndra væri óskaniðurstaðan má efast um að hún sé raunhæf. Framsókn kemur örugglega til með að tapa stórt í kosningunum og vilja hvíla sig á stjórnarsamstarfi. Geti stjórnarandstöðuflokkarnir þrír því ekki myndað meirihluti er ljóst að næsta ríkisstjórn verður samsteypustjórn Sjálfsstæðisflokks og annað hvort Samfylkingar eða VG. í dag finnst mér það líklegasta niðurstaðan þar sem flest bendir til að ríkisstjórnin haldi naumum meirihluta en Framsókn verði óstarfhæf eftir kosningar.
Niðurstaðan er því í rauninni sú að að loknum kosningum eru fáir möguleikar í stöðunni og flestir slæmir nema sá ólíklegasti.