Þá er maður kominn suður. Ég þarf að mæta á fund hjá FG á morgun. Það er einhvern veginn voða mikið að gera hjá mér þessa dagana. Núna hvílir helst á mér próf í almannatengslum í næstu viku, próf sem ég þarf sjálfur að búa til fyrir krakkana í skólanum fyrir miðvikudaginn, fréttabréfið sem ég þarf að koma út fyrir þemadagana í skólanum í næstu viku og verkefnið í mannauðsstjórnuninni sem ég á að skila í næstu viku. Hins vegar hef ég ekki skrifað neinar dagbókarfærslur í því fagi fyrir daginn í dag eða gær. íðan var ég samt að klára minn hluta í hópverkefni í almannatengslum og verð að segja eins og er að ég held að það sé alveg svakalega flott. Það er ekki síst að þakka henni Kristínu sem ég vann það með. Framundan eru svo áframhaldandi annir bæði í vinnunni og náminu. Ég var líka að fá ábendingu um atburð sem við í BKNE ættum að standa fyrir. Hugmyndin er að mínu mati mjög svo góð (og kom reyndar líka fram í fyrra þó ekki næðist að framkvæma hana þá) og líklegt að ég reyni að koma henni á koppinn. Ég tól þess vegna með mér hingað suður sögupróf sem ég þarf að skila yfirförnum á þriðjudaginn og ætla þar að auki að byrja á umræddu fréttabréfi. Á morgun eftir fundinn flýg ég svo beint norður aftur og næ vonandi að klára fréttabréfið á mánudagskvöldið svo það geti komið út á þriðjudaginn.
Þegar ég var að lenda áðan í Reykjavík og horfði á flugvéladekkin koma niður rifjaðist upp fyrir mér þáttur sem ég sá örugglega á BBC-prime og var fyrir krakka. Einn hluti þess þáttar fjallaði um flugvéladekk. Þau eru nefnilega mun merkilegri en maður skyldi ætla, t.d. þá þurfa þau að þola gífurlegt frost uppi í háloftunum og líka mikla hitasveiflu, því þegar kyrrstæð, frosin dekkin lenda á flugbrautinni fara þau á fleygiferð á örskotsstundu og núningurinn veldur miklum hita. Biðtími á flugvöllum, sérstaklega við flugstöðvar, er svo líka rándýr en á milli lendingar og flugtaks þarf að athuga öll dekk vélarinnar og skipta um þau sem ekki standast kröfur. Vegna tímapressu hafa flugfélög tekið upp á því að stúdera vinnuaðferðir þjónustuliða Formúlu1 liða og tileinkað sér þeirra tækni í þjónustu við flugvélar milli lendingar og flugtaks.