Það er meira en nóg að gera í náminu hjá mér. Sem betur fer var prófinu sem átti að vera í dag frestað til 10. nóvember en ég er samt búinn að vera á fullu að lesa. Ekki fyrir þetta próf heldur hópverkefni sem ég þarf að vinna á laugardaginn. Hins vegar uppgötvaði ég kl. 18:00 á miðvikudaginn að skiladagurinn á 1. verkefni í einu námskeiðanna minna var kl. 16:00 daginn eftir! Þetta er 40% verkefni og ég var ekki byrjaður að skrifa það. Samt var ég búinn að hugsa það vandlega, lesa gögnin og glósa úr þeim það sem ég ætlaði að nota, ákveða niðurstöðuna og hvaða rök ég ætlaði að færa fyrir henni. Þetta var sem sagt allt tilbúið. Það eina sem var eftir var að skrifa þetta (fyrir utan að horfa á fyrirlestur og lesa fyrir prófið sem ég hélt að væri í dag (og ýmislegt sem ég þurfti að gera fyrir BKNE)). Ég sat því við tölvuna til kl. 03:00 um nóttina og náði að klára, las yfir daginn eftir og er bara sáttur við niðurstöðuna. Vona að kennarinn verði það líka. Þessi seta olli svo því að mér leið daginn eftir eins og sparkað hefði verið oft og þéttingsfast í rassinn á mér. Þar að auki var ég svefnlaus og hálf vitlaus og gleymdi þar af leiðandi fundi hjá hópnum mínum í hópverkefninu sem var einmitt kl. 16:00. Fór bara í búðir, kom eldri syninum í flugvél (hann var að fara í siglingabúðir í Svíþjóð) og yngri syninum í skátana. Þegar ég var búinn að elda kvöldmat og borða fór ég því beint að sofa og svaf stanslaust frá 20:00 til 07:00 næsta morgun. Ellefu tímar! Þannig að núna er ég útsofinn og lærður. Þess vegna fann ég að sjálfssögðu tíma í dag til að þrífa ofninn, eldhúsið og baðherbergið! Það er ekki eins og ég þurfi að vera að læra fyrir próf, skrifa verkefni í tveimur kúrsum eða undirbúa mig fyrir hópverkefnið á morgun. 🙂 Annars bera tímasetningar þessa fólks sem ég er í hóp með þess vitni að það fylgist ekki með formúlunni. Ég ætla sko ekki að missa af keppninni á sunnudaginn!