Það er búinn að vera stormur og skítaveður í dag. í fréttunum var sagt að það væri þungfært innanbæjar á Akureyri. Og ég sem fór í Bónus og á bókasafnið! Og vissi ekki einu sinni af þessu! Svo, mitt í verstu hryðjunni, dettur Fréttablaðið inn um lúguna. Það sem þau leggja á sig þessi blaðburðabörn! Annars virðist Suzukí-inn minn Baleno standa sig betur eftir því sem er meiri snjór enda fjórhjóladrifinn. Ég glotti nú samt svolítið þegar við tókum fram úr kallinum sem var að spóla í gilinu.
í dag voru foreldraviðtöl í skólanum og í raun og veru allt í lagi með það. Ég skil þessi foreldraviðtöl samt eiginlega ekki alveg. Ég meina ef það er eitthvað sérstakt sem ég þarf að ræða við foreldra þá hef ég samband við þá og eins ef þeir þurfa að ræða við mig þá er bæði hægt að hringja eða senda tölvupóst. Ætli þetta séu ekki einhverjar leifar frá fornum tíma því ekki sé ég tilganginn fyrir þessu í nútímasamfélagi. Kláraði meira að segja annaráætlunina fyrir dönskuna. Hver veit, kannski að ég geti eitthvað notað þetta fyrst ég hafði fyrir því að gera þetta? Hef svo sem ekkert meira á huganum núna. Hlakka bara til að fara að lesa allar þessar fínu bækur sem ég náði í á bókasafninu: „The Sandman. A game of you“ og „The Sandman. Dream country“ eftir Neil Gaiman. Hann skrifaði „Good Omens“ með Terry Pratchett svo þetta hlýtur að vera gott. „The Icewind Trilogy“ eftir R. A. Salvatore. Þetta er einhver fantasíudella frá Forgotten Realms sem er nú ekki með því besta í þeim flokkinum, svona nokkurs konar rauða sería fantasíubókmenntanna en það getur verið gaman að kíkja á þetta samt. Og síðast en ekki síst: „Náðarkrafur“ eftir Guðmund Andra Thorsson sem hefur verið einn af mínum uppáhaldshöfundum síðan ég las „Mín káta angist“. Þannig að mér ætti ekki að þurfa leiðast þó svo ég verði veðurtepptur hérna inni næstu daga. Bæðevei … í Giljaskóla eru haldnir stuttmyndadagar í febrúar. Krakkarnir í unglingadeildinni skrifa handrit og taka upp myndir og svoleiðis. Svo eru veitt verðlaun fyrir bestu myndina, besta leikarann, besta handritið o.s.frv. Og þau eru kölluð GILJARINN!!! Er hægt að hugsa sér eitthvað ósmekklegra?